Morgunblaðið - 12.10.2008, Side 11

Morgunblaðið - 12.10.2008, Side 11
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 12. OKTÓBER 2008 11 aðrar Evrópuþjóðir. Ég tel hins vegar að það hafi að undanförnu komið í ljós, að á þessum reglum eru mjög veigamiklir ann- markar. Stjórnvöld, bæði í Bandaríkjunum og Evrópu, munu þegar þessu slotar ráðast í miklar umbætur varðandi reglurnar hjá þeim og það munum við að sjálfsögðu einnig gera. Það þarf að breyta ýmsu hjá okkur. Það þarf að setja mjög skýrar reglur um eign- arhald og krosseignarhald, til dæmis um það að hlutabréf í bönkum séu veðsett í öðr- um bönkum, til tryggingar fyrir kaupum á hlutabréfum í bönkunum sjálfum. Það þarf að setja reglur um aðild eignarhaldsfélaga að atvinnurekstri. Þessar reglur þurfa allar að vera mjög hnitmiðaðar og veita það að- hald sem nauðsyn krefur. Hörmulegasta gatið í þeim reglum sem nú gilda er að mínum dómi það að bönkum var gert það kleift að lofa ábyrgð ríkisins í gegnum Innlánstryggingasjóð á sparireikn- ingum sem komið var upp erlendis. Það er gríðarlegt vandamál sem er búið að búa til þar, en það hafa íslensk stjórn- völd ekki gert, þó svo að það séum nú við sem þurfum að takast á við þann vanda sem er fyrir hendi og er ástæðan fyrir þeim deil- um sem við eigum í við okkar gömlu vini á Bretlandi.“ – Gátum við ekki séð það fyrir að eitthvað svona gat gerst þegar farið var af stað með Icesave í Bretlandi og síðar hjá Kaupþing Edge? „Þessir reikningar eru leyfilegir samkvæmt EES-reglunum, en tryggingin á þeim fer eftir því hvort starfsemin er rekin í útibúi eða dótt- urfélagi. Við ræddum ítrekað við forsvars- menn Landsbankans um að koma þessari starfsemi í breskt dótturfélag og þar með undir breska ríkisábyrgð. Því miður hafði ekki verið gengið frá þessu í tæka tíð. Þá spyrja eflaust einhverjir hvers vegna ríkisstjórnin hafi ekki knúið fram þá breytingu en það eru auðvitað takmörk fyrir því hversu mikið rík- isstjórnin getur fyrirskipað einkafyrirtækjum hvað varðar þeirra innri málefni og skipulag. Bankarnir sáu sér þarna leik á borði til þess að treysta sína fjáröflun og misstu þetta á endanum út úr höndunum á sér, með skelfi- legum afleiðingum.“ – Hvað telur þú að forystumenn Sjálf- stæðisflokksins hafi gert rangt á und- anförnum tuttugu árum, í sambandi við það að koma böndum á frelsið? „Ég tel að í grunninn höfum við verið með eftirlitskerfi, sem ætti að duga, en ég rakti hér áðan fyrir þér nokkur vandamál sem hafa komið upp og við þurfum að lag- færa. Sömu sögu má segja um Samkeppn- iseftirlitið. Í mörgum atvinnugreinum eru mjög fá fyrirtæki starfandi, sem gerir það að verkum að Samkeppniseftirlitið þarf að vera þeim mun virkara. Svo er það auðvitað líka þannig að ýmis fyrirtæki hafa við ein- hverjar aðstæður gengið á lagið. Um það höfum við ákveðin dæmi, en í okkar þjóð- félagi, þar sem nálægð er mikil á milli manna, hefur reynst erfitt að fylgja eftir ströngum reglum og harkalegum refsingum þegar menn hafa farið út af sporinu. Það má vel vera að við þurfum að herða viðurlög við brotum, sem bæði Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið komast á snoðir um. En það bíður þá lagabreytinga og leysir ekki úr þeim vanda sem nú er við að fást.“ Efla eftirlitsstofnanir – Er ekki komið á daginn að það þarf að stórefla eftirlitsstofnanir íslensks þjóðfélags í dag – eftirlitsstofnanir sem oft á tíðum virðast helst vera til málamynda en ekki raunverulegs aðhalds og eftirlits? „Þær hafa ekki verið til málamynda en ég get tekið undir það heilshugar að það þarf að efla eftirlitsstofnanir. Það er t.d. þegar búið að leggja fram frumvarp um að efla til muna starfsemi Fjármálaeftirlitsins með auknum fjárveitingum.“ – Margir hafa haldið því fram að Davíð Oddsson, forstöðumaður einnar eftirlits- stofnunar, Seðlabankans, hafi um langa hríð verið lagður í einelti af ákveðnum fjöl- miðlum, þingmönnum stjórnarandstöðunnar og þingmönnum úr röðum samstarfsflokks ykkar, Samfylkingarinnar. Hvernig á Seðlabankinn að rækja sitt hlutverk við þessar aðstæður? „Það er augljóslega erfiðara fyrir Seðla- bankann að rækja sitt hlutverk en það væri ef stjórn bankans sæti á fullkomnum frið- arstóli. Ég tel mjög rangt og villandi að persónugera þau viðfangsefni og þau miklu vandamál sem ríkisstjórnin, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið og ótalmargir aðrir eru nú að kljást við í persónum þeirra ein- staklinga sem nú sitja í stjórn Seðlabank- ans.“ – Kostaði þessi skortur okkar á raunveru- legu eftirliti, aðhaldi og reglugerðarverki okkur ekki óhemju mikið? „Það er auðvelt að vera vitur eftir á og segja má að umhverfi og regluverk fjár- málakerfisins bæði hér og í Evrópu hafi ekki verið hugsað út frá því að allt hið versta myndi gerast og það nánast allt í einu. Hins vegar verður í þessu samhengi að vekja athygli á því að skuldsetning bank- anna í útlöndum, sem er helsta orsök vandamálanna sem við glímum við nú, var ekki eftirlitsstofnununum að kenna. Bank- arnir störfuðu innan þeirra laga og reglna sem í gildi eru, en tefldu aftur á móti mjög djarft í sinni starfsemi erlendis og tóku mikla áhættu. Margt af því gekk mjög vel og ég vil líka benda á að á meðan allt lék í lyndi skiluðu bankarnir mjög góðri afkomu. Það kom ekki í ljós fyrr en þrengdist að að bankarnir réðu ekki við hinar miklu skuldir sínar. Við stóðum frammi fyrir stórri og erfiðri spurningu: Á þjóðin að borga þær skuldir sem bankarnir hafa stofnað til? Eigum við að skattleggja kom- andi kynslóðir til þess? Eigum við að leggja þær risavöxnu byrðar á börnin okkar? Þetta er hin stóra spurning sem við stóðum frammi fyrir. Íslenska ríkið, sem er nánast skuldlaust, mun að sjálfsögðu standa í skilum eins og það hefur ævinlega gert. Ég held því að þegar við komumst í gegnum þetta gjörn- ingaveður munum við að mörgu leyti standa sterkari eftir sem þjóð. Við munum, eftir því sem fært er, gera upp okkar skulda- bagga og eftir það, munum við horfa fram á veginn, á grundvelli okkar atvinnuvega, með það að leiðarljósi að bæta lífskjör Íslend- inga. Það er komið á daginn, ólíkt því sem margir töldu, að Íslendingar höfðu ekki sér- staka sérgáfu á sviði alþjóðlegra fjármála- viðskipta. Þetta gekk vel á meðan allt lék í lyndi. Menn voru duglegir, útsjónarsamir og að mörgu leyti flinkir, en því miður voru menn líka á köflum glannalegir og áhættusæknir um of. Eftir á má segja sem svo að menn hafi verið óvarkárir í að taka öll þessi lán án þess að gera ráð fyrir því að skollið gæti á slíkt fárviðri í fjármálaheiminum sem nú hefur orðið. Það er að vísu atburður sem gerist mjög sjaldan. Þetta er mesta kreppa sem skollið hefur á frá því 1914, eins og ég hef áður sagt. Að því leyti til gátu hvorki banka- mennirnir né stjórnvöld séð þetta fyrir. Það eru atburðir úti í heimi sem verða til þess að lokum að öll sund lokast. Í dag getum við auðvitað sagt að menn hefðu mátt vera gætnari og eftirlitskerfið öflugra og skilvirkara, en það hjálpar okkur þó lítið í þeim vanda sem við nú erum að glíma við.“ – Hafa ríkisstjórn og Seðlabanki áætlað hversu miklu áfalli ríkissjóður verður fyrir vegna skuldbindinga erlendis sem falla á ríkissjóð? „Nei, slíkar áætlanir liggja ekki fyrir enn. Við gerum ráð fyrir því varðandi tryggingar innstæðna innanlands, sem við höfum lofað að tryggja að fullu, að ekki muni reyna neitt sérstaklega mikið á það því það verði gengið þannig frá málum að bankarnir geti gert upp við innstæðueigendur. Við höfum sett það mál í algjöran forgang og ég á ekki von á því að það verði þungur baggi á ríkissjóði. Við munum hins vegar þurfa að endur- fjármagna hina nýju innlendu banka að ein- hverju marki með umtalsverðum fjárhæðum til að byrja með, en sjáum auðvitað fram á það að þeir muni verða arðbær fyrirtæki þegar fram líða stundir og jafnvel eftir ekki svo langan tíma. Þannig teljum við að við séum ekki að hætta almennafé, heldur stuðla að uppbyggingu, sem mun skila sér fljótt og örugglega aftur í ríkissjóð lands- manna.“ Bretar felldu Kaupþing – Bresk stjórnvöld hafa brugðist við Ice- save-vandanum af gríðarlegri hörku. Gord- on Brown, forsætisráðherra Breta, hótaði því síðast í morgun að breska ríkið höfðaði mál á hendur því íslenska þar sem krafist yrði 20 milljarða punda skaðabóta. Hefur það ekkert komið til tals að íslensk stjórn- völd hefji málsókn á hendur Bretum fyrir það að hafa beitt hryðjuverkalöggjöf sinni gagnvart vinaþjóðinni Íslendingum og þar af leiðandi keyrt Kaupþing Singer & Fried- lander, vel rekinn og traustan banka, í þrot með því að ráðast inn í hann og taka hann? „Ég tel að á síðustu metrunum hafi það verið aðgerðir breska fjármálaeftirlitsins sem urðu þessum banka að falli, því miður.“ – Kæmi ekki til greina að íslenska ríkið höfðaði slíkt mál, einfaldlega vegna þess að hér er um stórkostlegt hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina að ræða? „Enn sem komið er höfum við ekki tekið ákvörðun um málsókn, en það kann að koma að því. Ég ætla ekkert að þvertaka fyrir það á þessu stigi málsins.“ – Ef við lítum aðeins til stjórnmálahliðar þessa máls. Hefur það ekki verið þannig undanfarin ár að stjórnmálamenn á Íslandi hafa bókstaflega horft upp á það og látið það viðgangast að viðskiptajöfrarnir og bankaveldið hafa tekið öll völd í þessu landi? „Ég held nú að það sé ofsagt að þeir hafi tekið öll völd, þótt vissulega hafi þeir verið fyrirferðarmiklir. Ég hef lagt áherslu á það að við hagsmunasamtök þeirra og aðra aðila væri gott samstarf.“ – Geir, hefur það ekki verið þannig, á meðan allt lék í lyndi og útrás var mesta tískuorð íslenskunnar, að stjórnmálamenn margir hverjir og forseti Íslands hafa jarm- að með og tekið fullan þátt í því að vegsama og hampa „snillingunum“? Var það ekki meðal annars vegna þessa sem íslensk stjórnvöld og eftirlitsaðilar beinlínis sofnuðu á verðinum? „Það spilar eflaust margt inn í þetta. Menn gleðjast kannski um of þegar allt leikur í lyndi og fólk sem aldrei hefur lifað nema hagfellda tíma og man ekki aðra tíma en þá þegar allt gengur vel á erfitt með að ímynda sér að slíkt ástand geti snúist við. Meðal annars þess vegna fara menn ógæti- lega. Þeir sem eru komnir með aðeins meiri lífsreynslu vita að þetta er ekki svona. Fjármálakreppan núna byrjar á húsnæð- islánamarkaðnum í Bandaríkjunum, en hag- kerfi heimsins er það opið og tengt inn- byrðis milli landa að öll áhrif smitast samstundis frá einu landi til annars. Meðal annars af þeim sökum lögðum við mjög hart að yfirvöldum í ýmsum löndum að þau gerðu við okkur gjaldeyrissamninga og bentum þeim á að smithættan út úr okkar bankakerfi inn í nálæg lönd ef illa færi væri fyrir hendi. Því miður var ekki á þetta hlustað og núna bregðast menn mjög harka- lega við, eins og orðin er raunin.“ – Hefur það ekki líka haft áhrif að stjórn- málamenn hafa verið háðir viðskiptajöfr- unum og bankaveldinu? Þar á ég m.a. við fjárhagslegan stuðning í kringum prófkjörs- og kosningabaráttu, þar sem viðskiptajöfrar hafa látið milljónir af hendi rakna, lánað húsnæði og fleira í þeim dúr. Er það kannski ein skýring þess hversu þöglir stjórnmálamenn hafa verið og lausir við að ýta á eftir því að hér risu þær öflugu girð- ingar sem við ræddum áðan og margir hafa lýst eftir undanfarin ár? „Nei, ég held að það sé mjög lítið sam- hengi þar á milli. Í okkar stjórnmálakerfi þurfa stjórnmálamenn að fjármagna próf- kjör, sem nú lúta mjög skýrum reglum. Ég held hins vegar ekki að gamla fyrirkomu- lagið hafi verið þannig að einhverjir fjár- sterkir aðilar hafi náð tangarhaldi á ein- stökum þingmönnum eða stjórnmálaflokkum. Það held ég að sé af og frá. Regluverkið kringum fjármálamark- aðinn á nú mestanpart uppruna sinn innan Evrópusambandsins og er ekki nema að litlu leyti smíðað á Alþingi.“ Lífskjör munu skerðast – Nú stöndum við frammi fyrir því að þeir kastalar sem reistir hafa verið á þess- um árum hins óhefta frelsis reyndust loft- kastalar sem hurfu á einni nóttu, eins og loftkastala er háttur. Hvað nú? Blasir það við okkur að hverfa tuttugu ár aftur í tím- ann, þar sem atvinnu- og efnahagslíf okkar byggist á sjávarútvegi, álframleiðslu og ferðaiðnaði? Erum við á leiðinni „back to basics“? „Lífskjör munu skerðast á næstunni og þjóðarframleiðslan eflaust minnka í ein- hvern tíma á meðan við erum að jafna okk- ur á þessu áfalli. Lífskjör Íslendinga eru nú með því allra besta í heiminum og við mun- um að sjálfsögðu lifa þessar hremmingar af og vel það þótt lífskjör skerðist hér í ein- hvern tíma og verði eitthvað í líkingu við það sem þau voru fyrir örfáum árum. Aðal- atriðið er það að þegar við komumst í gegn- um þessa tímabundnu örðugleika og náum fótfestu á nýjan leik þá verðum við komin með viðspyrnu gagnvart framtíðinni til að halda áfram að byggja upp og lifa af þeim atvinnugreinum sem eru hefðbundnari en fjármálaþjónustan. Þú nefndir sjávarútveginn, orkufrekan iðnað og ferðaþjónustu. Þetta verða allt burðarstólpar í hagkerfi okkar í framtíðinni og það er hægt að gera þá ennþá fjölbreytt- ari, t.d. í orkuiðnaðinum. Það er margskon- ar orkufrek starfsemi sem erlendir fjár- festar sækjast eftir að fá að starfrækja hér á landi og sömuleiðs höfum við tækifæri til þess að víkka út ferðaþjónustu okkar. Við eigum hér mikinn mannauð og unga þjóð og við eigum öflugt lífeyrissjóðakerfi þrátt fyrir þau áföll sem það verður fyrir núna. Það er auðvitað enginn vafi á því að við munum halda áfram að bæta hér lífs- kjörin þegar við komumst í gegnum þann skafl sem við erum núna að byrja að brjót- ast í gegnum. Þrátt fyrir allt er ég því mjög bjartsýnn á framtíðina. Ríkissjóður er svo gott sem skuldlaus og þess vegna mun lánshæfismat verða fljótt að hækka á nýjan leik þegar umheimurinn og þeir sem með okkur fylgj- ast átta sig á því hvað hefur verið að ger- ast.“ – Eru einhverjar líkur á því að við reyn- um í bráð að byggja upp öfluga alþjóðlega fjármálastarfsemi á nýjan leik? „Nei, ég tel litlar líkur á því alveg á næstunni. Við getum hins vegar byggt á þeirri reynslu sem fengist hefur og sniðið okkur stakk eftir vexti.“ – Mjög margir hafa spurt spurning- arinnar Hvernig gat þetta gerst? und- anfarna daga, ekki síst almenningur. Held- ur þú ekki að ástæða sé til þess að sett verði á fót rannsóknarnefnd sem fari ofan í saumana á bankastarfseminni og útrásinni undanfarin ár, þar sem allt verði greint og myndarleg úttekt verði gerð sem varpi ljósi á það hvernig þetta gat gerst? „Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að fara í gegnum þetta mál með einhverjum svona hætti. Það þarf að búa til eitthvað sem kalla mætti hvítbók um þetta allt sam- an. Ef það kemur fram í einhverri slíkri rannsókn að lög hafi verið brotin, þá þurfa viðkomandi vitanlega að sæta ábyrgð. Að öðru leyti þá er líka nauðsynlegt til fram- búðar að það liggi bara fyrir hvað gerðist og hvers vegna. Atburðirnir nú síðustu mánuði eru að mínu mati nokkuð ljósir. Það er alveg ljóst hvar þetta fárviðri á alþjóðlegum fjár- málamörkuðum á upptök sín og það er líka ljóst að íslenskum bönkum tókst að verja sig býsna lengi og miklu lengur en mörgum bönkum í öðrum löndum. Það hafa miklu fleiri bankar farið á hliðina í Bandaríkj- unum, Evrópu og Danmörku en hér á Ís- landi. Vandinn í okkar litla þjóðfélagi er hins vegar sá að þessir þrír bankar eru nán- ast allt íslenska fjármálakerfið. Það er það sem gerir okkar stöðu allt öðruvísi og miklu viðkvæmari en í stærri löndum. Það er ein- mitt þess vegna sem við höfum neyðst til þess að grípa til jafnróttækra ráðstafana og neyðarlagasetningarinnar á mánudagskvöld, sem nú er verið að hrinda í framkvæmd.“ – Hversu margir heldur þú að missi vinnu sína hér á landi á næstu vikum og mán- uðum? „Því miður höfum við slíkar tölur ekki á takteinum, en ljóst er að það verður all- nokkur hópur með sérhæfða þekkingu sem missir atvinnu sína eftir að starfsemi bank- anna hefur verið endurskipulögð. Ég tel brýnt að við reynum að halda vel utan um það fólk, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Brýnast í þeim efnum tel ég að sjálfsögðu að haldið verði áfram að skapa ný störf fyrir þetta sérhæfða starfs- fólk, þannig að það geti haldið áfram að finna kröftum sínum farveg til uppbygg- ingar og arðsköpunar hér í þjóðfélaginu.“ Keppikefli að skapa ný störf – Óttast þú að það muni bresta á land- flótti hér á landi þar sem við missum í stórum stíl frá okkur unga, vel menntaða og hæfileikaríka fólkið? „Það er alltaf hætta á því þegar við búum í svo opnu hagkerfi sem raun ber vitni. Unga fólkið okkar er vel menntað og á oft- ast auðvelt með að finna sér störf við hæfi annars staðar. Þó er staðan sú í þessum geira, bankageiranum, að það er ekki víða verið að ráða nýtt fólk til slíkra sérhæfðra starfa. Í öðrum löndum, rétt eins og hér, eru bankar að fækka fólki, bankar að sam- einast og bankar að leggja niður starfsemi. Auðvitað munum við gera hvað við getum til þess að halda sem flestum í landinu og því verður það keppikefli að finna leiðir til þess að skapa störf sem henta því fólki sem nú horfir fram á atvinnumissi.“ – Hvað tekur við langt samdráttar- og erfiðleikaskeið hjá íslensku þjóðinni? „Ég vil ógjarnan spá fyrir um það. Við munum þurfa nokkra mánuði til að jafna okkur á því sem nú er að gerast, en upp- byggingarstarfið hefst um leið og við erum komin í gegnum það sem nú dynur á okkur. Hversu langan tíma það tekur okkur til dæmis að ná þjóðartekjum okkar upp í það sama og þær hafa verið er ómögulegt að segja til um á þessari stundu. Það er háð svo mörgum óvissuþáttum, eins og því hvernig okkur tekst að laða hingað erlenda fjárfesta og því hvernig við ákveðum að nýta þær þjóðarauðlindir sem við eigum. Ég tel þó að við eigum að geta gert þetta nokk- uð hratt og geta komist aftur í svipuð spor og við stóðum í áður en þessi ósköp dundu yfir.“ – Heldur þú að við munum standa sterk- ari sem þjóð eftir að við höfum unnið okkur út úr þeim tímabundnu erfiðleikum sem við nú erum í? „Ég tel engan vafa á því. Ef við stöndum saman í gegnum þessa erfiðleika, styðjum hvert annað og hagnýtum okkur þau tæki- færi sem skapast munu eftir þetta, þá verð- ur íslenska þjóðin öflugri en nokkru sinni fyrr. “

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.