Náttúrufræðingurinn - 1964, Blaðsíða 66
158
NÁTTÚRUF RÆÐINGURINN
lensulaga. Neðri stöngulblöðin mun þéttstæðari en þau efri, mjó-
öfugegglaga eða lensulaga, smámjókka fram og enda í nokkuð hvöss-
um oddi, lítið eða alls ekkert greipfætt. Blómskipunin miklu viða-
meiri en á aðaltegund, greinótt og með mörgum körfum. Körfu-
leggir grannir og skástæðir. Hæring biðunnar breytileg. Stíllinn
meira eða minna dökkleitur.
Botn í Súgandafirði, NV., Helgi Jónasson, 1. 8. 1956. Óx í grýttu
graslendi. Selaból í Önundarfirði, NV., Ingólfur Davíðsson, 7. 8.
1959.
Hraun í Fljótum, N., Ingimar Óskarsson, 11. 8. 1955.
Einkenniseintak í eigin safni (sjá Ingimar Óskarsson, 1957).
Auk þess, sem að framan getur, eru í safni mi'nu frá NV. 2 fífla-
eintök, ólík að blaðgerð, annað tekið á Bessadal og hitt í nánd við
Kleifarkot inn af Mjóafirði. Ég hygg, að eintök þessi beri að telja
til glæsifífils. En þar sem blómþroski þeirra hefur verið á byrj-
unarstigi, þegar þeim var safnað, getur ákvörðun þeirra ekki orðið
fyllilega örugg. Af þeim ástæðum læt ég því umrædd eintök liggja
milli hluta í ritgerð þessari.
\7. Breytileiki tegundarinnar.
Mjög er það misjafnt, hversu breytileiki hinna ýmsu undafífla-
tegunda er mikill. Munu fáar íslenzkar fíflategundir jafn gjarnar
á að breytast og glæsifífillinn. Hann er dreifður um stór, ólík svæði,
vex í ýmis konar jarðvegi og við ólík skilyrði. Og hann hefur verið
einangraður um aldaraðir í hinum ýmsu fjörðum og dölum Vest-
fjarðakjálkans. Hann kann samt bezt við sig í kjarrlendi, enda
hefur söfnun á honum farið aðallega fram í slíku lendi. En jafnvel
þó umhverfi sé nauðalíkt, getur útlit eintakanna verið ólíkt, sér
í lagi ef fjarlægð er mikil á milli vaxtarstaða. Vaxi fífillinn á miklu
bersvæði eða á mjög hrjóstrugu landi, er honum hættara við áber-
andi útlitsbreytingu en ella.
En í hverju eru þá útlitsbreytingarnar aðallega fólgnar? Þær eru
einkum fólgnar í þrennu:
1. I mismunandi tenningu og lögun stöngulblaðanna.
2. í hæringu biðunnar.
3. í lit stílsins.