Menntamál - 01.05.1952, Blaðsíða 20
58
MENNTAMÁL
stofnanirnar þvílíkt bákn, að reynast mun mjög erfitt og
seinlegt verk að færa rekstur þeirra í æskilegt horf. Mun
torvelt að endurmennta starfsfólk þeirra og innræta því
annan skilning á þörfum barnsins og temja því nýjar
starfsaðferðir. Loks eru allar endurbætur mjög komnar
undir skilningi allra þeirra ráðamanna, sem fara með mál
þessara stofnana og hafa yfirstjórn þeirra á hendi.
Þessi ráðstefna átti í því sammerkt við aðrar af slíku
tæi, að á henni kom ekkert nýtt fram í þeim skilningi, að
þar væri skýrt í fyrsta sinni opinberlega frá merkum
rannsóknarniðurstöðum. Megingildi slíkra móta er miklu
frekar í því fólgið, að mönnum verða aðalviðfangsefnin
eða vandamálin ljósari en áður. Þeir fá tækifæri til að
ræða þau persónulega hver við annan og miðla hver öðr-
um af reynslu sinni, auka víðsýni sitt — og síðast en ekki
sízt fá þeir uppörvun og hvatningu til starfs.