Skinfaxi

Árgangur

Skinfaxi - 01.12.1999, Blaðsíða 29

Skinfaxi - 01.12.1999, Blaðsíða 29
Skinfaxi fyrir 80 árum Rangnefnd félög Eitt atriði verða áhugasamir félagsmenn í okkar hóp að taka til alvarlegrar athugunar.það er að ýmis félög, sem lítið eða ekkert eiga skylt við félagsskap okkar, hnupla ungmennafélagsnafninu, líklega til að skreyta sig með þvi, en gera því annars óvirðing með aðgerðaleysi, eða vesal- mannlegri framkomu. Þetta er mjög baga- legt fyrir ungmennafélögin í heild sinni, því að eins og eðlilegt er, fer ókunnugt fólk mest eftir nafninu og áfellir svo ungmennafélögin fyrir ýmislegt sem aflaga fer hjá „skrall”-félögum, er tekið hafa í heimildarleysi nafn þeirra Þetta er bæði óþarft og hættulegt.Óþarft af því að það er sjálfsagt fyrir hvern einstakling eða heild að vernda og verja sitt nafn, og svo eigum við að gera. Og hættulegt af því að þessi félög verða margoft til að kasta skugga á hin eiginlegu ungmennafélög, og hindra þau þar með frá að ná tilgangi sínum. Allir munu viðurkenna að vonlegt sé að enginn félagsskapur vilji þola til lengdar að nafni hans sé rænt og það óvirt, af óviðkomandi mönnum. Og þá er auðvitað ekki annað fyrir hendi en að gerasér Ijóst, hvaða félög í landinu eiga rétt á þessu nafni. Það eru sambandsfélögin, öll þau einstöku félög sem mynda UMFÍ og engin önnur. Þetta ætti að vera nokkuð Ijóst. Ungmenna- félagshreyfingin kemur hingað frá Noregi, með nokkrum mönnum, og á þar sameiginlegar rætur. Félög þessi mynda síðan samband með sameiginleg lög og stjórn, skapa sér ákveðna dagskrá og starfa að henni. Þetta eru ungmennafélögin. En þeim koma alls skkert við ýmis skemti- eða íþróttafélög, sem risið hafa upp hér og þar á landinu, en skki viljað laga lög sín og skipulag eftir UMFÍ. Það er með öllu óskiljanlegt, að nokkurt félag skuli vilja sigla undir fölsku flaggi, enda mun það mjög oft vera gert af Qáleysi fremur en öðru verra. En þá ættu Þessi félög að sjá sóma sinn, og annaðhvort hætta að ganga undir ungmennafélagsnafninu, eða þá að ganga í sambandið og vinna skipulega að þess áhugamálum, þegar þeim er bent á, og sannað með rökum, að þeir hafa verið á rangri leið. Og sérstaklega má búast við, að þeir menn sem stýra þessum utanveltufélögum, en standa annars nærri ungmennafélögunum í hug og hjarta, láti sér þessa bendingu að kenningu verða, og gangi inn í UMFÍ. Hinir, sem ekkert vilja nema drykk og dans, ættu vitanlega að kenna félagsskap sinn við þá iðju, sem þeim er skapi næst. Skinfaxi fyrir 70 árum Þjóðbúningar Vinnum á móti skaðlegum áhrifum tískunnar Því verður ekki neitað, að framkvæmdir með þjóðbúning karla hafa orðið daufari en skyldi. Þó málinu miði að vísu áfram, þá er sá framgangur svo hægfara, að betur má ef duga skal. Oft hefi eg verið að hugsa um hvað valda muni þeirri dreifð og framkvæmda- leysi, sem virðist ríkja meðal almennings á þessu sviði; og hef eg komist að þeirri niðurstöðu, að ástæðan geti vart önnur verið en sú, að almenningur gerir sér ekki Ijóst, hvað vaki fyrir þeim mönnum, sem berjast fyrir þessu máli. Menn gera sér heldur ekki almennt grein fyrir því hvaða áhrif það muni hafa, ef þjóðbúningar verða almennir. Tilgangur þjóðbúningshreyfingarinnar er meðal annars sá, að vinna á móti hinum skaðlegu áhrifum tískunnar. Ég held að það sé ekki víða í heiminum jafn smásálarlegur eltingarleikur við tískuna, einsog hér á landi. Enda hefir það altaf viljað við brenna, að hvergi er meiri oddborgaraskapur og hégómagirni en í litlum bæjum og litlum þjóðfélögum. Allir hugsandi menn, hvar sem eru í heiminum, eru á eitt sáttir um það, að einmitt tískan sé eitt þeirra afla, sem mest lama andlegt þrek og sjálfstæði hverrar þjóðar. En syndin býður annari heim: Tískan kemur fram í fleiru en klæðaburði, en hvar sem hún kemur fram, miðar hún altaf að því sama; að gera menn að ósjálfstæðum eftirhermum annara. Hversu heilbrigð er sú skynsemi, sem ræður því, að sama manni þykir einn hlutur fallegur annað árið, en Ijótur og í alla staði óhæfur hitt árið ... ... Þess ber einnig að gæta, að litklæðin geta allir saumað heima, en því er ekki þannig varið með jakkaföt, saumur þeirra krefst mikillar sérkunnáttu. Það mundi spara mörgu heimilinu drjúgan skilding ef fatnaður allur væri heimasaumaður. Auk þess sem hver bóndi getur hæglegast sent ull sína í verksmiðjur og látið þær vinna góða dúka í búning þennan, og eru þá bein útgjöld orðin sáralítil ... ... Og í raun og veru ber okkur ungmennafélögum siðferðisleg skylda til þess að klæðast þjóðbúningnum, að minsta kosti hvenær sem við komum fram undir nafni ungm.félaga. Hjörtur Björnsson frá Skálabrekku Skinfaxi fyrir 60 árum Konan og íþróttir Breyttir tímar. - Enginn mun neita því, að líkamlega hreysti og harðfengi öðlast aðeins sá, sem reynir hæfilega á sig. En margir hyggja, að hin venjulegu vinnubrögð til lands og sjávar fullnægi þessari áreynsluþörf. Þeir hafa líka nokkuð rétt fyrir sér. Árin og róðurinn, slátturinn og bindingin hafa skilað mörgum hraustum dreng, hertum og tápmiklum, en á þessum vinnubrögðum hefir á síðustu tímum orðið mikil breyting ... ... í íþróttahúsum sjást nú róðravélar, sem eiga að styrkja handleggi íþróttamannanna, en róðurinn er ekki lengur til sem lífsbjargaríþrótt, - íþrótt, sem fylgir nauðsynlegum störfum. Það væri óhæfileg afturhaldssemi, að syrgja það, að vélar hafa létt stritið. En það þurfa allir að hafa hugfast, að þar sem mörg þau störf, er áður kröfðust vöðvastrits og harðfengi, krefjast nú aðeins æfingar og þekkingar, þá er meiri þörf á þeim æfingum, sem sérstaklega eru miðaðar við það að styrkja og efla líkamann. Konan og fþróttir. Lengi var það hér á landi, sem konurnar fóru á mis við íþróttirnar. Var talinn einkaréttur karlmannanna að iðka þær. Sú skoðun hefir horfið, sem betur fer, með vaxandi þekkingu á (þróttum og heilsufræði. Allar íþróttagreinar eiga jafnt við konur sem karla, nema glíman. Hreysti konunar er undirstaða að tápi og þreki þjóðarinnar. Líkamlega hraust móðir elur hrausta sonu og dætur, en veikluð kona fæðir veikbyggð börn. Þetta er reynsla allra þjóða. Æskan og íþróttir. „Þegar gagnið sameinast gleðinni, þá er lífið hátíð". Það hefur af mörgum verið bent á það, að líf hvers æskumanns mótist mjög af því, hvernig hann ver tómstundum sínum. Þeir, sem yndi hafa af íþróttum, sameina í tómstundum gagn og gleði, og leggja fyrir í sjóð þann, sem beztur er allra söfnunarsjóða.

x

Skinfaxi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skinfaxi
https://timarit.is/publication/334

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.