Fálkinn


Fálkinn - 26.06.1963, Blaðsíða 13

Fálkinn - 26.06.1963, Blaðsíða 13
Hinir yngri þekkja hann sem Bastian bæjarfógeta í Kardimommubænum. Hinir eldri af mörgum hlutverkum: Tóbaz í samnefndu leikriti, sem góða dátann Svæk, Eddi Carbon í Horft af brúnni, sem Fillias Fog í Umhverfis jörðina, Guðmund í „79 af stöðinni" og Barney í „Sautjándu brúðunni“. Þetta er Róbert Arnfinnsson. Og nýlega skrifaði áströlsk kona Jane Vaughan, sem stundaði nám við Háskóla íslands, um sýningu Þjóðleikhússins á Sautjándu brúðunni, í ástralskt blað og sagði m. a.: „Barney var svo ástralskur í öllu hátterni, svipbrigðum og útliti, að við tveir einu áströlsku gestirnir í salnum gátum varla trúað okkar eigin augum og eyrum. Þegar t. d. Barney er að skrifa sendibréfið á gamlárskvöld og lemur mýflugurnar frá sér með dag- blaði sínu var það svo sannfærandi ástralskt, að við urðum veikar af heim- þrá. Meðan Róbert Arnfinnsson lék þetta hlutverk, var hann ekki íslend- ingur, heldur Ástralíumaður! Þegar ég hafði orð á þessu við kunningja minn meðal leikhúsgesta, svaraði hann: „Já, en þetta er nú ekki mikið. Ég hef séð þennan mann breytast í nashyrning á leiksviðinu. Og allir í salnum trúðu því statt og stöðugt, að það hefði gerzt!“ Og þessi ástralska kona telur sýning- una hafa tekizt mjög vel. Það er ekki nema sönnun þess sem við raunar viss- um, að leikararnir „okkar“ standa stallbræðrum sínum erlendis ekki langt að baki. Það var mánudag eftir kosningar að við um hádegisbilið lögðum leið okk- ar í Þjóðleikhúsið þeirra erinda að eiga viðtal við Róbert Arnfinnsson. Hann hafði sagt okkur að um það leyti mundi hann vera að ljúka æfingu og heppilegast væri fyrir okkur að koma þá. Og þegar við spyrjum eftir honum er okkur sagt, að hann muni að finna í búningsherbergi númer 6. Það standa þrjú nöfn á hurðinni: Árni Tryggvason, Róbert Arnfinnsson, Jón Sigurbjörnsson. Og þegar við bönkum á hurðina er kallað glaðlega að innan. — Það er þríbýli hjá ykkur? — Já, og stundum erum við fleiri ef viðfangsefnið er mannmargt. Þá kemst talan oft vel upp fyrir þrjá. — Er þá ekki þröngt um ykkur? — Jú, ég held að það mætti orða það svo. — Þið eruð að fara að ferðast með Andorra. — Já, við byrjum á Selfossi á fimmtu- daginn og þokum okkur svo umhverfis landið. — Ert þú fæddur hér í Reykjavík? — Nei, það vantar talsvert á það. Ég er fæddur í Leipzig í Þýzkalandi og er hálfur Þjóðverji. Ungur fluttist ég til Eskifjarðar þar sem faðir minn gerðist skólastjóri. Það var ekki fyrr en 1939 að ég flutti hingað suður. — Og fyrstu kynni þín af leiklistinni? — Þau voru nú eiginlega þarna fyrir austan. Mig minnir að það hafi verið eitthvað á vegum kvenfélagsins. Og eftir að ég kom hingað suður þá kom ég fram á skólasýningu. Ég man vel eftir því hlutverki skal ég segja þér. Ég lék kvenmann og hann ekki sem löguleg- astan. Það var sett á mig ansi mektug hárkolla og ég færður í kjól, en þá vantaði háhæluðu skóna. Þeir einu sem fengust voru tveimur númerum of stór- ir og þannig búinn arkaði ég inn á sviðið. — En þín eiginlegu kynni? — Það var nú eiginlega algjör tilvilj- un að ég lagði út á þessa braut. Ég hafði sótt um inntöku í Loftskeytaskól- ann en hann starfaði þá öðruvísi en núna, aðeins fjórða hvert ár. En þegar ég á að mæta í inntökupróf þá veikist ég af hettusótt og átti lengi í henni. Ég fékk hana fyrst öðru megin og þegar ég var að verða góður þeim megin þá fékk ég hana hinum megin. í þessari millifærslu átti ég í tvo eða þrjá mán- uði og missti af Loftskeytaskólanum. Og þegar svo var komið málum sá ég að eitthvað annað varð ég að taka mér fyrir hendur. Ég hafði verið undirleik- ari hjá þeim Lárusi Ingólfssyni og Lár- usi Pálssyni, þegar þeir voru að skemmta og nú rann það allt í einu upp fyrir mér, að ég hafði heyrt talað um að þessi Lárus Pálsson væri með leik- skóla. Og þá datt mér í hug að gaman væri að prófa þetta, ég gæti aldrei haft neitt illt af því. Ég sótti um skólavist hjá Lárusi og hér er ég í dag. Fyrír utan skólavist mína hjá Lárusi var ég eitt ár í Kaupmannahöfn. Annað hef ég ekki lært nema af reynslunni, en hún er nú alltaf bezti skólinn.

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.