Morgunblaðið - 30.11.2006, Blaðsíða 12
12 FIMMTUDAGUR 30. NÓVEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
FRÉTTIR
MEIRIHLUTI menntamálanefndar Alþingis
samþykkti í gærkvöldi að leggja til þá breyt-
ingu á frumvarpinu um Ríkisútvarpið ohf. að
því verði óheimilt að selja auglýsingar til birt-
ingar á Netinu. Einnig leggur nefndin til
ákveðnar takmarkanir á kostun dagskrárefnis á
þá leið, að tekjur af samningum við kostunar-
aðila megi ekki verða hærra hlutfall af kost-
unar- og auglýsingatekjum en það er í dag eða
um 10%.
Ekki varð annað ráðið af heimildum á vett-
vangi ríkisstjórnarmeirihlutans í gærdag en
samkomulag væri þá í augsýn um breytingartil-
lögu við frumvarpið um Ríkisútvarpið ohf., sem
hefði að markmiði að koma í veg fyrir að RÚV
verði fyrirferðarmeira á auglýsingamarkaði en
verið hefur. Ekki var hljómgrunnur fyrir því að
setja bann við auglýsingum eða að dregið yrði
úr þeim í útsendri dagskrá hljóðvarps og sjón-
varps. Á hinn bóginn voru uppi hugmyndir um
skv. heimildum Morgunblaðsins að setja þak á
útsendingartíma auglýsinga í mínútum talið.
Við það yrði miðað, að auglýsingatími í dagskrá
RÚV færi ekki umfram það sem hann var á síð-
asta ári eða að meðaltali á síðustu þremur árum.
Meirihluti menntamálanefndar komst hins
vegar eingöngu að samkomulagi um að leggja
til við þingið að settar verði skorður við að RÚV
hasli sér völl á nýjum mörkuðum fyrir auglýs-
ingar með því að leggja bann við sölu auglýs-
inga á vefsíðu RÚV. Til umræðu hefur verið
hvort banna ætti kostun sjónvarpsefnis í Rík-
issjónvarpinu. Ekki er vilji til þess hjá meiri-
hlutanum. Kostun sjónvarpsefnis hjá RÚV hef-
ur nær eingöngu átt sér stað við útsendingar frá
stórum menningar- og íþróttaviðburðum sem
RÚV er ætlað að sinna. Með einhverjum ráðum
þurfi að fjármagna útsendingar frá stórvið-
burðum og kostunarsala sé heppilegasta fyr-
irkomulagið. Niðurstaða meirihluta mennta-
málanefndar í gærkvöldi varð sú að tekjur af
samningum við kostunaraðila megi ekki verða
hærra hlutfall auglýsinga- og kostunartekna en
það er í dag eða um 10%.
Menntamálanefnd fundaði um breytingarnar
á frumvarpinu í gærmorgun og var svo boðað til
aukafundar í gærkvöldi þar sem frumvarpið var
afgreitt. Stjórnarmeirihlutinn stefnir ákveðið
að því að frumvarpið verði afgreitt sem lög fyrir
jól. Heyrst hafa efasemdarraddir meðal ein-
stakra framsóknarmanna að undanförnu um
frumvarpið og sendi Stjórn Sambands ungra
framsóknarmanna frá sér ályktun sl. þriðjudag
þar sem þingmenn eru hvattir til þess að sam-
þykkja ekki fyrirliggjandi frumvarp um RÚV
ohf. „SUF telur að hagsmunum RÚV og al-
mennings sé ekki best borgið með breytingu af
þessu tagi, og telur vænlegra að skoða kosti
þess að gera RÚV að sjálfseignarstofnun,“ seg-
ir m.a. í ályktun SUF.
Sigurður Kári Kristjánsson, formaður
menntamálanefndar, sagði í gær að engar efa-
semdir hefðu komið fram meðal framsóknar-
manna innan menntamálanefndar. „Ég las á vef
Björns Inga Hrafnssonar að hann hefði ein-
hverjar efasemdir um þetta, og svo kom álykt-
un frá Sambandi ungra framsóknarmanna. Ég
hef ekki orðið var við þessi sjónarmið hjá fram-
sóknarmönnum í nefndinni og ætla ekki að
skipta mér af innanfélagsmálum þeirra. Björn
Ingi á ekki sæti á Alþingi og þaðan af síður í
nefndinni, þannig að þessi sjónarmið hafa ekki
heyrst þar. Samstarf okkar sjálfstæðismanna
og framsóknarmanna í nefndinni hefur fram til
þessa verið alveg óaðfinnanlegt í þessu máli. Ég
hef enga ástæðu til að ætla annað en við séum
samstiga,“ sagði hann eftir fund nefndarinnar í
gærmorgun.
Hefðu í för með sér verðhækkun
Talsmenn fyrirtækja á auglýsingamarkaði
eru mótfallnir hugmyndum um að takmarka
þátttöku RÚV á auglýsingamarkaðinum. Ekki
hefur verið óskað umsagnar Sambands ís-
lenskra auglýsingastofa við frumvarpið en á
fundi í fyrradag ákvað SÍA að óska eftir að
koma sjónarmiðum auglýsingastofa á framfæri
við þingnefndina.
„Alveg skelfileg hugmynd,“ sagði Hallur
Baldursson, framkvæmdastjóri auglýsingastof-
unnar ENNEMM, í gærdag um þær hugmynd-
ir sem fram hafa komið í umræðunni á seinustu
dögum um að takmarka þátttöku RÚV á aug-
lýsingamarkaði. „Eins og þetta snýr gagnvart
okkur á auglýsingamarkaði þá er þetta í fyrsta
lagi skemmdarstarfsemi gagnvart miðlinum
sem slíkum. Við teljum að fjölmiðlar sem ætla
að vera stórir og öflugir í þjóðlífinu þurfi að geta
sinnt öllum hópum,“ segir hann. „Í öðru lagi
verður þetta til þess að samþjöppun mun verða
á auglýsingamarkaðinum, sem er ekki af hinu
góða,“ segir Hallur. Hann segir það samdóma
álit þeirra sem starfa á auglýsingamarkaði að
ekki eigi að þrengja að þátttöku RÚV á auglýs-
ingamarkaði. Að mati Halls myndi slíkt leiða til
þess að einhver tilflutningur milli miðla ætti sér
stað en óvíst væri hvernig hann mundi verða.
„Þetta endar allt hjá neytendum og það er því
ekki jákvætt að þrengja samkeppnina, sem
hlýtur að hafa í för með sér verðhækkun.“
Þak sett á kostunarsamninga RÚV
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Frumvarp Stefnt er að því að Ríkisútvarpið
verð sjálfstætt hlutafélag í eigu ríkisins.
Meirihluti menntamálanefndar
leggur til að sett verði þak á
kostunarsamninga hjá RÚV og
að bannað verði að selja auglýs-
ingar til birtingar á Netinu.
Í HNOTSKURN
»Framkvæmdastjóri ENNEMM telurað takmarkanir á auglýsingar RÚV
myndu þrengja að samkeppni og leiða
til verðhækkunar á markaðinum.
»Rætt var um að setja þak á útsend-ingartíma auglýsinga í Ríkisútvarp-
inu til að koma í veg fyrir að það verði
fyrirferðarmeira á markaðinum.
»Stefnt er að því að frumvarpið verðiafgreitt sem lög fyrir jól og nýju lög-
in taki gildi 1. janúar 2007. Ákvæði um
afnotagjald verði í gildi til 1. janúar
2009.
Eftir Ómar Friðriksson
omfr@mbl.is
K
erfið er að mörgu leyti
vanmáttugt gagnvart
venjulegu fólki sem
lendir í erfiðleikum.
Forðast verður að
stimpla alla sem lenda í vandræðum
sem vandræðafólk og fara strax í
það að kenna foreldrum um veik-
inda barna sinna því það má ekki
gleymast að það eru líka til geðveik
börn.
Þetta kom fram í máli Jennýjar
Steingrímsdóttur og Ólafs Snorra-
sonar á morgunverðarfundi sem
fræðslunefnd Stéttarfélags ís-
lenskra félagsráðgjafa stóð fyrir í
gærmorgun í tengslum við 16 daga
átak gegn kynbundnu ofbeldi.
Markmið fundarins var að fjalla um
hinar ólíku birtingarmyndir ofbeld-
is á heimilum, hvort sem það birtist
gegn konum af hendi maka, öldr-
uðum af hendi aðstandenda og heil-
brigðisstarfsfólks eða gegn for-
eldrum ýmist af hendi barna þeirra
eða kerfisins. Auk Jennýjar og
Ólafs fluttu erindi þær Sigþrúður
Guðmundsdóttir, framkvæmda-
stýra Samtaka um kvennaathvarf,
og Kristjana Sigmundsdóttir, fé-
lagsráðgjafi í útskriftar- og öldr-
unarteymi LSH.
Jenný og Ólafur eru foreldrar
fjögurra barna og eru synir þeirra
tveir, Matthías sem er 17 ára og
Steingrímur sem er 21 árs, báðir
geðfatlaðir. Var eldri sonur þeirra
Steingrímur með þeim á fundinum
og sat í pallborði ásamt öðrum fyr-
irlesurum að erindum loknum.
Fram kom í máli Jennýjar og Ólafs
að rúmur áratugur er síðan eldri
sonurinn veiktist. Röktu þau raunir
sínar við að fá rétta greiningu fyrir
Steingrím, sem sýndi ofbeldisfulla
hegðun og átti til að fá köst sem
hann mundi síðan ekkert eftir, þar
sem hann braut t.d. allt leirtau, reif
fötin sín og barði frá sér. Eftir
margra mánaða baráttu fyrir því að
fá rétta greiningu og meðhöndlun
var Steingrímur loks lagður inn á
BUGL, en útskrifaður þaðan eftir
átta mánuði þar sem hann þótti of
veikur til þess að vera vistaður á
spítalanum og var sendur heim.
Steingrímur hafði verið greindur
með athyglisbrest og ofvirkni og
lýsti Ólafur því hvernig reynt var
að gefa honum rítalín, en það gerði
ekkert nema flýta framþróun sjúk-
dómsins.
Á vakt allan sólarhringinn
Ólafur og Jenný lýstu því hvernig
þau hófu að leita sér upplýsinga á
Netinu, sem leiddi til þess að þau
höfðu uppi á amerískum fræði-
manni sem aðstoðaði þau við að
greina Steingrím með geð-
hvarfasýki með aðstoð staðlaðra
prófa. „Þegar hann loks fékk rétta
greiningu gat hann loks fengið
rétta lyfjagjöf og þá fórum við loks-
ins að sjá árangur,“ sögðu Ólafur
og Jenný og bættu við að þegar
Steingrímur var kominn á lithium
hefði hann getað farið að sækja
skóla með afar góðum árangri, en
Steingrímur er í dag búinn með
rennismiðinn, langt kominn með
vélvirkjann og stúdentspróf af nátt-
úrufræðibraut.
Að sögn Ólafs tóku þau Jenný þá
ákvörðun að hugsa um drengina
heima, enda sannfærð um það væri
best fyrir strákana. „Hins vegar
var spurning hvernig við ættum á
sama tíma að framfleyta sex manna
fjölskyldu,“ segir Ólafur og benti á
að fyrst hefði honum verið bent á
að skrá sig á atvinnuleysisbætur.
„Það samrýmdist hins vegar ekki
minni sjálfsvirðingu, enda var ég
ekki atvinnulaus,“ segir Ólafur og
tekur fram að þá hafi Félagsþjón-
ustan komið með afbragðslausn
fyrir alla sem fólst í því að Ólafur
var ráðinn í fullt starf til þess að
hugsa um syni sína, en bæði hann
og Jenný eru heimavinnandi. Þann-
ig má segja að lausnin í þeirra til-
felli hafi falist í því að heimilinu var
breytt í meðferðarheimili þar sem
foreldrarnir voru gerðir að starfs-
mönnum. Lögðu Jenný og Ólafur
áherslu á að síðan þá hefði þau átt
afar gott og árangursríkt samstarf
við BUGL og Félagsþjónustuna sem
staðið hefði við bakið á þeim eins og
klettur.
Fram kom í máli þeirra Ólafs og
Jennýjar að þar sem þau væru í
vinnunni allan sólarhringinn alla
daga ársins væri afar mikilvægt að
þau fengju reglulega frí til þess að
vinda ofan af sér þreytuna sem
skapist við þessar aðstæður. „Hér
áður fyrr nægði okkur að fá frí á 16
mánaða fresti, en eftir því sem tím-
inn líður verður úthald okkar
minna. Í dag þurfum við að komast
í burtu tvisvar á ári til þess að vinda
ofan af okkur og hlaða batteríin,“
sagði Jenný.
Í erindinu gerði Jenný ofbeldi
kerfisins sérstaklega að umtalsefni.
Greindi hún frá því hvernig hún
hefði framan af ferlinu á fundum
með starfsmönnum heilbrigðiskerf-
isins og Félagþjónustunnar ítrekað
orðið fyrir árásum og niðurrifi af
hendi þeirra sem hefðu frekar átt
að styðja við bakið á henni. Tók hún
fram að hún hefði aðeins mætt slíku
viðhorfi ef hún mætti á fund ein, en
ekki ef Ólafur var með henni. „Þótt
okkur konur vanti typpi erum við
persónur sem umgangast á af virð-
ingu og vinsemd. Það á ekki að
þurfa að hafa karlinn með til þess
að aðgát sé höfð í nærveru sálar.“
Heimilið var gert að meðferðarstað og
foreldrarnir ráðnir sem starfsmenn
Ofbeldi á heimilum á
sér ýmsar birtingar-
myndir. Það getur birst
gegn konu af hendi
maka, gegn öldruðum
af hendi aðstandenda
eða gegn foreldrum af
hendi barna þeirra sem
og kerfisins.
Morgunblaðið/Ásdís
Heimilið meðferðarstaður Heimili í herkví var yfirskrift erindis Jennýjar Steingrímsdóttur og Ólafs Snorrason-
ar á fundinum, en þau hjónin eiga tvo geðfatlaða drengi og hugsa um þá á heimili sínu.
silja@mbl.is