Morgunblaðið - 12.02.2008, Blaðsíða 20

Morgunblaðið - 12.02.2008, Blaðsíða 20
daglegt líf 20 ÞRIÐJUDAGUR 12. FEBRÚAR 2008 MORGUNBLAÐIÐ Þær fæddust mörg þúsund kílómetra frá Íslandi en fluttust yfir hafið og settust hér að. Sigríður Víðis Jónsdóttir ræddi við þrjár konur sem lýstu reynslu sinni af því að búa á Íslandi á ráðstefnunni Hnattvæðing og nútíma fólksflutningar. Af hverju Ísland? Á Filippseyjum eru töluð yfir 150 tungumál og þegar Gwendolyn Requierme var lítil lærði hún cebuano og ríkismálið tagalog. Mörgum árum seinna átti hún eftir að sitja sveitt yfir kennslubókum í ís- lensku, allt annars staðar á jarðkúlunni. „Það var rosalega erfitt að læra málið – en það skiptir nátt- úrlega öllu máli að gera það ef maður ætlar að setjast hér að. Til að byrja með er maður eins og lítið barn og skilur ekki eitt einasta orð og þá er ósjálfrátt komið fram við mann eins og maður sé dálítið vitlaus … Venjulega drekk ég ekki kaffi en ég gerði það á þessum tíma því ég var svo syfjuð af því að einbeita mér svona mikið! Og svo var ég alltaf í kuldagalla.“ Gwendolyn segir skellihlæjandi frá því þegar hún missti á afdrifaríkan hátt af strætó stuttu eftir að hún fluttist til lands- ins árið 2001. „Ég kunni ekkert á strætó, gat ekki borið al- mennilega fram nafnið á götunni minni, mundi engin síma- númer og var á endanum orðið svo kalt að ég varð næstum því úti! Þetta var skrýtið land sem ég var komin til … En núna finnst mér það æðislegt.“ Grensásdeild og græna kortið Gwendolyn er hjúkrunarfræðingur, vinnur á Grensásdeild á Landspítalanum og býr í stóru raðhúsi í Rjúpufelli ásamt ís- lenskum eiginmanni og tveimur sonum. Í eldhúsinu sýslar faðir hennar, hann er í heimsókn frá Bandaríkjunum. „Pabbi hefur alla ævi unnið í útlöndum til að geta veitt okkur systkinunum gott líf. Þegar mamma dó fluttumst við krakk- arnir til systur hennar en pabbi sendi peninga heim. Við lærð- um öll í góðum skólum og ég er þakklát fyrir það.“ Sum systkina Gwendolyn hafa flust til Bandaríkjanna eins og pabbi þeirra. „Þau ætla ekki að koma til Íslands – halda að þau geti ekki lært málið … En það er líka orðið erfiðara fyrir þá sem eru utan EES að komast hingað, bæði til að vinna og bara koma í heimsókn. Hvaða gögn á nákvæmlega að útvega er óljóst. Það mætti gefa fólki skýrari svör svo það sé ekki að bíða og vona svo mánuðum skiptir. Hins vegar er ekkert mál fyrir pabba að koma hingað því hann er með græna kortið frá Banda- ríkjunum! Íslenska í vinnunni Eitt sem ég dáist mikið að á Íslandi er að hér er mjög öruggt að búa. Og það sem er mikilvægast fyrir mig er að börnin mín fá sömu virðingu og umhyggju og önnur börn, þótt þau séu af erlendum uppruna. Ég held samt að ýmislegt mætti gera til að bæta aðgengi að íslenskukennslu. Til dæmis gæti verið sniðugt að hafa íslenskunám í vinnunni í einn tíma á dag. Þótt fyrirtæki þyrftu að greiða kostnaðinn af slíkum námskeiðum gæti það margborgað sig. Það mætti líka bjóða upp á barnagæslu með- fram íslenskunámskeiðum en ég held samt að best sé að reyna að tengja þetta vinnunni. Eru ekki flestir orðnir þreyttir eftir langan vinnudag?“ Gwendolyn Requierme frá Filippseyjum Morgunblaðið/Frikki Á Landspítalanum Gwendolyn Requierme vinnur á Grensás- deild, finnst öruggt að búa á Íslandi og heldur að vel gæti gef- ist að samþætta íslenskunám við vinnu erlendra starfsmanna. Kuldagalli og kaffi komu sér vel Þ að var snjóþungt og dimmt þegar Emebet Merk- uria steig út úr flugvélinni á Ís- landi í janúar 2001. Hún hafði aldrei séð snjó og aldrei verið svona kalt á fótunum. Kuldinn vandist þó fljótlega og seinast þegar Emebet heimsótti Eþí- ópíu fannst henni alltof heitt í gamla bænum sínum Arba Minch. „Ég var búin að gleyma hvað verður heitt þar!“ Emebet unir hag sínum vel hér á landi, segist meira að segja vera farin að kvarta minna um veðrið en Íslend- ingar – en til að byrja með fannst henni ýmislegt skrýtið. „Í Eþíópíu borða menn til dæmis aldrei einir, það er bara ekki til siðs. Það var al- veg nýtt fyrir mér að borða og vera kannski bara alveg ein! Eða að hella ein upp á kaffi. Í Eþíópíu er mikið um kaffi- rækt og sérstök serimónía þegar hellt er upp á. Fólk hér er miklu meira eitt en fólk í Eþíópíu.“ Konur og karlar með sama rétt? Það voru íslensk hjón, Mar- grét Róbertsdóttir og Bene- dikt Jasonarson, sem buðu Emebet og fyrrum eigin- manni hennar að koma til Ís- lands og sjá landið, en þau höfðu unnið í Eþíópíu. Þau þekktust boðið og enduðu með að flytja til Íslands. Eig- inmaður hennar hafði beitt hana ofbeldi í Eþíópíu en eftir að hún flutti hingað til lands skildu þau. „Ég lét bara ekki bjóða mér þetta lengur. Ég sá að hlut- irnir voru öðruvísi hér og að hérna höfðu konur sama rétt fyrir lögum og karlar.“ Hún segir að sér þyki sér- staklega vænt um að geta alið dætur sínar, Yadonay og Afo- miu, 6 og 10 ára, upp á Ís- landi. „Í Eþíópíu njóta stúlkur sín oft illa. Þær þurfa að læra hvernig á að elda og þrífa og vinna langan vinnudag. Kynin hafa mjög ákveðin hlutverk og það er að mörgu leyti erfitt að alast upp sem stúlka þarna. Stúlkur eiga að halda sig til hlés og þegar ég var lítil fékk ég ekki oft að leika mér úti eins og dætur mínar hér, heldur þurfti að vinna mikið og þekkti ekki rétt minn.“ Emebet útskýrir að hún reyni að halda eftir hefðunum sem hún er alin upp við sem henni finnist jákvæðar, til dæmis að eldra fólki sé sýnd virðing. „En við hinar losa ég mig!“ Erfitt að kunna ekki málið Emebet er úr stórum systkinahóp en foreldrar þeirra dóu með stuttu millibili þegar yngsta systirin var ein- ungis 10 ára. Hún kom hingað til lands og stundar í dag nám í Iðnskólanum. Emebet bend- ir á að í dag sé orðið erfiðara fyrir fólk sem er utan EES að fá ættingja sína hingað til lands. Í Eþíópíu var Emebet kennari en hefur síðustu fjög- ur árin unnið á dvalarheim- ilinu Seljahlíð. „Það tók tíma að vera viðurkennd, sér- staklega þegar maður kunni ekki málið. En í dag vil ég hvergi annars staðar vera en á Íslandi.“ Emebet Merkuria frá Eþíópíu Á ég að borða ein? Árvakur/Kristinn Unir hag sínum vel Emet Merkuria kynntist jafnrétti á Íslandi og þykir vænt um að dætur hennar alist upp við það viðhorf. Þ egar Maria del Pil- ar Acosta Gomez var í menntaskóla í milljónaborg í Kólumbíu grun- aði hana ekki að hún myndi setjast að á Íslandi. Ekki einu sinni þegar hún lærði um Evr- ópu og talaði sjálf um Ísland á Evrópudegi í skólanum. „En síðan langaði mig og vinkonu mína að lenda í æv- intýri og við ákváðum að fara til Íslands í eitt ár … Systir vinkonu minnar bjó hérna. Eftir að ég var komin til Ís- lands versnaði ástandið heima, viðskiptabannið gerði hlutina verri og atvinnuleysi jókst. Ég ákvað þess vegna að prófa að vera aðeins lengur – og síðan eru liðin 10 ár!“ Dóttir Mariu heitir Laufey og er 6 ára. Hún er íslenskur ríkisborgari og talar bæði spænsku og íslensku. Lifrarpylsur og svið Maria er iðnaðarverkfræð- ingur en fyrst eftir að hún kom til landsins vann hún á elliheimili og í leikskóla. „Eins og flestir útlendingar hérna …“ segir hún hlæjandi. „En það var samt frábært tækifæri því ég hefði ekki get- að prófað þetta í Kólumbíu. Sá sem er búinn að mennta sig í ákveðnu fagi þar færi aldrei að vinna við eitthvað annað.“ Maria fór síðar að vinna sem verkfræðingur hjá Par- logis hf. og segir samstarfs- fólkið þar vera eins og fjöl- skyldu sína. Hennar eigin fjölskylda kom þó einnig hing- að til lands fyrir nokkrum ár- um. „Það hefur gengið mjög vel. Bróðir minn vinnur í IKEA, systir mín er í Háskóla Ís- lands og mamma vinnur á Þremur frökkum. Það er svo notalegt að hafa þau hérna. Við mamma búum í sama húsi og það er voða gott að geta fengið kólumbískan mat þeg- ar hún eldar! Sjálf er ég betri í að elda íslenskan mat. Ég elska fisk og lambakjöt og borða lifrarpylsu og svið. Stundum ruglast ég og tala ís- lensku við mömmu. Það er dá- lítið skrýtið að ég hugsa og dreymi á íslensku en tel á spænsku!“ Meira úrval í verslunum Maria segist taka eftir tölu- verðum breytingum á þeim áratug sem hún hefur búið hér á landi. „Til dæmis er miklu meira úrval í búðunum en áður. Það er líka orðið auð- veldara fyrir útlendinga að fá vinnu við störf sem þeir hefðu áður ekki verið ráðnir í. Hins vegar er orðið miklu erfiðara að fá að vera á landinu ef mað- ur er ekki frá EES-svæðinu. Stundum eru reglurnar skrýtnar. Systir mín á til dæmis 11 mánaða gamlan son sem fæddist hér á landi en á erlendan föður. Hún er með ótímabundið dvalarleyfi en litli strákurinn bara með leyfi til eins árs!“ Maria bætir hlæjandi við að endingu að umræðan geti líka stundum verið fyndin. „Fólk talar kannski við mig um „þessa útlendinga“ en drífur sig svo í að taka fram að það sé sko ekki að tala um mig! En auðvitað er það að gera það. Ég er útlendingur og verð það alltaf en ég bý á Ís- landi og finnst það frábært.“ Maria del Pilar Acosta Gomez frá Kólumbíu Vildi lenda í ævintýri Árvakur/Frikki Íslenskir draumar Maria del Pilar Acosta Gomez vinnur hjá Parlogis hf. og segist hugsa á íslensku en telja á spænsku. sigridurv@mbl.is

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.