Morgunblaðið - 07.12.2007, Síða 38
38 FÖSTUDAGUR 7. DESEMBER 2007 MORGUNBLAÐIÐ
MINNINGAR
✝ Gústaf Agnars-son fæddist í
Reykjavík 21. maí
1952. Hann varð
bráðkvaddur á
heimili sínu, Eiríks-
götu 4 í Reykjavík,
21. nóvember síð-
astliðinn. Foreldrar
hans eru hjónin
Agnar Gústafsson
hæstaréttarlög-
maður og Inga Dóra
Hertervig.
Gústaf var stúd-
ent frá Mennta-
skólanum í Reykjavík. Hann hafði
mikinn áhuga á íþróttum og var
um margra ára skeið einn af
fremstu lyftingamönnum lands-
ins, margfaldur Ís-
landsmeistari,
Norðurlandameist-
ari og methafi.
Hann stofnaði
ásamt fleiri mönn-
um Líkamsræktina
hf. sem var braut-
ryðjandi í líkams-
rækt á Íslandi. Rak
hann ásamt félögum
sínum Líkamsrækt-
ina um árabil en
seinni árin rak hann
stöðina einn. Síð-
ustu árin átti Gústaf
við veikindi að stríða.
Útför Gústafs verður gerð frá
Fossvogskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 13.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama;
en orðstír
deyr aldregi,
hveim er sér góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Gústi bróðir var afburðamaður.
Hann var mesta ljúfmenni, orðhepp-
inn og vel máli farinn og einn fremsti
íþróttamaður sem Ísland hefur alið.
Ég man þegar Gústi byrjaði að
stunda ólympískar lyftingar kring-
um 1970. Þá var hann hávaxinn og
stæltur, en mjög grannur.
Til að ná árangri þurfti hann að
þyngjast verulega og varð hann fljót-
lega yfir 100 kg að þyngd sem á þeim
tíma þótti mikið. Aðferð Gústa var að
viða að sér öllum tiltækum upplýs-
ingum um æfingaaðferðir og matar-
æði, greina vandamálið, gera áætlun
og fylgja henni síðan eftir út í ystu
æsar. Og árangurinn lét ekki á sér
standa, fljótlega var Gústi kominn í
fremstu röð lyftingamanna á land-
inu.
Þegar Gústi hóf að æfa skipuðu
þeir Óskar Sigurpálsson og Guð-
mundur Sigurðsson framvarðasveit
íslenskra lyftingamanna, báðir með
árangur á heimsmælikvarða. Þeir
tóku Gústa opnum örmum og studdu
hann með ráðum og dáð. Gaman er
að geta þess að þeir þremenningar
eru meðal örfárra Íslendinga sem
lyft hafa 200 kg í jafnhöttun.
Einungis fjórir Íslendingar hafa
náð þeim árangri í keppni auk eins
utan keppni. Gústi jafnhattaði 210 kg
í keppni og hefur enginn Íslendingur
leikið það eftir. Þetta eru þyngdir
sem fæstir fullfrískir karlmenn lyfta
frá gólfi, hvað þá frá gólfi upp á upp-
rétta arma.
Slíkur árangur krefst mikilla lík-
amlegra og andlegra hæfileika og
heilmikillar skipulagningar. Gústi
skráði sérhverja æfingu í dagbók og
greindi áhrif mismunandi æfingaað-
ferða og breytti síðan æfingum sam-
kvæmt niðurstöðunum. Árangur
slíkra vinnubragða var sá að Ísland
hafði brátt landslið í lyftingum sem
var á heimsmælikvarða.
Lyftingarnar höfðu forgang fram
yfir allt annað. Gústi stundaði á þess-
um árum nám við Menntaskólann í
Reykjavík. Dag einn tilkynnti hann
til skólans að hann forfallaðist vegna
veikinda. Sama dag setti hann Ís-
landsmet og brátt frétti Guðni heit-
inn Guðmundsson, rektor Mennta-
skólans, það. Þá sagði Guðni: „Ef
hann hefði verið heill heilsu hefði
hann sett heimsmet, drengurinn!“
Þetta var gullöld ólympískra lyft-
inga á Íslandi og reyndar alls staðar
á Norðurlöndum. Það má telja ótrú-
legt að íslenskir lyftingamenn stóðu
á þessum tíma lyftingamönnum ann-
ars staðar á Norðurlöndum fyllilega
jafnfætis þrátt fyrir furðulega slak-
an aðbúnað. Ég minnist þess þegar
ég byrjaði að lyfta, nokkrum árum
eftir að Gústi byrjaði, að æfingaað-
staðan var í litlum bílskúr á Fálka-
götu.
Guðmundur Sigurðsson minnti
mig nýlega á að Gústi var valinn í
Evrópulið lyftingamanna, til að
keppa gegn Ameríku. Gústi var þar
eini fulltrúi Norðurlandanna sem
sýnir glögglega að árangur hans var
vel þekktur og metinn utan land-
steinanna.
Árangur íslenskra lyftingamanna
á þessum tíma er enn stórfenglegri
þegar haft er í huga að þeir þurftu
sjálfir að fikra sig áfram með æfinga-
aðferðir og tækni, æfðu og kepptu
iðulega án fjárhagslegs stuðnings.
En Gústi hafði hvort eð er aldrei
áhuga á veraldlegum gæðum. Hann
taldi ekki eftir sér að færa fórnir.
Snorri Agnarsson.
Hann var glæsilegur maður hann
mágur minn, ljúfur öðlingur og okk-
ur afar kær. Gústi var að flestu leyti
einstakur maður. Hann var frjór og
hugmyndaríkur, fylginn sér, mann-
þekkjari og oftast hress og glaður.
Hann var sístarfandi að ýmsum
hugðarefnum sínum þegar hann var
upp á sitt besta og lét ekki takmark-
anir annarra hefta sig, því hann var
sjálfur ákaflega fordómalaus. Hon-
um var góðvildin og greiðviknin í
blóð borin enda átti Gústi marga
vini.
Hann var íþróttamaður af lífi og
sál og rak m.a. Líkamsræktina í
Kjörgarði ásamt öðrum og síðar
einn, í fjölmörg ár. Hún var með
fyrstu líkamsræktarstöðvum á land-
inu. Hann hvatti til heilsueflingar og
jákvæðrar breytni í hreyfingu og
mataræði og var tilbúinn að liðsinna
öllum sem til hans leituðu. Eldmóður
hans, reglu- og nægjusemi var aðdá-
unarverð. Hann var á margan hátt á
undan sinni samtíð.
Gústi var mikið snyrtimenni og
þægilegur í umgengni og skipulag
var á öllum hans hlutum. Það þurfti
líka ósköp lítið til að gleðja hann.
Hann naut þess að ferðast þegar
hann hafði heilsu til og hafði auga
fyrir því fallega í tilverunni.
Hann reyndist börnunum okkar
Snorra afar góður frændi og bar hag
þeirra og velferð fyrir brjósti og
lagði ýmislegt á sig fyrir þau.
Það er alltaf erfitt að kveðja ástvin
en dýrmætt að eiga um hann góðar
minningar. Hann kvartaði aldrei
þrátt fyrir að fá það hlutskipti að
verða mikill sjúklingur síðustu ævi-
árin. Það hefur eflaust verið honum
þungur kross að bera, jafn þróttmik-
ill sem hann var. En mín vissa er að
hans góða lund ásamt ástúðlegri um-
hyggju móður og föður hafi verið
honum raunabót. Gústi háði margar
orrustur á lífsleiðinni. Ég þekki eng-
an sem hafði sigur í jafnmörgum.
Hann var einstaklega næmur og
sinnti svo mörgum mikilvægum
mannlegum þáttum á meðan aðrir
voru uppteknir við eitthvað annað
„mjög áríðandi“.
Nú hefur hann lokið lífi sínu og
vafalaust átt góða heimkomu í eilífð-
arlandið. Hann lifði og dó með reisn.
Ég vil á þessari kveðjustund
þakka elskusemi hans við mig og
mína öll árin. Blessuð sé minning
Gústafs Agnarssonar.
Hvíl í friði, kæri mágur.
Sigurveig.
Kæri vinur, nú kveð ég þig í hinsta
sinn. Við kynntumst á leið úr skóla
þrettán ára gamlir, því við áttum
báðir heima í vesturbænum í Kópa-
vogi. Í fyrstu þekktumst við ekkert,
vorum bara tveir unglingar sem
gengum heim úr skóla, til að spara
okkur strætómiða til að nota til ann-
arra ferða en að fara í og úr skóla.
Dag eftir dag án þess að talast við
gengum við hvor á eftir öðrum, en að
lokum fórum við að talast við og varð
það upphafið að vináttu sem entist
okkur ævilangt.
Lyftingarnar voru stór partur af
lífi þínu og þar naustu þín og var ár-
angurinn eftir því, og varstu í mörg
ár í hópi bestu íþróttamanna lands-
ins og áttir marga bikara og verð-
launapeninga því til sönnunar, en
vænst þótti þér, held ég, um þann
bikar sem Lyftingasamband Íslands
afhenti þér og var viðurkenning fyrir
að vera besti lyftingamaður á Íslandi
frá upphafi.
Þrátt fyrir að þú nytir kvenhylli
langt umfram aðra menn fór það nú
einhvern veginn þannig að þótt þú
ættir í löngum samböndum við
margar góðar konur varð aldri úr að
þú gengir skrefið til fulls og stofn-
aðir fjölskyldu. Því hefði ég fagnað
og veit að samverustundir okkar
hefðu orðið fleiri ef það hefði orðið.
Þótt ég saknaði þess að þær
stundir sem við nutum saman væru
færri en ég hefði óskað er ég þakk-
látur fyrir þær sem við áttum saman
og á frá þeim stundum margar góðar
minningar, sumar einn og aðrar sem
ég deili með öðrum. Þær minningar
munu ylja mér um ókominn ár. Í dag
er komið að leiðarlokum og ég kveð
þig, vinur minn, þann besta sem ég
átti. Þín verður sárt saknað.
Vertu sæll.
Þinn vinur
Ágúst.
Að hryggjast og gleðjast
hér um fáa daga,
og heilsast og kveðjast
það er lífsins saga.
Hann trónaði oftar en flestir á
lista yfir „10 bestu“ íþróttamenn Ís-
lands í kjöri íþróttafréttamanna á
áttunda áratugnum. Gústaf Agnars-
son vinur minn var afreksmaður
hvort sem var til líkama eða sálar.
Minningar frá þessum tíma rifjast
upp.
Ég kynntist Gústa vorið 1970 er
hann mætti á lyftinganámskeið hjá
Ármanni. Þessi örgranni, hávaxni
piltur tók ástfóstri við íþróttina frá
fyrsta degi. Ferill hans stóð í tíu ár.
Gústi varð fyrst Íslandsmeistari vor-
ið 1972, hann varð sér úti um sjúkra-
leyfi frá útskriftarprófi til stúdents
frá MR. Þá átti Guðni Guðmundsson
rektor að hafa sagt: „Hvað ætli hann
hefði gert væri hann frískur“.
Gústi varð síðast Íslandsmeistari
árið 1980. Afrekalistinn er langur og
fjölbreyttur. Tugir Íslandsmeta litu
dagsins ljós, meðal annars þrír
Norðurlandameistaratitlar. Í árs-
byrjun 1973 í beinni útsendingu í
sjónvarpi lyfti Gústi 161 kg í snörun,
sem þá var hálfu kg yfir heimsmeti
unglinga. Árið 1978 var Gústi valinn í
úrvalslið Evrópu gegn Bandaríkjun-
um. Gústi keppti auk þess á mörgum
heims- og Evrópumótum með góðum
árangri.
Gústi byggði upp gríðarlegt lík-
amsatgervi með eigin rannsóknum
og þjálfunaraðferðum. Þá lagðist
Gústi yfir smáatriðaskoðun á aðferð-
um þeirra bestu. Þessi stóri 110 kg
maður bjó þar að auki yfir mikilli
snerpu og sprengikrafti, setti mörg
Íslandsmet í atrennulausum stökk-
um, hljóp 100 m t.d á 11 sekúndum.
Gústaf Agnarsson var fagmaður í af-
rekspælingum langt á undan sínum
tíma. Til marks um metnað hans og
nákvæmni skráði hann nánast allar
æfingar og keppnir og almennt
ástand líkama og sálar nánast hvern
dag í tíu ár. Það væri verðugt verk-
efni fyrir doktorsnema í íþróttafræð-
um að komast í þau rit. Ég hygg að
þótt Gústi hafi ekki haft mörg orð
um það þá hafi hann stefnt á heim-
stopp í lyftingaíþróttinni. Í undir-
búningi fyrir Ólympíuleikana í
Montreal 1976 slasaðist Gústi mjög
illa í bílslysi og náði hann sér aldrei
fyllilega á strik eftir það.
Sem ungur maður kunni Gústi að
gleðjast og skemmta sér, var vina-
margur og hrókur alls fagnaðar þeg-
ar sá gállinn var á honum. Hann
sagði vel frá, gat verið dálítið kald-
hæðinn stundum, án þess að meiða
þó. Gústaf var vel greindur, fremur
dulur að eðlisfari, hann leitaði þegar
frá leið meira og meira inn á við,
gerðist dulspekisinnaðri þegar á leið
ævina.
Við sem þekktum Gústa höfum
vitað að um árabil hefur hann ekki
gengið heill til skógar, þótt andláts-
fréttin hafi verið óvænt. Gústi lést í
svefni 21. nóvember sl. Heiður og
æra eru minnismerki Gústafs Agn-
arssonar. Ég votta foreldrum og
bróður ásamt öðrum ástvinum sam-
úð mína.
Guðmundur Sigurðsson.
Þá er víkingurinn loksins farinn
heim. – Svona stutta og tilgerðar-
lausa myndi Gústaf Agnarsson helst
viljað hafa minningargreinina um
sig, og bara eina grein. Engin
ástæða væri að fjölyrða meira um
hann og hans líf. Og alls ekki neitt
víl, heldur bara veislu og kveðjusam-
kvæmi, þar sem hann væri nú loks-
ins kominn til Sumarlandsins.
Fæstum finnst skynsamlegt að
hugsa um dauðann. Það er að vísu
rétt sem Goethe sagði: Memento
mori: Mundu að þú átt að deyja. –
Séra Sveinn Víkingur og einn af for-
ystumönnum spíritistans hér á landi
lungann af síðustu öld kallaði dauð-
ann þjón lífsins, hlið inní aðra og
mun meiri tilveru. Og líklegast er
það rétt samkvæmt öllum vísinda-
legum og óvísindalegum upplýsing-
um sem fyrir liggja um málið. Þess
vegna er það á sinn hátt léttir að
Gústaf Agnarsson skuli fremur en
margir aðrir hafa fengið kallið sitt í
svefni fyrir stuttu, því hann var ekki
bara tilbúinn, heldur vissi gjörla
hvað við tæki þegar þetta einstaka
ferðalag hæfist í lífi hvers. Samt er
alltaf sárt að sjá á eftir vinum sínum.
Sárastur er þó söknuður foreldra og
bróður og annarra nærvina og
vandamanna þegar menn eru kall-
aðir svona snemma af jörðinni.
Örlögin og meðfædd hlédrægni
sem og veikindi Gústafs höguðu því
þannig að við höfðum ekki sést um
árabil núna síðast, en aldrei fór hann
úr huga mínum eða annarra vina
sinna. Það var sammerkt að þegar
maður hitti einhverja af gömlu vin-
um Gústafs þá bar hann alltaf á
góma og með ákaflega fallegum um-
mælum allra og undantekningalaust.
Það segir eiginlega flest eða allt sem
segja þarf um Gústaf í minningar-
grein.
Gústaf var víkingur að vexti og yf-
irlitum, bjartur, kraftmikill, karl-
mannlegur, en samt ákaflega mjúk-
ur og fádæma orðvar í garð annara,
þótt sjaldan væri langt í húmorinn
og gleðina. Flestir vildu hafa fengið
líkamlegu vöggugjöfina hans í byrj-
un jarðlífs síns. En það breytir ekki
þeirri staðreynd fyrir þá sem and-
lega og líkamlega frískir eru að þá
var hin sjálfskipaða útlegð hans hin
síðari ár frá siðmenningunni flestum
ráðgáta.
Við Gústaf hittumst fyrst í Félagi
Nýalssinna sem þá var og hét um
1973. Var hann einn af lyftinga-
mönnunum sem voru í orkuhópnum
þar svokallaða. Voru þeir að sækja
sér kraft úr öðrum heimum með því
að sitja reglulega saman og magna
sig upp. Litum við nýliðarnir því ekki
lítið upp til orkuhópsins og þó sér-
staklega Gústafs. Fyrir nú utan öll
verðlaunin og sigrana sem hann náði
á þeim vettvangi. Síðar meir þótt
honum sjálfum það einber hégómi.
En að ná svona langt í lyftingum
kostar fórnir, líkamlegar fórnir. Fáir
eða engir sem svo langt ná í þeirri
vafasömu íþrótt ganga líkamlega
heilir frá því. Örugglega er það hluti
ástæðunnar að við stöndum hér nú,
hnípnir vinir og ættingjar í vanda og
árnum vini okkar og andlegum leið-
toga velfarnaðar í þessari för sem
hafin er til nýrra staða.
En öllum umbreytingum fylgir
líka gleði. Verið því glöð í hjarta og
sálinni og látið umhverfið ykkar
njóta þess. Það hefði Gústaf Agnars-
son örugglega viljað segja á þessari
sérstöku stundu.
Magnús H. Skarphéðinsson.
Ég kynntist Gústaf Agnarssyni,
eða Gústa eins og hann var nefndur
af þeim sem þekktu hann, árið 1974 á
lyftingaæfingum í Sænska frystihús-
inu þar sem nú stendur hús Seðla-
banka Íslands, en sá sem fékk mig á
Gústaf Agnarsson
✝
Elskulegur sambýlismaður minn, sonur, faðir, afi,
bróðir og fóstursonur,
GUÐMUNDUR BRAGI JÓHANNSSON,
Bergvegi 20,
Keflavík,
sem andaðist á heimili sínu föstudaginn
30. nóvember verður jarðsunginn í dag
föstudaginn 7. desember frá Keflavíkurkirkju
kl. 10.30.
Katrin O. Jóhannessen,
Jóhann L. Guðmundsson,
Sverrir Lúthersson,
börn og aðrir aðstandendur.
✝
Innilegar þakkir til allra sem sýndu okkur samúð
og hlýhug við andlát og útför ástkærs eiginmanns,
föður, tengdaföður og afa,
GUNNARS PÁLS ÍVARSSONAR,
Norðurfelli 7.
Jónína Ragnarsdóttir,
Andrea Margrét Gunnarsdóttir,
Katrín Sylvía Gunnarsdóttir, Gunnþór Jónsson,
Gunnar Páll Torfason,
Heimir Páll Ragnarsson.
✝
Innilegar þakkir fyrir auðsýnda samúð vegna
andláts og útfarar bróður okkar, mágs og frænda,
SIGURÐAR PÉTURS BJÖRNSSONAR,
Silla á Húsavík,
Arnviður Ævarr Björnsson,
Einar Örn Björnsson, Laufey Bjarnadóttir,
Hulda Björnsdóttir,
systkinabörn og fjölskyldur þeirra.