Morgunblaðið - 12.10.2008, Qupperneq 48

Morgunblaðið - 12.10.2008, Qupperneq 48
48 SUNNUDAGUR 12. OKTÓBER 2008 MORGUNBLAÐIÐ MENNING ÞESSA dagana þarf maður áfallahjálp á eftir hverjum einasta fréttatíma. Þá er nauðsynlegt að hverfa á vit fortíðar og gleyma sér um stund. Prýðilegt tækifæri gafst til þess í Laugardals- höllinni á föstudagskvöldið. Þar voru haldnir stórtónleikar til minningar um söngvarann ást- sæla sem lést langt fyrir aldur fram, Vilhjálm Vilhjálmsson. Á dagskránni voru gömlu nota- legu lögin sem voru spiluð þegar aðrir tímar ríktu á Íslandi. Það var smá nostalgíufyllerí sem veitti ekki af. Sviðið var þéttsetið, enda hljóðfæraleik- ararnir ekki sparaðir. Þarna var ekki bara trommuleikari heldur slagverksleikari líka og hvorki meira né minna en þrír hljómborðsleik- arar og heilt gengi af gítarleikurum, auk þess sem hersveit strengjaleikara úr Sinfón- íuhljómsveit Íslands magnaði tilfinningastig tónlistarinnar. Fyrir aftan hljóðfæraleikarana voru skermar með alls konar mynstri á hreyfingu. Oftast voru þetta stjörnur á myrkum bakgrunni. Stjörn- urnar sköpuðu huggulega lobbíbarstemningu sem smellpassaði við músíkina. Nú eru þrjátíu ár síðan Vilhjálmur lést. Öll- um ber saman um að hann hafi verið með skemmtilegri mönnum. Tónleikar helgaðir minningu hans eiga því að vera skemmtilegir. Og það tókst, a.m.k. leiddist manni aldrei. Vissulega varð aldrei neinn tryllingur í salnum; fólk stóð ekki upp og dansaði. Nokkrir söngv- arar, eins og Helgi Björnsson, náðu samt að nokkru að æsa tónleikagesti upp, en þeir fengu aldrei nægilegt ráðrúm til þess að gera það al- mennilega. Til þess var dagskráin of sundurleit, of margir komu að henni. Kannski hefði lagalist- inn mátt vera markvissari, með meiri stígandi, meiri stigmögnun. Hér var aðeins boðið upp á tónræna myndasýningu, ekki spennandi ferða- lag. Það gerðist ekkert í tónlistinni sjálfri; hún náði aldrei að skapa sannfærandi heild. Ein af ástæðunum var sú að inn á milli lag- anna voru sýnd myndskeið þar sem nokkrir samferðamenn Vilhjálms rifjuðu upp kynni sín af honum. Myndskeiðin voru stutt og hnitmiðuð og í rauninni nauðsynleg þar sem um minning- artónleika var að ræða. Maður fékk miklu betri tilfinningu fyrir Vilhjálmi, hvernig persóna hann var og hver staða hans var í tónlistarheim- inum, bæði fyrr og nú. En í leiðinni var stöðugt verið að klippa á þráðinn – sem aldrei má slitna á tónleikum. Söngvararnir stóðu sig samt vel og það er erf- itt að gera upp á milli þeirra. Þó verð ég að nefna lag Gunnars Þórðarsonar, „Hrafninn“, með Bubba Morthens. Kraftmikil, en jafnframt látlaus túlkun Bubba gaf þessu fallega lagi áru sem erfitt er að skilgreina. Einnig var gott að fá pásu frá voldugri hljómsveitinni, en Bubbi söng aðeins við eigin undirleik. Hljómsveitin skyggði ekki á sönginn, eins og því miður gerðist allt of oft á tónleikunum. Ekki var við hljómsveitina að sakast né fjör- miklar bakraddir úr Gospelkór Reykjavíkur. Vandamálið var hljóðblöndunin, sem hefði mátt vera betri. Tærleikann vantaði; bassinn og neðra sviðið almennt var yfirgnæfandi. Fyrir vikið urðu raddir sumra söngvaranna undarlega flatneskjulegar. Svipaða sögu er að segja um alls kyns skraut, hvort sem það voru smástrófur frá einhverjum gítarnum, brotnir hljómar frá píanóinu, seiðandi þykkir strengjahljómar eða fínleg hljóð úr hristu slagverksleikarans. Slík hógvær blæbrigði, sem samt geta verið svo mik- ilvæg, fengu sjaldnast að njóta sín. Maður spurði sjálfan sig til hvers var verið að hafa alla þessa hljóðfæraleikara á sviðinu. Hljómsveitin var samt góð í sjálfri sér, sam- taka, örugg og nákvæm. En á popptónleikum er það ekki nóg. Allmargir hljóðfæraleikaranna hefðu mátt slaka aðeins á og vera glaðlegri! Sá langskemmtilegasti var Þórir Baldursson, en hann spilaði á Hammond-orgel og stjórnaði með miklum tilþrifum. Það hefðu fleiri mátt brosa eins og hann. Fyrir ofan sviðið voru nokkrir skermar sem sýndu hvað var að gerast á sviðinu. Stjórn myndatökunnar var vel af hendi leyst, ef frá er talið að sólistar í hljómsveitinni voru á köflum nokkuð lengi að rata inn í mynd. Sum mynd- skeiðin af hljóðfæraleikurunum voru líka býsna snubbótt. Því miður er ekki pláss til að greina frá hverju einasta atriði dagskrárinnar. Ég verð þó að nefna heillandi söng Vilhjálms Vilhjálms- sonar sjálfs, en hann fékk einmitt að hljóma þarna um kvöldið í tveimur lögum við undirleik lifandi hljómsveitar. Magnús Kjartansson tón- listarstjóri kallaði það and-karókí, sem voru orð að sönnu! Og það heppnaðist ágætlega. Almennt talað var lífleg stemning á tónleik- unum, fólk skemmti sér augljóslega vel. Og sem fyrr segir vissi maður meira um Vilhjálm Vil- hjálmsson en áður. Tilganginum var þar með náð þótt sums staðar hefði mátt gera betur. Í öllu falli er ljóst að minning þessa sívinsæla tón- listarmanns mun lifa um ókomna tíð. Morgunblaðið/Kristinn Stjörnum prýddir tónleikar „Söngvararnir stóðu sig samt vel og það er erfitt að gera upp á milli þeirra,“ segir meðal annars í dómi Jónasar Sen sem var nokkuð ánægður með tónleikana. Þegar allt var svo gott TÓNLIST Laugardalshöllin Minningartónleikar um Vilhjálm Vilhjálmsson. Fram komu Björgvin Halldórsson, Bubbi Morthens, Diddú, Egill Ólafsson, Ellen Kristjánsdóttir, Guðrún Gunn- arsdóttir, Helena Eyjólfsdóttir, Helgi Björnsson, Jó- hann Vilhjálmsson, Jónsi, KK, Laddi, Lay Low, Páll Rósinkranz, Ragnheiður Gröndal, Stefán Hilm- arsson, Þorvaldur Halldórsson og Þuríður Sigurð- ardóttir ásamt hljómsveit og bakröddum. Tónlistar- stjóri: Magnús Kjartansson. Útsetningar og hljómsveitarstjórn: Þórir Baldursson. Föstudagur 10. október. Söngtónleikar bbbnn Þrjú á palli Eyjólfur Kristjánsson, Guðrún Gunnarsdóttir og Stefán Hilmarsson taka lagið. Tók Hrafninn „Kraftmikil, en jafnframt látlaus túlkun Bubba gaf þessu fallega lagi áru …“ Flottir Jóhann Vilhjálmsson, sonur Vilhjálms, og Jónsi, sem oftast er kenndur við svört föt. Tónlistarstjórinn Magnús Kjartansson. Í stuði Helgi Björnsson vakti lukku. Jónas Sen

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.