Samvinnan - 01.06.1949, Blaðsíða 20

Samvinnan - 01.06.1949, Blaðsíða 20
ið —, aflétt að nokkru leyti, þ. e. a. s., að verzlunin var þá gefin frjáls við alla þegna hins einvalda Danakonungs. Að þessu var nokkur bót. Menn gátu þá a. m. k. skipt við hvern sem var hinna dönsku kaupmanna, án þess að eiga á hættu að verða hýddir á al- mannafæri, eins og Snæfellingurinn forðum, fyrir að selja nokkra fiska öðrum kaupmanni en þeim, sem liann var skikkaður til að skipta við. Breyt- ing til batnaðar varð þó raunverulega ekki mikil, og öllu minni á borði en í orði. Það var fyrst eftir að verzlunin var gefin með öllu frjáls, á 0. tug ald- arinnar, að verulega fór að greiða til, svo að almenningi opnuðust leiðir, er lágu upp og fram. Og þá reyndist æði villugjarnt á þeim vegum framan af árum og margt gönuskeið gengið, sem von var til, því að engar voru vörður að átta sig eftir, engin reynsla tiltæk. Enda segir svo, m. a., í fundargerð frá fundi í Pöntunarfélagi Húnvetninga og Skagfirðinga, er haldinn var að Fjalli í Sæmundarhlíð 1. september 1884: „Fór forseti nokkrum orðum um verzlunarástand vort yfir höfuð, síðan verzlunin var gefin frjáls með lögum 15. apríl 1854, og hversu landsmenn hefðu óhönduglega fært sér hina frjálsu verzlun til gagns. Það hefðu að sönnu risið upp nokkur hlutafélög, og einstakir menn pantað vörur, en öll- um væri kunnugt um árangur þeirra og afdrif, að flest þessi fyrirtæki hefðu fallið fyrir óhyggilegt fyrirkomulag. En pöntunarfélag þetta væri með öðru fyrirkomulagi,“ segir forsetinn, Er- lendur bóndi Pálmason í Tungunesi, og á hann þar við, að Pöntunarfélag Húnv. og Skagf. mun hafa haft fastara form og félagslegri grundvöll, heldur en áður hafði tíðkazt. En þó að hugsjónamanninum og hamhleypunni, Erlendi í Tungunesi, þætti seint sækjast róðurinn og „óhönduglega“ hafa til tekizt með þau félagssamtök, er komið var á fót á hin- um fyrstu árum eftir að verzlunin var gefin frjáls, þá voru þessi félagssamtök, þótt skammæ yrðu sum og dæmd til að steyta á skeri skilningsskorts, samtaka- leysis og sundrungar, hin merkustu fyrir margra hluta sakir. Þessi félög, sem risu upp allmörg, einkum hér norðanlands, gerðu auk heldur ómet- anlegt gagn. Þau voru nauðsynlegir áfangar á leið til vaxandi skilnings og félagsþroska. Menn voru — og urðu — að prófa sig áfram. Og það er áum okkar og öfum til ævarandi lofs, að þeir gáfust ekki upp, lögðu ekki árar í bát, þrátt fyrir margháttaða ósigra og ófarir, heldur fitjuðu upp á nýjan leik, öfluðu sér meiri félagslegrar menntunar, meiri reynslu, stefndu stöðugt fram á leið, unz þeir gengu með fullan sigur af hólmi og lögðu upp í hendur okkar, sem nú erum miðaldra menn og yngri, þrautreynt og fastmótað skipulag, sem hefur fært okkur blessun og mun færa okkur æ meiri blessun, ef við og niðjar okkar bera gæfu til að sverja hugsjón sam- vinnustefnunnar hollustueið af óskor- aðri einlægni, — ef við og niðjar okkar mega bera giftu til að liía og starfa samkvæmt þeim eilífu sannindum, að „sameinaðir stundum vér, en sundr- aðir föllum vér.“ RÁTT FYRIR margháttuð mis- tök og ýmiss konar torfærur, er jafnan verða á vegi þeirra stofnana og fyrirtækja, er brjóta í bág við alda- gamlar venjur og ryðja nýjar brautir í trássi við þröngsýni, ótrú og illspár, jafn sumra þeirra er sízt skyldi, getur Kaupfélag Skagfirðinga horft með ánægju yfir farinn veg um 60 ára skeið. Frá því að vera lítið og vanmáttka pöntunarfélag, næsta veikburða við hlið öflugra keppinauta, er sumir stóðu á gömlum merg, er það nú vaxið upp í að vera langsamlegastærstaverzl- unarfyrirtæki þessa héraðs og eitt af hinum stærri samvinnufélögum þessa lands. Þó að gildi peninga sé allt ann- að og minna nú, heldur en áður var, gefur það nokkra hugmynd um vöxt og viðgang félagsins, að verzlunarvelta þess nemur fleiri milljónum króna nú heldur en tugum þúsunda á hinum fyrri árum, og var þó vöxtur þess hæg- ur lengi vel. Margt er það, sem stutt hefur að þessum stórfellda þroska félagsins, og verður á fátt eitt drepið hér. Eigi orkar það tvímælis, að trú og skilningur almennings á gildi sam- vinnu og samtakamáttar hefur, hér í Skagafirði sem annars staðar víðast, stórum aukizt frá því, sem áður var — og mætti þó meiri vera. Eftir því, sem tíminn leið, glæddist skilningur og vilji til félagslegs samstarfs. Fólkið fann æ betur, að félagið var eign fé- lagsmannanna sjálfra ,en ekki eins eða fárra einstaklinga, — að arðurinn, er skapaðist af viðskiptum hvers og eins félagsmanns, átti að renna til hans sjálfs og sameiginlegra Jiarfa, en ekki til óskyldra og óviðkomandi aðilja, — að félgið var til aðeins og eingöngu vegna fólksins, en fólkið ekki til vegna félagsins. — Fátt hygg eg hverju sam- vinnufélagi nauðsynlegra til heil- brigðs vaxtar og þroska en það, að jafnan sé vakandi meðal félagsmanna lifandi tilfinning fyrir hinum nánu tengslum, sem eiga og verða að vera milli þeirra og félagsins sjálfs — sem stofnunar. Því aðeins horfir rétt, að saman fari hagur félags og félags- manna. Þetta hefur öllum forvígis- mönnum samvinnustefnunnar jafnan verið ljóst. Fyrir því er Kaupfél. Skagf., sem og önnur slík félög, byggt upp með þeim hætti, að félagsmenn ráða mestu um það sjálfir, gegnum fulltrúa sína og þá stjórn, sem kosin er hverju sinni, hversu félaginu farnast. Sé í óefni stefnt, hafa þeir ekki aðeins vald, heldur skyldu til, bæði félagsins vegna og sjálfra sín, að skipta um full- trúa og stjórn, og fela öðrum foryzt- una. — Þetta er hið fullkomnasta lýð- ræði, og eg vona af heilum hug, að K. S. megi bera gæfu ti lað lialda ávallt sem fastast á því lýðræði innan sinna vébanda. Annað, sem alveg vafalaust, bæði fyrr og síðar, hefur stutt að gengi og áliti K. S., er sú ríka áherzla. sem jafn- an hefur verið lögð á vöndun þeirra vara, er það hefur haft til sölumeð- ferðar. — Einokunin sæla, og síðan sel- stöðuverzlunin, ýtti, svo sem framast mátti verða, undir sviksemi í viðskipt- um. Kaupmenn seldu einatt sviknar og skemmdar vörur við okurverði. ís- lendingar svöruðu, eftir beztu getu, með þá afsökun á vör, að allt væri nógu gott í danskinn. Vörusvik voru útbreiddur löstur, Iiáskalegur að vísu, en afsakanlegur og jafnvel eðlilegur, eins og allt var í garðinn búið. Fyrir Jdví er það bæði undravert og aðdáun- ar, hversu ríka áherzlu hinir fyrstu for- göngumenn félagslegra verzlunarsam- taka almennings lögðu á vöruvöndun. (Fratnhald á bls. 23) 20

x

Samvinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Samvinnan
https://timarit.is/publication/340

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.