Vikan


Vikan - 15.12.1955, Blaðsíða 41

Vikan - 15.12.1955, Blaðsíða 41
„Mér datt það í hug'. Og nú, ef þér vœri sama, hættu þessu hjali augnablik. Ég finn svefn- höfgi færast yfir mig.“ ,,Jói frændi segir, að fólk, sem sofni eftir mið- dag, fái offitu kringum hjartað." „Jói frændi þinn er asni," sagði Teddi. Hversu lengi hann svaf, vissi Teddi ekki. En er hann vaknaði, var það fyrsta, sem hann skynjaði, að stelpan var hvergi sjáanleg og þetta angraði hann dálítið. Ég á við, að krakki, sem lætur sér detta í hug að skjóta svín með ör og boga og kveikir í svefnloftinu, var ekki krakki, sem Teddi var sérstaklega hrifinn af að væri að flækjast um sveitina, einmitt þegar hann átti að líta eftir henni. Hann stóð upp dálítið ringl- aður, og fór að ganga um og hrópa nafn hennar. Honum fannst það þó nokkuð bjánalegt, sagði hann mér, að standa svona einsamall niðri á árbakka og hrópa hástöfum „Dómhildur! Dóm- hildur!" Það hefði hæglega getað valdið mis- skilningi hjá vegfaranda, sem kynni að hafa heyrt til hans. En hann þurfti ekki að gera sér grillur út af því lengi, því að er hér var kom- ið, varð honum litið út á ána og sá þá, hvar líkami hennar flaut á vatninu. „Hver djöfullinn!“ sagði Teddi. Ég á við, að þetta var alls ekki þægilegt fyrir Tedda. Það má segja, að þetta kæmi honum í laglegan bobba. Þarna hafði honum verið trúað fyrir þessu barni, og þegar hann kæmi heim, myndi Apríl spyrja hann, hvort hann hefði ekki skemmt sér vel, og hann myndi svara: „Jú, þökk fyrir, prýðilega, nema hvað Dómhildur litla drukknaði." Það leit ekki vel út, svo að hann varð að gera tilraun, ef verða mætti til bjargar á síðustu mínútunni, og stakk sér til sunds. Og hann varð ekki lítið hissa, er hann uppgötvaði, að það sem hann hélt að væri drukkn- andi barn, var aðeins umbúðirnar. Með öðrum orðum, það sem flaut þarna, var ekki barnið í eigin persónu, heldur aðeins kjóll- inn barnsins. Og hvernig kjóll, sem hafði verið utan um barn, gat skyndilega verið orðinn barns- laus kjóll, var ofvaxið skilningi hans. Annað vandamál, sem hann vissi ekki hvernig ætti að leysa, er hann dragnaðist upp á bakkann, var hvað nú skyldi til bragðs taka. Sólin var hnigin og það var farið að kólna þó nokkuð í veðri, og hann sá ekki betur en einungis alger fataskipti gætu bjargað honum frá að verða gigtveikur eða fá lungnabólgu. Og sem hann stóð þarna og velti fyrir sér, hvernig slík fataskipti mættu verða, kom hann auga á húsið milli trjánna. Undir venjulegum kringumstæðum mundi Teddi aldrei hafa látið sig dreyma um að heimsækja náunga, sem hann hefði aldrei verið kynntur fyrir, og biðja hann að lána sér föt. Hann var geysilega fastheldinn í þessum efn- um, og það var haft fyrir satt, að hann hefði eitt sinn látið sig hafa það að vera reyklaus heilt kvöld í leikhúsinu heldur en að biðja ókunn- ugan um eld. En þarna var sérstaklega ástatt. Hann hikaði ekki. Hann tók undir sig stórt stökk og stóð fyrir utan forstofudyrnar og barði ákaft og hrópaði: „Halló, er nokkur þarna?“ Og að um það þrem mínútum liðnum er enginn hafði komið til dyra, dró hann þá skarplegu ályktun, að, enginn væri heima í húsinu. 1 Þetta féll fagurlega í kramið hjá Tedda. Hann kunni miklu betur við að laumast inn og hjálpa sér sjálfur en að verða að útskýra allt nákvæm- lega fyrir einhverjum, sem alveg eins gæti verið einn af þessum glópum, sem eru seinir að átta sig á hlutunum. Er hann sá, að dyrnar voru ólæstar, gekk hann því inn og rakleitt upp stig- ann upp á aðra hæð, þar sem svefnherbergið var. Allt var í himnalagi. Þarna var klæðaskápur hjá rúminu og i honum fjölbreytt úrval af fötum, sem hann gat valið úr. Hann valdi sér af kost- gæfni fallega köflótt sumarföt, ennfremur skyrtu og hálsbindi og prjónavesti úr skúffu í skápnum, og er hann hafði afklætt sig úr votu flikunum, tók hann að klæða sig í. Um leið og hann klæddist, hélt hann áfram að velta fyrir sér hinu dularfulla hvarfi barnsins. Hann fór að hugsa með sér, hvað Sherlock Holmes rnyndi hafa ályktað. Eitt var víst, hann varð að þjóta af stað strax og hann var klæddur og leita hennar dauðaleit um þvera og endilanga. sveitina. Svo að hann fór i flugkasti í skyrtuna, smellti á sig bindinu og skellti sér í vestið, og var rétt búinn að bregða sér í fullbrúna, en þó brúklega skó, þegar hann ra.k augun í mynd á arinhillunni. Hún var af ungum geysikraftalegum manni, sem sat á stóJ í þunnum leikfimisfötum. Hann var talsvert hátignarlegur á svipinn og var með gríðarstóran silfurbikar í kjöltunm og boxhanzka á höndum. Og þrátt fyrir hátignarsvipinn, veitt- ist Tedda létt að kannast aftur við erkifjanda sinn, Bráðbana kaftein. Og í þessum svifum, rétt er hann hafði gert sér ljóst, að forsjónin, sem hafði farið um hann ómjúkum höndum allan daginn, hafði nú kórónað allt saman með þvi að leiða hann i bæli óvinar- ins, þá heyrði hann fótatak í garðinum fyrir ut- an. Hann stökk út að glugganum og sá það, sem hann hafði óttast mest. Kafteinninn kom gang- andi upp traðirnar og leit út fyrir að vera stærri og óárennilegri en nokkru sinni fyrr og stefndi að forstofuhurðinni. Teddi minntist þess nú sér til skelfingar að hafa skilið þær eftir galopnar. Eins og þið vitið vel, hefur Teddi aldrei verið neinn draumlyndur vangaveltubesefi. Ég mundi segja hann væri fyrst og fremst athafnamaður- inn dæmigerður. Og hann hófst nú handa af meiri snerpu en nokkru sinni fyrr. Hann segist sjálfur efast um, hvort steingeit i ölpunum hefði getað rokið niður stigann á skemmri tíma, nema auðvitað að undangenginni langri og strangri þjálfun. Hann segir, að þetta hafi einna mest líktzt tilburðunum hjá indverskum fakírum, sem hendast um allar trissur: gufa upp í loftið í Bombay og skýtur svo upp aftur í Darjheeling tveim mínútum síðar. Er það skemmst frá að segja, að hann náði útidyrunum rétt í því að Bráðbani kafteinn var að komast inn og skellti þeim við nefið á honum. Grimmúðlegt öskur barst gegnum lokaðar dyrnar og kom honum til að skjóta báðum slagbröndunum fyrir og þar að auki setja lítinn stól fyrir dyrnar. Og hann var einmitt að óska sjálfum sér til hamingju með velunnið verk, framkvæmt af atorku og snilld, þegar honum barst til eyrna eitthvert brambolt og hávaði úr suð-vesturátt og hann fékk að reyna, hvað það var að eiga við þessa hernaðarfræðinga úr indverska hern- um, sem voru þjálfaðir frá blautu barnsbeini í að skjóta hinum böldnu þjóðflokkum á norð-vestur landamærunum ref fyrir rass. Af fullkominni hernaðarlegri list var Bráðbani kafteinn nú að reyna að koma honum að óvörum með hliðar- árás gegnum gluggann í setustofunni, þegar hann sá að framsókn hans á útidyrnar hafði verið stöðvuð. En til allrar hamingju hafði hreingerningar- konan eða einhver annar skilið eftir gólfkúst í forstofunni. Þetta var stór og sterklegur sópur, og Teddi greip hann á hlaupunum inn í setu- stofuna. Hann kom að rétt mátulega til að sjá fótlegg koma inn fyrir gluggakistuna. Þá kom andlit í ljós, og Teddi segir mér, að augun, sem störðu á hann, hafi stöðugt haldið fyrir honum vöku á nóttunni síðan. Augnablik varð hann höggdofa eins og högg- ormur hefði horft á hann. Þá náði skynsemin aftur yfirhöndinni, hann tók sig með erfiðismun- um á, og lét kústskaftið riða á óvininum, svo að hann féll kylliflatur afturábak ofan í blóma- beð. Að því búnu lokaði hann glugganum og hespaði hann aftur. Þið kynnuð nú að halda, að þar sem gler var nú á milli, hefði augnaráð Bráðbana kafteins orðið áhrifaminna. En það, segir Teddi mér, var nú eitthvað annað. Þar sem hann hafði séð fram- an í árásarmann sinn, og vissi hver hann var, hafði það orðið að miklum mun óbærilegra. Það skaðbrenndi Tedda eins og drápgeisli. En þeir horfðust ekki lengi í augu. Þessir pilt- ar úr indverska hernum góna ekki, þeir að- hafast. Og um þá hefur réttilega vei-ið sagt, að þótt maður geti einstaka sinnum unnið á þeim stundarsigur, er ekki hægt að gabba þá til lengdar. Kafteinninn snerist skyndilega á hæl og hljóp fyrir hornið á húsinu. Það var greinilega ætlun hans að hefja aðra árás á öðrum og verr vörðum vígstöðvum. Þetta skilst mér, að sé al- gengt herbragð á norð-vestur landamærunum. Tedda var nú nóg boðið. Hann blátt áfram gat ekki haldið áfram endalaust að hlaupa stað úr stað og leitast við með kústskaft eitt saman að vopni að stemma stigu við áhlaupum, jafn- skæður óvinur sem þessi Bráðbani kafteinn var. Tími var kominn til að hörfa skipulega undan. Það liðu því ekki tiu sekúndur frá því hinn var horfinn og þar til Teddi hafði rifið útidyi’a- hurðina upp á gátt. Þetta var auðvitað áhættuspil. Það gat verið, að honum væri búin launsát. En allt virtist í lagi. Kafteinninn hafði að því er virtist, áreiðan- lega farið á bak við húsið, og er Teddi kom að hliðinu, hafði hann þægilega á tilfinningunni, að hann mundi að fáum sekúndum liðnum vera sloppinn út í buskann og eiga fótum fjör að launa burt frá hættustaðnum. Allt er gott, þá endirinn er allra beztur, hugs- aði Teddi. Það var, þegar hér var komið, að Teddi sá, að hann var buxnalaus. Ég þarf varla að orðlengja, hvílíkum sálar- kvölum þessi uppgötvun olli aumingja Tedda. Teddi er ekki einungis siðprýðin sjálf, heldur getur hann líka stært sig af því að vera alltaf vel og viðeigandi klæddur, hvort heldur hann er staddur í bæ eða sveit. Skömmustu hans og vandræðum, er hann komst að raun um útgang- inn á sér, verður ekki með orðum lýst. Og hann var einmitt nýbúinn að hrópa upp yfir sig „Ég er glataður!" nema hvað skyldi hann sjá fyrir framan sig annað en tveggja sæta bifreið, sem hann kannaðist við að vera eign fyrrver- andi gestgjafa síns. Og í bifreiðinni var stór ullarábreiða. Þetta breytti öllu viðhorfi málanna. Eins og þið munið, var Teddi nægilega, meira að segja, snyrtilega klæddur að ofan. Klæðnaðurinn, sem hann hafði tekið traustataki hjá Bráðbana kafteini, var talsvert við vöxt, en hann huldi að minnsta kosti nekt hans. 1 bíl með teppið á hnjánum myndi hann við ytri sýn lita út eins og fullkomlega velklæddur maður. Hann hikaði ekki. Hann hafði aldrei stolið bíl áður, en hann gerði það nú af leikni, sem þaul- reyndur atvinnubílþjófur hefði ekki þurft að skammast sín fyrir. Hann smeygði sér í ekils- sætið, vafði teppinu um hnén, setti bílinn í gang og ók af stað. Áform hans var að aka rakleiðis til Bláa Ijónsins. Er þangað væri komið, ætlaði hann að stökkva með leifturhraða inn í forstofuna, upp stigann og inn í herbergi sitt, þar sem biðu hans ekki færri en sjö buxur, sem hann gat valið úr. Og þar sem forstofan var venjulega mannlaus fyrir utan snúningastrákinn, sem áreiðanlega myndi aðeins reka upp skellihlátur og síðan gleyma öllu saman, bjóst hann ekki við frekari örðugleikum. En allt er í heiminum hverfult. Menn gera áætlanir í huganum og finna ekki á þeim einn einasta snöggan blett, en þá skeður eitthvað óvænt í rjúkandi hvelli, sem kollvarpar þessum pottþéttu áætlunum með öllu. Teddi hafði varla Framhald á blaðsíðu 42.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.