Morgunblaðið - 23.11.2007, Blaðsíða 19

Morgunblaðið - 23.11.2007, Blaðsíða 19
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 23. NÓVEMBER 2007 19 LISTAKONAN Karitas Jónsdóttir, sem forðum bjó með Sigmari sjóara, átti með honum börn og buru en fórnaði ást og fjölskyldu fyrir sjálfstæði og myndlist, hefur nú snúið aftur. Í nýjustu bók sinni, Óreiða á striga, heldur Kristín Marja Baldursdóttir áfram að segja okkur frá lífshlaupi þessarar stór- brotnu konu. Bygging sagnanna er sú sama og togstreita Karitasar milli skyldu og frelsis heldur áfram. Þegar sagan hefst er Karitas teikni- kennari á Eyrarbakka og gengur fram af forpokuðum kerlingunum með háttalagi sínu. Hún kemst til Parísar, kynnist hringiðu listar- innar, fer til New York og hefur getið sér gott orð þegar hún flytur heim til Íslands eftir andlát móður sinnar. Þetta er mikil kvennasaga, eins og Kristínu Marju er lagið, um sterkar konur og sjálfstæðar. Þær eiga sér drauma, leita hamingjunn- ar hver með sínum hætti og eru margar velktar í lífsins ólgusjó: „… í hvert sinn sem sem konum miðar áfram í baráttunni fyrir frelsi sínu og sjálfstæði skella karlarnir á stríði til að sýna yfirburði sína. Og konurnar verða að einbeita sér að því að vernda börnin fyrir ógnum stríðsins, þær teygja sig ekki í völd- in meðan börnin gráta af ótta eða hungri. Frelsi þeirra er kýlt niður í nafni móðurhlutverksins, karlinn skammtar konunni peninga og hún verður þræll hans“ (154) segir hin franska Madame sem hefur lifað tvær heimsstyrjaldir. Hjónakornin Sigmar og Karitas, sem geta hvorki verið sundur né saman, eiga margar orðasennurnar og takast á um lífs- gildin. Í einni rimmunni segir Karit- as: „Ég væri víst löngu orðin fræg væri ég karlmað- ur en í feðraveld- inu hampa karlar hver öðrum og það versta er að konurnar hampa þeim líka, því ef þær færu nú að hampa hver ann- arri, hver ætti þá að sjá um þvotta þjóðarinnar?“ (363). Persónurnar eru spriklandi af lífi, augljóslega fulltrúar ýmissa gilda og þjóðfélagshópa en þær eru hvorki svarthvítar né klisjulegar. Bjarghildur sveitarljómi sem flutti á mölina er andstyggðin sjálf en um leið er hún stórfyndin og örlög hennar harmræn, Sigmar stendur fyrir togaraútgerðina sem færði þjóðarbúinu auð og afl, synirnir eru karlrembur sem vilja hafa konur við eldhúsbekkinn og ásaka foreldra sína fyrir sjálfhverfu og eigingirni en Silfá litla er fulltrúi ungu kyn- slóðarinnar sem fer í kröfugöngu til að heimta jafnrétti og ekkert múð- ur. Samtölin eru afar vel skrifuð, stíllinn er myndrænn og áreynslu- laus, stundum er eins og maður sé að horfa á kvikmynd og stundum er eins og Salka Valka hafi stigið inn í Dalalíf. Fjölmörg tákn skjóta upp kolli í sögunni aftur og aftur, s.s. vindur, dúfur og blautur þvottur sem tákna mótlæti kvenfrelsisbar- áttunnar, samstöðu kvenna og skyldurnar sem lífið skaffar þeim. Í lokin sitja eftir spurningar um hvort frelsið hafi verið of dýru verði keypt, hvort ástin sé það mikilvæg- asta í lífinu og hvort konur þurfi alltaf að velja milli skyldu og sköp- unarþrár. Óreiða á striga er stór- skemmtileg kvennasaga, mögnuð samfélagslýsing og saga allra þvottakvenna heimsins. Þvottakonur heimsins BÆKUR Skáldsaga Eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur. 541 bls. Mál og menning 2007. Óreiða á striga Steinunn Inga Óttarsdóttir Kristín Marja Baldursdóttir FRAMARLEGA í skáldsögu Ágústs Borgþórs Sverrissonar, Hliðarspori, veltir önnur aðal- persóna verksins, Daníel, fyrir sér hvar dagar lífs hans hafi lit sínum glatað: „Þegar hann var ungur bjó and- inn í ljóðum atómskáldanna og fyndnu kynslóðarinnar, í suður- amerískum skáldsögum; hann bjó í gítarleik Hendrix, Zappa, Towns- hend og Claptons, í progrokki Yes og fusion-tímabili Miles Davis eða jazzrokki Weather Report; hann bjó í heimspeki Sartre, matreiddri í einföldum endursögnum eða jafnvel bara helstu frösunum; í frönskum, þýskum og ítölskum mánudags- myndum Háskólabíós; blýants- teikningum á Mokka, regndropum á rúðunni og slitróttu pári í vasa- kompu. Núna var ekki til neinn andi. […] Efnið hafði algjörlega tekið yfir.“ (37) Höfundur skáletrar orðin andi og efni enda eru það þessar andstæð- ur sem liggja söguefni hans til grundvallar, yfirfærðar á hugleið- ingar um framhjáhald og eðli þess. Í Hliðarspori er sagt frá tveimur giftum miðaldra karlmönnum, Daníel og Árna, sem báðir eru að kljást við „gráa fiðringinn“; þetta breytingaskeið karlmanna sem á sér stað þegar þeir horfast í augu við að hversdagsleg efnishyggja hef- ur borið æsku- drauma andans ofurliði. Inn í líf þeirra Daníels og Árna koma ungar konur sem veita spennu inn í staðn- aða og fyrirsjáanlega tilveru. Án þess að ljóstrað sé upp um sögu- þráð er óhætt að upplýsa að kjarni frásagnarinnar snýst um framhjá- hald. Hér er stefnt saman karli sem heldur líkamlega (en ekki and- lega) framhjá konunni sinni og öðr- um sem lætur andlegt samband nægja. Höfundur vill að lesendur velti fyrir sér eðli framhjáhalds: Er munur á þessu tvennu? Er fram- hjáhald sem ekki er líkamlegt í raun og veru framhjáhald – og öf- ugt? Hvort er „betra“ (eða „verra“) að halda framhjá í andanum eða efninu? Vera kann að hægt sé að kafa á áhugaverðan hátt ofan í þessar spurningar en mér finnst það ekki takast hér, það er einfaldlega of grunnt kafað og sagan er of enda- slepp; framhjáhaldssamböndin sem um ræðir eru of stutt á veg komin til þess að afstaða aðalpersónanna tveggja sé trúverðug. Endir bók- arinnar er lýsandi fyrir þetta. Þar eru í uppsiglingu spennandi átök á milli persóna þar sem í fyrsta skipti gæti reynt á siðferðisþrek þeirrar persónu sem segist vera andlega ástfangin (þó lesandi komist ekki hjá því að efast um að þar sé annað á ferðinni en þrá rithöfundar eftir aðdáun og athygli). Sögunni lýkur áður en til nokkurra átaka kemur. Ágúst Borgþór Sverrisson hefur getið sér gott orð fyrir smásagna- skrif en hann hefur áður sent frá sér fimm smásagnasöfn. Hliðarspor er hins vegar frumraun hans á sviði skáldsagnagerðar og niðurstaðan er óhjákvæmilega sú að hann ræð- ur ekki fullkomlega við formið. Það kemur ekki eingöngu fram í efnis- tökunum heldur einnig í stílnum sem er mjög „köflóttur“; góðir og slæmir kaflar skiptast á frásögnina út í gegn. Hér kemur t.a.m. glögg- lega í ljós hversu tölvupóstsam- skipti geta verið óspennandi sem bókmenntatexti. Styrkur höfundar liggur hins vegar ekki síst í per- sónulýsingum; lesandinn fær áhuga á persónum en þarf því miður að skilja of snemma við þær, of margt er ósagt um þær flestar. Þegar allt kemur til alls felst helsti veikleiki sögunnar líklega í því að höfundur beitir frásagnartækni smásögunnar á form sem gerir aðrar og ólíkar kröfur. Andinn eða efnið? BÆKUR Skáldsaga Eftir Ágúst Borgþór Sverrisson. Skrudda 2007, 149 bls. Hliðarspor Soffía Auður Birgisdóttir Ágúst Borgþór Sverrisson TITILLJÓÐ ljóðabókar Gerðar Kristnýjar, Höggstaður, prýðir kápubakið og er rammlega kveðið þótt ekki sé rímað. Ljóðstafir og stuðlar mynda stríðan takt og hrynjandi. Myndir ljóðsins eru tengdar ógn og eyðileggingu: brú og brunnir stöplar, kyndill í krepptri hendi, hér er engum þyrmt. Ljóðin eru þó flest friðsæl, a.m.k. á yfirborðinu, og fjalla um líf- ið og landið. Sorgin gerir aðför að skáldinu, óvelkominn gestur kemur í heimsókn en í skagfirskum kirkju- garði ríkir sátt við líf og dauða. En sums staðar læðist einhver óskil- greindur uggur að: hafsbotn lætur undan, stráin hópa sig saman, öskur klýfur kyrrðina og skyndilega berst vein í gegnum vængjaþyt. Hefðin er ekki langt undan í ljóð- unum, bæði hvað varðar form og efni. Myndmálið er heildstætt, t.d. í hinu ískalda Ættjarðarljóði (5) þar sem sængurföt eru kvíði, drífa og snjóbreiða. Vetur og myrkur ráða ríkjum og persónugerð á stöku stað, t.d. í Norður (7) og Við vatnið: „Hvítir fyrir hærum / skríða hamr- arnir / út úr nóttinni. / Grátt fyrir járnum / ryður frostið veginn …“ (43). Nótt (13) og Logn (42) lýsa ást sem einkennist af öryggisleysi og innilokun og margræð íronían, sem Gerður Kristný er þekkt fyrir, birt- ist víða, s.s. í Nótt: … Ég sekk um þúsund faðma án þess að nokkur þeirra nái á mér taki … Nokkrar kunnar persónur koma við sögu í listilegum ljóðum, t.d. Egill Skalla-Grímsson, Hallgerður í Laugarnesi og Helgi tattoo. Í ljóð- inu Jónas er dulúðug stemning en húmorinn ekki langt undan. Ljóðið hefst í Danmörku og endar í Öxna- dal, þjóðskáldið paufast peðfullt upp þrepin sem urðu honum að ald- urtila: Útidyrnar opnast inn í hús þar sem þoka leikur um þrepin og tunglskinið strengist milli veggja Nóttin er þungstíg í þessu húsi reikul í spori en ratar samt heim Bara að nú verði ekki sungið, hugsar fólkið í húsinu og festir aftur blund Í dögun hrekkur það upp við hrafna á þaki þeir teygja sig eins og tindar upp í himininn (25) Titill bókarinnar er margræður líkt og á fyrri ljóðabókum Gerðar Kristnýjar, Ísfrétt (1994) og Laun- kofi (2000). Á þessari bók er engan höggstað að finna, varla veikan blett, ljóðin eru falleg, yfirveguð og djúp, þau síast inn í hugann og sveima þar eftir að lestri lýkur. En listin tekur sinn toll, skáldið er greinilega sárt eftir þung högg skáldfáksins og í hjartanu dunar hófatak hans. „Með hófadyn í hjartastað“ BÆKUR Ljóð Eftir Gerði Kristnýju. 47 bls. Mál og menning / Edda útgáfa 2007. Höggstaður Steinunn Inga Óttarsdóttir Gerðuberg • www.gerduberg.is • sími 575 7700 GERÐUBERG LEYNDARMÁLIÐ hans pabba hefur undirtitilinn: „Bók handa börnum með foreldravandamál“ og svo sannarlega eiga systkinin, sem eru aðalpersónur bókarinnar, við al- varlegt foreldravandamál að stríða og gildar það raunar einnig um marga skólafélaga þeirra. Bókin hefst þannig: „Flestar fjölskyldur eiga sér leyndarmál. Hluti sem eng- inn má vita um þær. Ég veit til dæmis að stóri bróðir hans Davíðs í mínum bekk er í fangelsi þó hann haldi að enginn viti það. [...] Ég veit líka að mamma hennar Hönnu drekkur svo mikið af brennivíni að enginn má koma heim til hennar eftir klukkan átta á kvöldin nema óeirðalögreglan.“ Af þessu mætti ætla að á sé að bresta barnabók í anda félagslegs raunsæis sem vin- sælar voru á áttunda áratugnum, ekki síst á Norðurlöndum. Því fer þó fjarri, hér er um að ræða ærsla- sögu þar sem ýkjur, fáránleiki og gróteskur húmor ræður ríkjum. Vandamálið sem systkinin eiga við að stríða er heldur ekki neitt venju- legt vandamál því það er fólgið í því að faðir þeirra er mannæta! Frásögnin í lögð í munn tólf ára drengs en hann og systir hans eru orðin langþreytt á þessum ósið föð- ur síns og steininn tekur úr þegar hann er næstum búinn að éta besta vin þeirra, Bjössa börger. Faðirinn er reyndar með lögguna Viðar Hrafnsson (sem heitir reyndar Við- ar Hreinsson á bls. 77), betur þekktan sem Vidda nikótín, á hæl- unum eftir að hafa gleypt kennara- ófétið Magnús Marteins með húð og hári. Systkinin grípa því til örþrifa- ráða til að reyna fá föður sinn til að hætta þessu leiða athæfi og upphefst þá mik- ið sprell sem helst allt til bók- arloka. Margir þekkja teikningar Þórar- ins Leifssonar en hann hefur myndskreytt bækur, hannað bóka- kápur og teiknað fyrir Morgunblað- ið. Árið 2001 gaf hann út bókina Al- gjört frelsi, ásamt Auði Jónsdóttur, en Leyndarmálið hans pabba er fyrsta frumsamda bókin hans. Bók- in er að sjálfsögðu ríkulega prýdd myndum eftir Þórarin og óhætt er að segja að myndir og texti gegni jafnveigamiklu hlutverki í bókinni. Myndirnar, sem allar eru í lit, prýða hverja opnu bókarinnar og munu vera á sjöunda tug talsins. Margt gott má segja um þessa bók; sú blanda af ýkjum og hryllingi sem ræður ferðinni ætti að höfða til flestra krakka sem hafa náð þeim þroska að skilja tvíræðni og sprell. Hins vegar gæti verið dálítið erfitt fyrir unga lesendur að greina á milli alvöru og skops í bókinni því í bland við ærslasöguna er í texta Þórarins einnig að finna vísanir til alvarlegra vandamála á borð við alkóhólisma, heimilisofbeldi og einelti í skólum. Hér gefst foreldrum tækifæri til að lesa með börnum sínum og ræða muninn á gríni og alvöru og hvenær nauðsynlegt er fyrir börn að leysa frá skjóðunni þegar kemur að leyndarmálum hinna fullorðnu. Fullorðnum ætti ekki að leiðast lesturinn því persónulýsingar Þór- arins eru víða bráðskemmtilegar og tilvísanagrunnur bæði texta og mynda þéttur. Ærslasaga fyrir börn BÆKUR Barnabók Eftir Þórarin Leifsson. Mál og menning 2007, 120 bls. Leyndarmálið hans pabba Soffía Auður Birgisdóttir Þórarinn Leifsson

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.