Morgunblaðið - 12.10.2008, Side 24
24 SUNNUDAGUR 12. OKTÓBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ
H
vernig myndi
Árni lýsa
þessari nýju
bók sinni?
„Það er
æði fjölbreytt
flóra sem ég
fæst við í
þessari bók og ég býst við því að
bókfræðingum veitist ekki auðvelt
að kveða upp úr um það hvar hún á
heima á bókasafni. Hún er að hluta
til hugsuð sem skáldsaga, þar sem
aðalpersónurnar eru tveir frændur,
sem hafa átt margt saman að sælda;
annar er trúmaður sem stendur við
dauðans dyr, en hinn er efasemda-
maður um alla hluti. Sá trúhneigði
hefur farið allan hringinn; fyrst
haldið alllengi tryggð við Krist
bernsku sinnar,
síðan verið kommúnisti og þá Ma-
óisti, því næst þriðjaheimssinni og
öflugur græningi. Loks hverfur
hann aftur að Guði, sem er þá einna
helzt í ætt við Guð heimspeking-
anna.
Í stað þess að skrifa heila skáld-
sögu um þessa tvo menn, leyfi ég
þeim að ganga inn og út úr bókinni
og segja sitt með og á móti því sem
fram kemur í hugleiðingum og end-
urminningum.“
– Er þetta ekki bara Árni Berg-
mann, þrefaldur í roðinu? Líkt og
Dostojevskij beitti fyrir sig þremur
bræðrum til þess að túlka sínar
ólíku hliðar.
Árni hrekkur svolítið við. Honum
finnst samlíkingin við Dostojevskij
kannski óþægileg. Árni er hagvanur
í rússneskum bókmenntum, eins og
dæmin sanna, og Dostojevskij var
reyndar viðfangsefni hans á náms-
árunum í Moskvu. Og á næstunni
kemur út bók eftir hann með rúss-
neskum textum frá 11. og 12. öld
með skýringum, rit um upphaf rúss-
neskrar sagnaritunar og skáld-
skapar og tengsli þessara texta við
okkar fornu bókmenntir. Það er
eins og Árna létti að losna undan
sjálfum sér og fjalla um fornrúss-
nesk rit í stað eigin bókar. Hann
segir mér frá því að meðal rúss-
nesku textanna sé sama sögn og
Örvar-Odds saga byggir á. Þetta er
flökkusaga sem hefur víða farið til
að festa mönnum í sinni að enginn
má sköpum renna, það gildir einu
hvað þú gerir við þitt örlagahross,
þú stígur alltaf í hauskúpu þess fyr-
ir rest. Fyrir tuttugu árum setti
Árni niður hugmynd um skáldsögu
um mann í leit að sínum Guði. Þessi
saga komst aldrei á blað en þess í
stað fór Árni í þýzkt klaustur og
skrifaði skáldsögu um Þorvald víð-
förla og glímu hans við Guð.
„Kannski lét ég hann taka fyrstu
lotuna fyrir mig.“ En það dugði
Árna ekki. Glíma Þorvalds víðförla
gat ekki orðið hans höfuðlausn.
Hann varð sjálfur að taka stigið og
opinbera eigin glímu við Guð. En
þetta var bara útúrdúr. Og að draga
Dostojevskí inn í samtalið um frá-
sögn Árna er bara aðferðafræðileg
athugasemd. Ekkert annað. Þess
vegna getur Árni ótrauður haldið
áfram að tala um bókina sína.
„Fyrir utan söguna um frænd-
urna tvo, Einar og Svein, fjalla ég
um það hvað er átt við með því að
glíma við Guð, ég fjalla um réttlæti
hans og ranglæti. Okkur finnst Guð
oft og tíðum ekki réttlátur, ekki
sanngjarn og ekki algóður eins og
hann var í barnatrúnni. Framlag
hans verður ófullnægjandi og þá
leggjum við upp í leit að einhverju í
hans stað.“
Spurningin um
samnefnarann
„Í þeirri leit kemur margt til
greina: ástin kannski, vísindin, listir
og bókmenntir, miklir leiðtogar,
veraldlegar hugsjónir. Það er glím-
an við Guð í þessum víða skilningi
sem ég fjalla um í bókinni. Gamli
Guð hefur margoft verið lýstur dá-
inn og grafinn og menn hætt að láta
hann sig varða. En hann kemur allt-
af aftur. Hvað er það í ein-
staklingnum og samfélaginu sem
lætur hann koma aftur? Rússneskt
máltæki segir að helgur staður
muni ekki auður standa. Vandinn er
sá að fyrst verðum við fyrir von-
brigðum með Guð feðranna og síðan
með allt hitt: öll þau svör, allar þær
vonir eða gildi, sem áttu að koma í
staðinn fyrir hann. Þá er eins víst að
við taki mikið endurmat á öllu sem
menn hafa glímt við og þá í ljósi
þess að hinar stærstu spurningar
voru alltaf óleystar: Af hverju er
eitthvað til yfirleitt? Hvað er upp-
haf, endir, óendanleiki og hver er
tilgangurinn með amstri mannsins
undir sólinni?
Ég reyni að leggja spilin á borðið,
safna saman sem bezt ég kann rök-
um með og á móti þeim ráðum sem
menn grípa til hver í sinni Guðs-
glímu. Ég fer líka yfir þá kosti sem
menn eiga í stöðunni eins og sagt
er, þann óendanlega fjölbreytileika
sem við blasir þegar menn leita sér
trausts og halds. Og ég spyr um
samnefnara, hvort nokkur leið sé að
nálgast hann. Börn eru fædd til
ákveðinnar trúar eða sannfæringar,
svo hætta menn að vera börn og
þurfa að gera sín dæmi upp. Og þá
kemur meðal annars að nýmælum
úr samtíðinni. Sambúð trúaðra og
trúleysingja hefur alllengi verið
friðsöm í okkar heimshluta, menn
hafa ekki verið að ergjast hverjir út
í aðra. En nú er orðin breyting á.
Guðleysi sem einkum tengist raun-
vísindum sækir á og þess sjást nú
mörg merki að menn þar á bæ eru
orðnir harðir í horn að taka. Og full-
yrðingin um að eingyðistrúarbrögð
séu helzti vandi mannkynsins hefur
fengið byr undir báða vængi.
Í kaflanum: Er gott að trúa? geri
ég upp höfuðrökin með og á móti
þeirri staðhæfingu og kemst að
minni niðurstöðu.“
– Sem er?
„Ég hygg að menn lesi þann kafla
frekar sem málsvörn fyrir trúaða en
hitt. En ég reyni að virða sem bezt
báða þessa póla, fer yfir helztu rök-
semdir án þess þó að dæma sjálfan
mig til afstöðuleysis. Þá kemur að
lokakaflanum, þar sem ég segi af
sjálfum mér að skrifa bók í þýzku
klaustri; öðru sinni er ég að skrifa á
slíkum stað, en núna um mína eigin
glímu við Guð.“
– Hver er þá þín trú?
„Fyrir um tuttugu árum tók ég
þátt í samræðum vinstri manna og
guðfræðinga, sem ég man að Morg-
unblaðinu þótti varasamt og taldi
afskipti mín af umræðunum tóman
fláttskap. En mér var römm alvara
eins og alltaf þegar ég fjalla um trú-
mál.
Í svari við spurningu þinni ætla
ég samt að skýla mér bak við tvo
ágæt leikskáld. Annað er Anton
Tsjekov sem sagði: Það er óravegur
frá því að trúa og til þess að trúa
alls ekki og á þeirri leið getur margt
gerzt. Og Arthur Miller sagðist vera
agnostiker, hann telur sem sagt að
ekkert verði um Guð sagt, en geng-
ur þó með eina hjátrú: Mig grunar
að Guð sé til. Þú verður að láta þér
þetta svar nægja í bili!“
– Það virðist samt vera mikið af
sjálfum þér í þessari bók: Árni
Bergmann sem í spegli.
„Sá sem skrifar bók, ég tala nú
ekki um bók um þessi efni, hann
kemst vitanlega aldrei langt frá
sjálfum sér. Skáld eru ákaflega
sjálfhverf, en um leið lúsiðin við að
safna í sarpinn. Í eiginlegri skáld-
sögu búa þau til nokkrar persónur,
láta þær fá eitthvað af forðanum og
svo er hægt að leggja af stað. Þessi
bók varð til með ekki ósvipaðri að-
ferð og það verður auðvitað ekki
framhjá því litið að höfundur henn-
ar heitir Árni Bergmann.“
– Af hverju að skrifa í klaustri?
„Að því er varðar þýzku klaustrin
tvö þá fór ég í hið fyrra tvisvar til að
vinna að Þorvaldi víðförla og fékk til
þess aðstoð íslenzks vinar míns kaþ-
ólsks.
En í fyrra leitaði ég uppi höf-
uðklaustur sömu reglu í landinu á
netinu og kom mér þangað eftir
þeim leiðum: þeir taka við velvilj-
uðum mönnum hverju sem þeir trúa
– en menn borga fyrir sig nema sér-
staklega standi á.“
Einstefnan í
pólitíkinni
– Hvað með pólitíkina? Hún hefur
verið stór hluti af þínu lífi, ekki hvað
sízt á þínum blaðamannsárum á
Þjóðviljanum. Saknarðu þeirra
tíma?
„Þetta er ekki rétt spurning.
Maður saknar engra tíma nema
æskunnar! En þessi pólitísku ár,
sem þú vísar til, voru spennandi,
þetta voru miklir umbrotatímar.
Það voru fleiri en eitt sjónarmið í
gangi um hin stærstu mál og menn
tókust á eftir hugmyndafræðilegum
línum. Mér fundust þó skylming-
arnar hérna heima ekki skipta
mestu máli, heldur hitt að menn
væru sínir eigin herrar; að vinstri
Á óraveginum
frá trú til trúleysis
– Ertu ekki bara gamall
kommi sem reynir nú að
berja í brestina með
bókinni: Glíman við
Guð, af því þú veizt að
það er of seint að iðrast
eftir dauðann? spyr
Freysteinn Jóhannsson.
„Af og frá,“ svarar Árni
Bergmann. „Ég hefi
glímt við guð í öllum ald-
ursflokkum ævinnar.
Mér hefur aldrei verið
sama um hann.“
Glímumaðurinn Árni Bergmann segist hafa glímt við Guð í öllum aldursflokkum ævinnar og hefur nú skrifað bók um þá glímu.