Menntamál - 01.02.1946, Qupperneq 14
10
MENNTAMÁL
þakka, hve prýðilega kennari og ráðskona inntu sitt starf
af hendi. Og þeirra starfskrafta beggja naut þar við í
14 ár samfleytt, og heppnin hefur haldizt við með val í
þessar stöður síðan.
Ef tímar hefðu ekki verið jafn erfiðir og raun var á,
þegar skólinn var byggður, myndi húsakostur hafa orðið
rýmri frá byrjun. En úr þessu var bætt 1937. Þá var
byggt við skólahúsið stórt og vandað fimleikahús og þrjú
íbúðarherbergi, svo að húsrúm er nóg nú í bili.
Þegar ég lít yfir farinn veg, dreg ég í efa, hvort mér
þykir öllu vænna um nokkurt annað af þeim málum,
sem ég hef unnið að, að komið væri í framkvæmd, en
byggingu heimavistarbarnaskóla Gnúpverja árið 1923.
Við teljum æskilegt að fjölga býlum í sveitum og draga
úr straumnum þaðan til sjávarsíðunnar. Til þess að það
megi takast, verður að sjálfsögðu að búa sem bezt að
börnum og unglingum frá fyrstu tíð, og þar á meðal ekki
sízt með alla fræðslu.
Lágmarkskrafan verður því sú, að hvert barn í sveit
eigi kost á skólagöngu með heimavist frá fyrstu náms-
árum sínum.
Frá slíkum stofnunum undir stjórn manna, sem væru
verki sínu vaxnir, vildi ég vænta þeirra strauma, að
margur unglingurinn sjái með líðandi árum hlíðarnar
heima í sveitinni fleiri og fegurri og vilji hvergi fara.
Páll Stefánsson.
Frá Kína.
í fræðslulögum, sem samþykkt voru í Klna 1944, er gert ráð fyrir,
að öll börn á aldrinum 6 til 12 ára njóti ókeypis fræðslu. og er nú
mikið kapp lagt á að koma þessum ákvæðum í framkvæmd, svo að
öll börn verði fræðslunnar aðnjótandi. Jafnframt er komið á fót
nokkurra mánaða námskeiðum í lestri og skrift handa fullorðnu fólki,
sem ekki kann það áður, og er sú kennsla einnig ókeypis. (Eftir
Bulletin du Bureau international d’education í Genéve)