Vikan

Tölublað

Vikan - 21.01.1965, Blaðsíða 21

Vikan - 21.01.1965, Blaðsíða 21
— Ja, sagði Davíð. — Mér finnst það kannske einum of sætt. En ef maður setur svolítinn pipar eða pimentu í það, kemur sterkara og betra bragð. Persónulega myndi ég fremur kjósa glas af góðu víni, sagði hann mannalegur í bragði. — Passið ykkur á vatninu, kallaði rödd fyrir ofan þau. Þeim vannst naumlega tími til að stökkva til hliðar undan þefjandi gusunni, sem hellt var á götuna. Angelique greip um handlegg unglings- ins. Hún fann, að hann titraði. — Mig langar til að segja þér, stamaði hann fljótmæltur, — að ég hef aldrei séð.... eins fallega konu og þig. — Auðvitað hefurðu séð það, vinur minn, sagði hún hörkulega. — Þú þarft eki annaö en að líta svolítið í kringum þig í staðinn fyrir að naga stöðugt á þér neglurnar og staulast um eins og fluga, sem er að drepast. En ef þú vilt gera mér til geðs, skaltu heldur segja mér meira um þetta súkkulaði, heldur en að koma með ótímabæra gullhamra. Svo sá hún þjáningarsvipinn á andliti hans og reyndi að hugga hann. Hún sagði við sjálfa sig, að það væri heimskulegt að bregðast svona við. Hann gæti haft möguleika með Þetta einkaleyfi. Hún sagði hlægjandi. — Því miður er ég ekki lengur fimmtán ára stúlka, vinur minn. Sjáðu, ég er gömul. Hár mitt er orðið grátt. Undan húfunni sinni dró hún hárlokkinn, sem á svo undarlegan hátt hafði orðið grár, nóttina hræðilegu í Faubourg Saint-Denis. — Hvar er Flipot? spurði Angelique og litaðist um. — Er litli þorp- arinn að skjóta sér undan skyldum sínum eða hvað? Hún hafði nokkrar áhyggjur af því að Flipot myndi nota sér þá þjálfun, sem hann hefði fengið hjá Jactance pyngjuþjófi. Þú ættir ekki að hugsa um þann þorpara, sagði Davíð afbrýðissamur. — Ég sá hann rétt áðan skiptast á merkjum við betlara, alþakinn ból- um og sárum, sem var að biðja um ölmusu fyrir framan kirkjuna, og svo stakk hann af með körfuna á bakinu.... Frændi verður ævareiður! — Þú málar alltaf fjandann á vegginn, Davíð minn. — Ég er alltaf óheppinn. — Við skulum snúa við, strákurinn skilar sér. Og þarna kom hann raunar, á harðaspretti. Angelique gazt vel að þessum dreng með björtu augun, rautt nefið og sltt, liðað hárið undir stóra, tötralega hattinum. Hún hafði tengzt honum einhverjum bönd- um eins og Linot litla, sem hún hafði hrifið úr klóm rotna Jean. — Gettu bara, Marquise des Anges, másaði Flipot og gleymdi skip- unum hennar í æsingunni. — Veiztu, hver er nú orðinn Stóri-Ck)esre ? Trjábotn! Já, Trjábotn okkar úr Nesle turninum. Hann lækkaði rödd- ina og bætti við með hræðslulegu muldri: — Þeir sögðu við mig: — Gættu þin, strákur, sem felur þig í pils- um svikara. Angelique fann blóðið kólna í æðum sínum. — Heldurðu að þeir viti, að það var ég, sem drap Feita-Rolin? — Þeir sögðu ekki neitt. Og þó, Svartabrauð var að tala um hvernig þú sóttir lögregluna og sigaðir henni á sígaunana. — Hverjir voru þarna? —• Svartabrauð, Léttfótur, þrjár gamlar kerlingar úr hópnum okkar og tveir flogaveikir sjúklingar ú öðrum hópi. Unga konan og drengurinn höfðu skipzt á þessum fáu orðum á þjófa- málinu, sem Davíð ekki skildi. En hann renndi grun í að það væri eitt- hvað skelfilegt. Hann varð bæði hræddur og upp með sér að komast að raun um, að konan, sem hann hafði orðið svo hrifinn af, var kunnug þessu ævintýralega og þó hræðilega fólki, sem lék svo stórt hlutverk í París. Angelique mælti ekki orð af vörum alla leiðina til baka, en þegar hún gekk inn i krána, ýtti hún hugsunum sínum til hliðar. Það getur vel verið, sagði hún við sjálfa sig, að einhvern daginn verði ég á floti í Signu með sundurskorinn háls. Eg hef átt það á hættu nú nokkuð. lengi. Þegar prinsarnir eru hættir að elta mann, taka betlar- arnir við. En hvað er að fást um það! Maður verður að berjast, berjast fram á banastund. Það er ekki hægt að vinna bug á erfiðleikunum án þess að takast á við þá og taka því, sem að höndum ber. Var það ekki Það, sem Molines sagði við mig einhvern tima endur fyrir löngu? —■ Komið, börn! hrópaði hún upphátt. — Blómasölukonurnar verða að bráðna eins og smjör í sól, þegar þær stíga inn í krána okkar! Og konurnar urðu svo sannarlega hrifnar, þegar þær í rökkurbyrjun gengu niður þrepin þrjú, niður í Le Coq Hardy. Það var ekki aðeins þægilegur bökunarilmur í loftinu, heldur var húsið bæði aðlaðandi og frumlegt. Eldur logaði glaðlega í arninum og dreifði gullnu ljósi um veitinga- stofuna. Á borðunum voru kertaljós, sem vörpuðu birtu á gljáfægðaw borðbúnaðinn, sem hafði verið raðað listilega á hliðarborðin. Þar að auki hafði Angelique dregið fram silfurborðbúnaðinn, sem Maitre Bour- jus geymdi eins og sjáaldur auga síns ofan í kistu. Sumir hlutir þess- borðbúnaðar voru skreyttir með upphleyptum ávaxtamyndum. Innan um þetta hafði svo verið raðað snilldarfallegum, rauðum og hvítum flöskum, sem glitruðu eins og eðalsteinar móti eldslogunum. Þær höfðu oft farið með vörur sinar heim til fólks af háum stigum, en þrátt fyrir það fannst þeim aðkoman í litlu kránni I rue de Vallée- de-Misére taka langt fram því bezta, sem þær höfðu átt von á. En þar sem þær voru konur vanar viðskiptalífinu, létu þær ánægju sína ekki of mikið í ljós en litu gagnrýnisaugum á hérana og svínssíð- urnar, sem héngu niður úr rjáfrinu, þefuðu tortryggnislega af svína- kjötssneiðunum, kalda kjötinu og fiskinum, og káfuðu á kjúklingunum með þjálfuðum höndum. Það var doyenne hópsins, kona að nafni Mére Marijolaine, sem að lokum gat fundið eitthvað til að setja út á: — Það vantar blóm, sagði hún. — Þessi kálfshaus væri allt öðru vísi útlits með sína nellikuna í hverri nös og chrysantemum milli augnanna. — Madame, við erum ekki að keppa — jafnvel ekki með minnstu persiljuskreytingu — við þá snilli og listfengi, sem ríkir hjá yður í Pont- Neuf, sagði Maitre Bourjus heimsmannslega. Konurnar þrjár í sendinefndinni settust niður fyrir framan eldinn og þáðu glas af bezta víninu, sem finnanlegt var í kjallaranum. Linot litli sat á arinhellunni og sneri lírukassasveifinni, en Florimond lék sér við Piccoio. Hátíðamatseðillinn var ákveðinn i mjög notalegu umhverfi og samræð- um og samkomulag náðist fljótt. — Jæja þá! buldi kráareigandinn, þegar hann hafði fylgt konunum til dyra með ótal hneigingum. — Hvað eigum við nú að gera við allt þetta drasl á borðunum? Listamennirnir og verkamennirnir fara rétt að koma til að fá kvöldsvaladrykkinn. Þeir snerta ekki við þessu nammi hér, hvað þá að þeir borgi fyrir það. Til hvers var þessi tilgangslausa eyðsla? — Þú veldur mér vonbrigðum, Maitre Jacques, mótmælti Angelique. — Eg hélt, að þú værir meiri verzlunarmaður. Þessi tilgangslausa eyðsla hefur gert þér fært að taka á móti pöntun, sem færir Þér í ágóða tíu sinnum meira en þú hefur eytt í dag. Án þess að þú hafir reiknað með þeirri verzlun, sem konurnar útvega okkur fyrir utan þessa veizlu. Við komum þeim til þess að syngja og dansa, og þeir sem framhjá fara, munu koma inn á veitingahúsið, þar sem fólkið skemmtir sér svona vel. Þótt Maitre Bourjus væri það þvert um geð að láta Það í ljós, var ekki laust við að hann væri, undir niðri, á sömu skoðun og Angelique. Erillinn og annríkið um daginn hafði komið honum til að gleyma löng- un sinni I áfengi. Hann þaut um allt á sínum stuttu fótum. Rifjaði upp sína gömlu snilli við matargerð, og skipunartóninn, sem hann hafði notað við kaupmennina, sömuleiðis eðlilega en þó hátíðlega og virðulega framkomu veitingamannsins. Þegar Angelique hafði að lokum fullvissað hann um, að góð fram- koma og ytri búnaður væru nauðsynleg hjálpartæki til að koma fót- unum undir hann á nýjan leik, hafði hann jafnvel pantað matsveinsbún- inga handa frænda sínum og Flipot. Risastórar stromphúfur, jakka, bux- ur, svuntur og sömuleiðis nýja borðdúka og munnþurrkur. Það sem not- hæft var af þvi gamla, var sent i þvottahús og kom til baka, stíft af línsterkju’og hvítt eins og snjór. Að morgni hins mikla dags kom Maitre Bourjus til Angelique, brosti og neri saman höndunum. —• Góða mín, sagði hann og Ijómaði af vingjarnleik. — Það er stað- reynd, að þú hefur flutt aftur i hús mitt gleði og ánægju, á sama hátt og konan mín fyrrum. Og þetta hefur gefið mér hugmynd. Komdu með mér andartak. Hann kinkaði vingjarnlega kolli til hennar og benti henni að fylgja sér. Hún klöngraðist upp vindustigann á eftir honum. Á fyrsta stiga- pallinum námu þau staðar. Þegar Angelique kom inn í svefnherbergi Maitre Bourjus, fylltist hún ótta, sem hún hafði ekki fundið til áður. Var það mögulegt, að veitingamaðurinn byggi yfir þeirri hugmynd að biðja hana, sem hafði ótilkvödd tekið að sér að verulegu leyti hlutverk konu hans, að færa út þjónustuna, svo hún næði alla leið hingað? Með lymskulegu brosi á andlitinu lokaði hann dyrunum og gekk yfir að fataskápnum. Þetta var ekki til Þess fallið að hughreysta hana. I skyndilegri skelfingu velti Angelique þvi fyrir sér, hvernig hún ætti að bregðast við því, sem koma mundi. Myndi hún verða að hætta við þetta verk hálfnað? Þetta verk, sem hún hafði haft svo mikla ánægju af? Yfirgefa þetta þægilega hús? Leggja enn einu sinni af stað með drengina sína tvo og fjölskylduna? Átti hún að láta undan? Hún fann brunahita á kinnunum, þegar henni varð hugsað til Þess, og með æsingi litaðist hún um 1 herbergi veitingamannsins, með stóra rúminu bak við grænu ullartjöldin. Þessa tvo litlu armstóla og þvottastandinn úr val- hnotuviði. Yfir eldstæðinu voru tvær myndir af ástríðufullum pörum og á ugl- um á veggjunum héngu vopn, sem voru stolt hvers borgara: Tveir litlir rifflar, framhlaðningur, lásbogi, lensa og sverð með silfurmeðalkafla og hjöltum. Angelique heyrði hann mása og baksa eitthvað inni í fataskápnum. Svo kom hann fram úr honum og ýtti á undan sér stórri kistu úr dökkum viði. — Réttu mér hjálparhönd, stúlka. Hún hjálpaði honum að draga kistuna fram í herbergið. Maitre Bourjus strauk af sér svitann. — Jæja, sagði hann. — Ég hef verið að hugsa — reyndar ert það þú, sem hefur alltaf verið að staglast á því, að við Þessa veizlu ætti allt að vera eins fínt og hjá svissnesku varðliðunum. Davíð og eld- hússtrákarnir tveir og ég, við verðum allir tip top fínir. Ég skal fara í brúnu silkibuxurnar mínar. En þú, stúlka mín, við getum ekki verið stoltir af þér, þótt þú sért falleg í framan, svo ég hef verið að hugsa.... Hann þagnaði, hikaði og svo opnaði hann kistuna. 1 hana var vand- lega raðað fatnaði Madame Bourjus. —• Hún var svolitið þreknari en þú, sagði veitingamaðurinn rám- ur, — en með fáeinum títuprjónum hér og þar.... Hann strauk tár úr auga sér með einum fingri og muldraði: — Stattu ekki þarna og gláptu á mig. Veldu. Angelique skoðaði fötin. Þetta voru látlaus föt úr einföldum efnum, en flauelsborðarnir, skærlitar líningar og gróft efni undirfatanna sýndi, svo að ekki var um villzt, að veitingakonan í Le Coq Hardy, hafði fram á dauðadag verið ein bezt klædda veitingakonan í hverfinu. Hún hafði jafnvel átt litla, rauða flauelsmúffu með gullblómamyndum. Angelique reyndi múffuna Þegar í stað. — Bjánaskapur! tautaði Maitre Bourjus og brosti. — Hún sá Þetta einhversstaðar í búð og gat ekki hætt að tala um það. Ég sagði við hana: — Amandine, hvað ætlar þú að gera við svona múffu? Hún er miklu frekar handa einhverri hefðarkonunni úr Maraishverfinu, sem ætlar að leika léttúðardrós i görðum Tuileries eða á Cours-la- Reine, á sólbjörtum vetrardögum. — Allt í lagi, sagði hún. — Ég skal þá bara fara og leika léttúðardrós í Tuileries eða á Cours-la-Reine. Ég varð alveg brjálaður! Ég gaf henni þetta í jólagjöf um síðustu jól. Mikið lifandi skelfing var hún ánægð!.... Hver gæti hafa látið sér detta í hug, að fáeinum dögum seinna myndi hún vera.... dáin.... Angelique kingdi munnvatni. Framihald á bls. 37.

x

Vikan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vikan
https://timarit.is/publication/368

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.