Bjarmi - 01.12.1998, Page 25
Inga, elsta dóttir okkar sem er búsett á
Skagaströnd, en auk Ingu eignuðumst
við Böðvar, sem er ári yngri en Inga,
hann býr á Akranesi, og Margréti sem
er fædd 1949 og er búsett á Akureyri.
Þegar við höfðum búið á Akureyri í
eitt ár stofnaði ég Barnakór Akureyrar,
sjálfstætt starfandi barnakór með sjálf-
stæðan fjárhag. Við héldum oft tónleika
fyrir bæjarbúa og sungum auk þess á
öllum skólaskemmtunum.
Fimm árum eftir að ég stofnaði yngri
drengja starfið á Akureyri varð það úr
að Aðaldeild KFUM var stofnuð. Slík
deild hafði að vísu verið sett á laggirnar
15 árum áður af sr. Friðriki Friðrikssyni
og Jóhannesi Sigurðssyni prentara en
starfið hafði lognast út af eftir að Jó-
hannes flutti til Reykjavíkur.
Þessi ár voru afar erilssöm. Ég sá um
alla Yd.-, Ud.-, og Ad.-fundi hjá KFUM
og þá meina ég að ég stjórnaði þeim, lék
undir söng, var með skemmtiefnið og
hafði oftast hugleiðingarnar. Auk þess
æfði ég KFUM-drengina í handbolta.
Um miðjan 6. áratuginn var KFUM á
Akureyri farið að leita að hentugum
stað fyrir sumarbúðir. Vorið 1958 var
keypt land á Hólavatni.
Slysið
Þá um sumarið fékk ég vinnu sem raf-
virki við Sementsverksmiðjuna á Akra-
nesi sem þá var í byggingu. Ég bjó þá
hjá móður minni fyrir sunnan en Bryn-
dís varð eftir með börnin á Akureyri.
Þegar ég var að fara til vinnu morgun-
inn 28. júlí segir móðir mín við mig
„Björgvin, ég hef áhyggjur af þessum
degi. Farðu varlega." Þetta varð óham-
ingjudagurinn minn.
Þennan dag gerðist það óhapp í verk-
smiðjunni að fata, full af steypu, losnaði
af krók þar sem verið var að hífa hana
og féll 20 metra niður. Járnhringurinn á
fötunni kom í höfuðið á mér og braut
höfuðkúpuna svo illa að beinflís, sem
var 11 cm löng og 4 cm breið, stakkst
inn í heilann.
Þegar Bryndís fékk fréttirnar kom
hún þegar suður. Læknar hér heima
treystu sér ekki til að gera nægilega vel
að meiðslum mínum og var ég sendur á
spítala til Kaupmannahafnar með flugi.
Bryndís kom með mér þangað. Ég
komst fyrst til meðvitundar þegar ég
vaknaði eftir aðgerðina í Kaupmanna-
höfn. Ég hafði óskaplegar kvalir í höfð-
inu og bað um eitthvað kvalastillandi.
Það einkennilega var að ég vissi að ég
þyrfti að biðja um það á dönsku. Hvern-
ig ég vissi það veit ég ekki fyrir víst.
Fyrst á eftir var ég algerlega lamaður
vinstra megin en ekki leið á löngu að ég
fór að fá einhvern mátt í handlegginn.
Tekist hafði að setja höfuðkúpuna í
samt lag utan þess að gat var á henni á
einum stað. Gatið átti að fylla upp síðar
með plasti. Ég var sendur heim þegar
þetta var tekið að gróa. Þórður Möller
tók á móti okkur Bryndísi á Reykjavík-
urílugvelli. Eftir að hann hafði heilsað
okkur sagði hann við mig: „Mikið hef ég
þakkað Guði fyrir gatið sem þú fékkst á
hausinn, Björgvin." „Hvað ertu að
segja?“ sagði ég steinhissa. Þá gerði
hann mér grein fyrir að hefði ég ekki
fengið gatið á höfuðkúpuna hefði ég
dáið á nokkrum sekúndum því blóðið
hefði valdið slíkum þrýstingi á heilann
hefði það ekki komist út.
Ég var lagður inn á Landspítalann
þar sem ég fékk mjög góða umönnun og
þjálfun. Meðan á þessu stóð komu
Bryndís og börnin suður.
Aftur á Akureyri
Við snerum aftur til Akureyrar haustið
1960 eftir að hafa dvalið í eitt ár í Nor-
egi og Danmörku. Ég tók aftur til við að
kenna en nú aðeins hálfa stöðu.
Ýmislegt hafði gerst í KFUM á Akur-
eyri meðan ég var í burtu. Þá hafði vax-
ið upp ungur maður sem var í fyrsta
KFUM-hópnum mínum og var einn af
stofnfélögum Ad., Skúli Svavarsson.
Skúli hafði alltaf verið feiminn en líklega
hefur Guð þurft að kippa mér burt á
þennan hátt svo hann skriði út úr skel-
inni. Hann tók forystuna í starfinu og
varð ófeiminn við að tala Guðs orð.
Skúli varð síðar kristniboði í Eþíópíu og
Kenýa, þar sem hann starfar nú þegar
þetta viðtal er tekið.
Skömmu fyrir jólin 1963 fann Bryndís
fyrir einkennilegri kúlu í kviðarholinu
sem ég fann líka við þreifingu. Hún leit-
aði þó ekki læknis fyrr en á þriðja í jól-
um. í fyrstu var talið að hún væri ófrísk
en þegar betur var að gáð reyndist hún
vera með krabbamein. Hún lést 13. des-
ember 1964, réttu ári eftir að hún
kenndi sér fyrst meins. Lát hennar olli
mér djúpum harmi sem ég bar að
mestu í hljóði.
Sumarið eftir að Bryndís dó var hægt
að byrja starfið á Hólavatni. Ég var
sumarbúðarstjóri og gegndi því hlut-
verki að minnsta kosti í tíu ár eftir það.
Smátt og smátt færðist ég í aukana aft-
ur í kristilega starfinu á Akureyri og var
virkur í því þar til ég flutti hingað á
Skagaströnd fyrir tæpum tveimur árum.
Nú er orðið nokkuð síðan ég settist að
segja má í helgan stein. Auðvitað sakna
ég oft erilsins úr starfinu en allt í lífinu
hefur sinn tíma. Ég bið þess og vona að
Guð geti notað mig eins og ég er á þeim
stað sem ég er. Ég er þakklátur Guði
fyrir hvern dag sem hann gefur, sagði
Björgvin að lokum.
Svo stutt viðtal sem þetta nægir eng-
an veginn til að gera fulla grein fyrir því
sem á daga Björgvins hefur drifið. Mörg-
um merkilegum atburðum er sleppt
hér. Ef gera ætti Björgvini Jörgenssyni
almennileg skil hefði viðtalið fyllt marga
Bjarma.
Þegar e'g var aö fara til vinnu morguninn 28. júlí
segir móðir mín við mig „Björgvin, ég hefáhyggjur
af pessum degi. Farðu varlega." Þetta varð óham-
ingjudagurinn minn.
Auðvitað sakna ég oft erilsins úr starfinu en allt
í lífinu hefur sinn tíma.