Sjómannablaðið Víkingur - 01.09.1939, Blaðsíða 22
JACK LONDON:
ÚLFUR LARSEN
Saga frá Kyrrahafinu.
Framhald.
Seinna — ég veit ekki hve löngu — fékk ég með-
vitund og var einn, aleinn. Ég varð skelfingu lostinn.
Múgæði hefir yfir sér félagsblæ, sem gerir það ekki
eins hræðilegt og það æði, er grípur menn þegar þeir
eru aleinir. Og ég varð gripinn æði. Hvert barst ég?
Hve lengi hélt björgunarbeltið mér á floti? Ég gat
ekki synt, og ég barst með straumnum til hafs, sam-
kvæmt því, sem maðurinn með rauða andlitið hafði
sagt, að straumurinn lægi út um Golden Gate.
Ég játa, að ég hagaði mér eins og vitfirringur, æpti
og öskraði eins og konurnar, og barði sjávarflötinn
með tilfinningalausum höndunum.
Ég hefi ekki hugmynd um hversu lengi þetta stóð,
því að ég missti meðvitundina.
Löngu, löngu síðar rankaði ég við og sá þá bóg á
skipi koma fram úr þokunni, nærri þvi hjá mér. Yfir
skipið báru þrjú segl þanin vindi. Það freyddi um
stefnið og skipið sýndist mundi lenda alveg á mér.
Ég reyndi að kalla, en var of máttfarinn. Bógurinn
rakst á mig og ég fór í kaf. Svo rann hin langa svarta
skipshlið fram hjá mér svo nálægt, að ég gat nærri
snert hana með höndunum. Ég reyndi að ná skipshlið-
inni með þeirri fáránlegu hugsun, að halda mér í hana
með því að læsa nöglunum í tréð. En handleggir mínir
voru þungir og máttvana. Aftur reyndi ég að kalla,
en ekkert hljóð heyrðist.
Skúti skipsins fór hjá. Ég sá mann, sem stóð við
stýri og annan, sem reykti vindil. Ég sá reykinn koma
frá vörum mannsins um leið og hann sneri sér hægt
og horfði á hafflötinn, í áttina þangað, sem ég lá. Það
var hugsunarlaust og tómlátt augnaráð, en lif eða
dauði fólst í þessu tómláta tilliti.
Ég sá skipið vera að hverfa í þokuna, bak þess, sem
var við stýrið, og hinn manninn um leið og hann snéri
sér hægt við, meðan hann horfði í kjölfarið.
Augnaráðið var viðutan, eins og hann væri í þung-
um þönkum, og ég var hræddur um að hann myndi
ekki sjá mig. En augnaráð hans lenti á mér og við
horfðumst í augu. Hann stökk að stýrinu, kastaði hin-
um manninum frá, og lagði á stýrið í snatri, og gaf
um leið nokkrar hvatlegar skipanir. Skipið virtist halda
stefnunni og allt í einu sýndist mér það hverfa í þok-
una.
Ég fann að ég var að tapa vitundinni og barðist
gegn því af öllum mætti. Rétt á eftir heyrði ég ára-
glam, sem nálgaðist, og hávær köll. Þegar báturinn
kom nær, heyrði ég kallað:
„Því í heita h....rekurðu ekki upp hljóð?“
Þessu var til mín beint, hugsaði ég, og síðan varð
allt svart og tómt.
II.
Mér fannst sem ég hentist í stórum sveiflum gegn
um geiminn. Langt i burtu heyrði ég bumbuslátt. Mér
leið ákaílega vel. En sveiflurnar urðu hraðari og hrað-
ari og síðast hentist ég fram og aftur eins og kólfi
væri skotið og gat tæpast andað, svo var mér þeytt
gegnum geiminn. Ég drógst yfir grófan sand, sem var
sjóðheitur af sólskini, og mig sveið í hörundið eins
og ég lægi á eldsglóð. Það söng og dundi í bumbunni.
Ég tók andköf og opnaði augun. Tveir menn krupu
við hlið mína og reyndu að koma mér til lífsins. Sveifl-
urnar voru hreyfingar skipsins. Bumban var steikara-
panna, sem hékk á veggnum og skrölti og glamraði í
hvert sinn, sem skipið hreyfðist. Hinn grófi heiti sand-
ur voru harðar hendur mannsins, sem neri bert brjóst
mitt. Ég engdist sundur og saman af sársauka og lyfti
höfðinu ofurlítið. Brjóstið á mér var rautt og blóðrisa.
„Þetta er nóg, Yonson“, sagði annar maðurinn.
„Sérðu ekki að þú ert búinn að nudda allt skinn af
herranum?“
Maðurinn, sem var ávarpaður Yonson, stór Norður-
landabúi, hætti að núa mig, og reis vandræðalega á
fætur. Maðurinn, sem hafði talað, var bersýnilega
„Cockney“ (innfæddur Lundúnabúi), renglulegur ná-
ungi með næstum því kvenlegt yfirbragð. Léreftshúfa,
sem einu sinni hafði verið hvit, og grútskítug svunta
um hinar grönnu lendar, fræddu mig á þvi, að maður-
inn væri matsveinn í hinu óþrifalega eldhúsi, sem ég
var staddur í.
„Hvernig líður yður nú, herra minn“, spurði hann
með þeim undirlægjuróm og svip, sem er eðlilegur
þeim, er hafa lifað langan aldur á þjórfé og forfeð-
urnir sömuleiðis.
Sem svar við spurningunni reyndi ég að rísa á fæt-
ur og tókst það með aðstoð Yonsons. Skarkalinn í
steikarapönnunni tók hroðalega á taugar mínar. Ég
teygði mig yfir svo fituga og ógeðslega eldavél, að
mig velgdi við, tók pönnuna niður og grýtti henni í
kolakassann. Matsveinninn glotti, þegar hann sá hve
óstyrkur ég var, og fékk mér heita könnu:
„Þetta hressir yður“, sagði hann. Það var væminn
og viðbjóðslegur drykkur, skipskaffi, en það hlýjaði
mér. Ég saup á því og leit á skinnlaust brjóstið á mér.
„Ég þakka yður, herra Yonson“, sagði ég og snéri
mér að Norðurlandamanninum, „en haldið þér ekki,
að þér hafið núið nokkuð fast?“
Hann hélt hendinni fram og ég kom við hana. Mig
hálf hryllti við að finna hina hörðu hornkenndu húð
í lófum hans. ,
„Ég heiti Johnson, ekki Yonson“, sagði hann á góðri
ensku. Hann var svo hreinn og beinn og drengilegur,
að mér varð þegar í stað hlýtt til hans.
„Ég þakka yður, Johnson“, sagði ég og rétti fram
hendina, sem hann tók í og þrýsti fast. Kokkurinn
smaug út úr eldhúsinu, til þess að útvega mér eitthvað
til að klæðast. Á meðan spurði ég Johnson hvar ég
væri niðurkominn og hvert ferðinni væri heitið. Sagði
hann mér að ég væri staddur um borð í skonnortunni
„Ghost“, sem væri á leiðinni til Japan á selveiðar.
„Og hver er skipstjórinn? Ég verð að tala við hann
strax og ég hefi fengið föt til þess að fara í“.
J
YÍKINGUR
22