Vikan - 31.10.1991, Blaðsíða 27
og komst ég ekki yfir nærri allt sem til stóö í
upphafi. Ég kom víða fram í útvarpi og sjón-
varpi, sem var alveg nýtilkomið á þessum
tíma. Þá söng ég fyrrgreint lag mitt meðal
annars. Ég á þessar upptökur á bandi en þær
hafa aldrei verið gefnar út. Mér var boðið að
dvelja lengur vestra og syngja en ég gat ekki
hugsað mér annað en að drífa mig heim þegar
fríið var á enda. Ég hugsaði sem svo að ég
gæti alltaf farið aftur en ég mátti aldrei vera að
því.“
í 39 ÁR HJÁ ÚTVARPINU
Forlögin höguðu því þannig að Ingibjörg gat
unnið i tengslum við helsta áhugamál sitt, tón-
listina, í hartnær fjörutíu ár. Þannig var að
Skúli bróðir hennar hóf störf hjá útvarpinu á
sínum tíma. Jónasi Þorbergssyni útvarpsstjóra
líkaði svo vel við hann að hann falaðist einnig
eftir systur hans til starfa - þar eð góðan
starfskraft vantaði á innheimtuskrifstofuna.
„Ég hóf störf hjá útvarpinu 1946. Fyrst í stað
ætlaði ég bara að prófa þetta en það fór á aðra
leið. Fyrstu þrjú árin var ég á innheimtuskrif-
stofunni en síðan í þrjátíu og tvö ár á tónlistar-
deildinni. Síðustu fjögur árin vann ég á dag-
skrárdeildinni, þrjú ár sem aðstoðardagskrár-
stjóri og eitt ár sem dagskrárstjóri á meðan
Hjörtur Pálsson var í leyfi. Um tíma starfaði ég
líka sem þulur í afleysingum. Vilhjálmur Þ.
Gíslason, þáverandi útvarpsstjóri, vildi fá mig í
fast starf sem þul en ég hafði ekki áhuga á því.
Ástæðan var sú að þularstarfið er unnið á vökt-
um og ég hefði þá þurft aö hætta í Þjóðleik-
húskórnum sem æfði og kom fram aðallega á
kvöldin. Á þeim tíma þáðum við laun fyrir að
vera í kórnum - en það var auðvitað sjálfur
söngurinn og kórstarfið sem var svo heillandi.
Þetta var einkar skemmtilegur tími og oft var
mikið að gera hjá okkur bæöi í söngieikjum og
óperusýningum. Mér telst til að ég hafi verið í
kórnum í ein tuttugu og fimm ár.“
STJÓRNAÐI ÓSKALAGAÞÆHI
SJÚKLINGA OG FLETTI
NÓTNABLÖÐUM
„Fljótlega fór ég að stjórna Óskalagaþætti
sjúklinga sem var sendur út á hverjum laugar-
degi. Björn R. Einarsson var fyrsti stjórnandi
hans og hafði verið með hann í um eitt ár þeg-
ar ég tók við. Ég stjórnaði honum í fjögur og
hálft ár og nennti þessu þá ekki lengur. Ég var
búin að fá ofnæmi fyrir bréfum sem bárust
þættinum í hundraðatali í viku hverri. Hann var
óhemju vinsæll - enda ekki margir óskalaga-
þættir á dagskránni á þeim árum - og af þessu
tilefni var ég vinsælt umfjöllunar- og viðtalsefni
í dagblöðum og tímaritum. I þættinum voru
nýjustu dægurlögin kynnt og því náði hann til
eyrna allra þeirra sem höfðu gaman af slíku.
Á tónlistardeildinni starfaði ég við ýmislegt,
meðal annars að velja tónlist í hádegis- og síð-
degisútvarp, en segja má að einn hluti starfs-
ins hafi verið svolítið sérstakur. Algengt var að
ég væri beðin um að hlaupa fram í útvarpssal
til þess að fletta nótnablöðum fyrir hina ýmsu
hljóðfæraleikara sem þar voru að spila inn,
bæði innlenda og erlenda. Ég var alltaf hálf-
taugaóstyrk meðan á þessu stóð. Á þessum
árum var Páll ísólfsson tónlistarstjóri. Oft var
ég fengin til að fara út í Dómkirkju, þar sem
hann var organisti, til þess að fletta nótum fyrir
hann, ef hann var að leika inn á upptökur fyrir
útvarp.
Einu sinni sem oftar sat Páll við hljóðfærið
og til stóð að taka upp leik hans. Verkið var
það rólegt að hann gat flett nótnablöðunum
sjálfur þangað til alveg undir lokin. Hann haföi
því ekki kallað á neinn sérstakan sér til aðstoð-
ar og ætlaði að biðja tæknimanninn um að
fletta þessum síðustu síðum. Tæknimaðurinn
átti sem sé að fletta þegar Páll væri langt kom-
inn með verkið og kinkaði kolli til hans. Sá fyrr-
nefndi var mjög taugaóstyrkur því ekkert mátti
fara úrskeiðis. Þegar Páll loks gaf tækni-
manninum bendingu var fumið svo mikið á
honum að allar nóturnar duttu á gólfið - og
upptakan var þar með ónýt. Þá var brugðið á
það ráð að hringja í mig. Það var ekki langt að
hlaupa úr Landssímahúsinu og yfir í Dómkirkju
og því kom ég að vörmu spori. Páll hóf að leika
verkið á nýjan leik og allt gekk bærilega. Þegar
langt var liðið á flutninginn og ég var byrjuð að
fletta flaug flugvél í aðflugi yfir kirkjuna og þar
með var upptakan aftur ónýt. Þaö var farin að
þyngjast brúnin á meistaranum þegar hér var
komið sögu. Hann lót sig samt ekki muna um
að spila verkið einu sinni enn - og í þriðju til-
raun tókst það.“
STÓRMENNI Á ÚTVARPINU
Ingibjörg hóf störf á útvarpinu þegar stofnunin
var enn að slíta barnsskónum. Aðstæður þá
voru allt aðrar en við þekkjum nú og samsetn-
ing starfsliðsins með sérstökum hætti. Þarna
unnu nefnilega nokkrir helstu menningarfröm-
uðir landsins hver á sínu sviði og þau stór-
menni sem ekki beinlínis störfuðu þarna voru
daglegir gestir. Það dugði ekkert minna þegar
sjálf menningin átti í hlut.
„Ég var svo lánsöm að kynnast flestum
brautryðjendunum hjá Ríkisútvarpinu, fyrsta
útvarpsstjóranum, Jónasi Þorbergssyni, Páli
ísólfssyni tónlistarstjóra og Helga Hjörvar dag-
skrárstjóra, svo aðeins fá nöfn séu nefnd.
Þetta voru miklir snillingar. Jónas var einstak-
lega elskulegur maður, skilningsríkur og úr-
ræðagóður. Ég hafði auðvitað mest saman að
sælda við fólkið á tónlistardeildinni en þar var
Páll ísólfsson minn fyrsti yfirmaður. Hann var
geysilega vel að sér en þar fyrir utan var hann
mjög skemmtilegur. Hann hafði til dæmis gam-
an af aö segja frá og var fyrirtaks sögumaður.
Samstarfskonur mínar á þessum árum voru
líka mjög góðir og skemmtilegir félagar, þær
Guðrún Reykholt og Sigrún Gísladóttir.
Það var ákaflega þröngt um tónlistardeildina
í Landssímahúsinu, eins og reyndar um stofn-
unina alla. En þessi tími þar er mér enn f
fersku minni. Til okkar inn á deild kom alltaf
margt gott fólk í heimsókn og þetta var eins og
tónlistarakademía. Þarna var tónlistin rædd
fram og aftur og allir viðburðir á því sviði í land-
inu og heimsmálin ekki síður og pólitfk Ifðandi
stundar. Fyrir unga stúlku, sem hugsaði ekki
um annað en tónlist, var það stórkostleg upp-
lifun að hlusta á samræður allra helstu menn-
ingarfrömuða landsins og spekinga á tónlistar-
sviðinu."
AÐ NJÓTA LÍFSINS
Ingibjörg Þorbergs er greinilega upptekin kona
þótt hún þurfi ekki lengur að stunda vinnu sína
f útvarpinu allan daginn. Þegar blaðamaður
hringdi f hana var hún lengi að finna þann dag
sem hún gæti hugsanlega hitt hann. Dagurinn
var ákveðinn en næsta morgun hringdi hún og
kvaðst því miður þurfa að fresta fundinum um
eina viku.
Hvernig fannst þér að fara á eftirlaun aðeins
57 ára gömul og þurfa ekki lengur að mæta til
vinnu?
„Alveg stórkostlegt, ég hef notið þess frá
fyrsta degi. Að vakna einn góðan veðurdag og
þurfa ekki að flýta sér í vinnuna og stimpla sig
inn er sérstök og ógleymanleg tilfinning. Fyrsta
sumarið dvöldum við í heilar sjö vikur á
frönsku Rivierunni og síðan í París á leiðinni
heim. Það varalveg yndislegurtími. Mikiðværi
gaman að geta eytt ellinni þar. Ég hef haft
meira en nóg við tímann að gera. [ raun finnst
mér ég núna hafa minni tíma til að gera
ýmislegt heldur en á meðan ég stundaði fasta
vinnu. Ég hef aldrei verið afkastameiri en á
þeim tíma sem ég hef haft allra mest að gera.
Það er eins og afköstin minnki þegar tfmi
manns rýmkast. Við Guðmundur höfum reynt
að ferðast mikið og við syndum á hverjum
degi. (tvo vetur vorum við í spænskutímum og
við erum að læra á tölvu um þessar mundir,
svo fátt eitt sé nefnt.“
Ertu enn að semja lög?
„Ég sem öðru hverju eitthvað, þegar andinn
kemur yfir mig. Það síðasta sem ég gerði var
fólgið í því að ég tók fyrir stuttan kafla úr bók
Thors Vilhjálmssonar, Grámosinn glóir, og
samdi tónlist við hann. Texti Thors er ákaflega
Ijóðrænn og því datt mér þetta allt í einu í hug.
Nýlega samdi ég lag við Maríuljóð Ragnhildar
Ófeigsdóttur, sem hún orti í tilefni af komu Jó-
hannesar Páls páfa til (slands fyrir tveimur
árum. Ég hef nóg að gera og við Guðmundur
erum mjög hamingjusöm saman og njótum
hverrar stundar."
22. TBL1991 VIKAN 23