Heima er bezt - 01.06.1954, Blaðsíða 18

Heima er bezt - 01.06.1954, Blaðsíða 18
178 Heima er bezt Nr. 6 Kristmundur Bjarnason: Fyrsti íslenzki kvenlæknirinn Framh. úr síðasta hefti. Um þessar mundir giftist hún í annað sinn, enskum lögfræð- ingi, Joseph A. McGraw (7. septi 1909), mesta drengskaparmanni. Skömmu eftir giftinguna hrak- aði svo heilsu dr. Hrefnu, að hún varð að hætta störfum um skeið. Læknarnir sögðu, að það væri ofþreyta, sem að henni gengi. Fóru þau þá hjónin til Kaliforn- íu, en þar átti Hrefna að hvílast og hressast. Henni batnaði aftur, en fékk síðan á hverju ári svip- uð veikindaköst. Ofan á annað heilsuleysi hennar bættist svo illkynjuð inflúenza, og árið 1917 lá hún milli heims og helju mán- uðum saman, en síðan fór heilsa hennar heldur batnandi. Laun mannsins hennar á þessum árum hrukku ekki fyrir öllum þeim útgjöldum, er veik- indi þessi höfðu í för með sér, og þau urðu öreigar, en öreigi hafði Hrefna verið mestan hluta ævinnar, svo að hún tók þessu öllu með æðrulausri ró og still- ingu, enda gat hún strax og heilsan fór að skána, farið að afla sér nokkurs fjár á nýjan leik og veitt manni sínum með því nokkra hjálp til að koma öllu á kjöl aftur. En róðurinn var þungur. Það mun hafa verið um 1920, að sjúklingur kemur til Hrefnu frá McPherson héraði í Ne- braska. Læknislaust var um þessar mundir í fylkinu, enda hefur síður en svo þótt gróða- vænlegt fyrir lækna að setjast þar að. Er ekki að orðlengja það, að maðurinn stingur upp á því, að þau hjón flytjist þangað og hafi aðsetur í smábæ einum (raun'ar eina þorpinu, sem um er að ræða þarna) í sandhólum héraðsins, og heitir sá bær Tryon. Þar voru aðeins þrjátíu hús, en íbúar 125 talsins. Fátt eitt getur hann talið upp þessu héraði í Nebraska til ágætis. Það eru tæpir 2240 ferkílómetrar að flatarmáli, mjög strjálbýlt (íbú- ar 1700) og vegir, sem heitið geta því nafni, engir, — troðn- ingar á sumrum, hjarn og snjór á vetrum. Að vísu hafði verið ruddur eins konar vegur þarna fyrir löngu, en hann var lítt fær. Til næstu járnbrautarstöðvar, sem auðvitað er utan héraðs, eru fjörutíu og fimm kílómetrar, en sextíu og einn kílómetri til næsta sjúkrahússs. Lyfjabúð engin. Ekki má Hrefna búast við miklum tekjum. Þetta er hjarð- mannaland, og fólkið lítt efnum búið yfirleitt. Héraðsbúum hefur jafnan haldizt illa á læknum, því að umdæmið er svo erfitt og gefur lítið í aðra hönd. Læknir- inn verður að vera skjótráður og fær um að taka allar ákvarð- anir upp á eigin spýtur. Ferða- gjald fyrir lækni var einn dal- ur á mílu auk lyfjakostnaðar. Oft höfðu menn orðið að greiða fimmtíu dali fyrir læknisvitjun — og það fyrirfram. En fátt er svo með öllu illt, að ekki fylgi nokkuð gott, og svo var hér. Maðurinn klykkti nefnilega út með því að segja, að í McPher- son héraði væri heilnæmasta loftslag í heimi, og gnótt af þeim gæðum! Og gat slíkt ekki vegið nokkuð upp á móti vegleysum, illviðrum, rafmagnsleysi og hvers konar öðrum skorti nútíma þæg- inda, er í hlut átti læknir, sem heilsu sinnar vegna þoldi ekki óhollt loftslag? Og svo var bæj- arnafnið. Hrefnu fannst það heillandi, — Try-on, það þýddi blátt áfram: reyndu aftur! Og hví skyldi hún ekki reyna aft- ur? Þarna var fólk, sem þurfti hennar með. Þarna gat hún sýnt fórnarlund sína og ósérplægni, ef hún fengi heilsuna aftur. Auk þessa minnti þetta land hana á ísland, strjálbýlt, torsótt yfir- ferðar, en töfrandi í hreinleika sínum. Þarna var hægt að lifa hversdagslegu lífi innan um fá- brotið en vandað bændafólk. Maðurinn fer, og auðvitað hef- ur hún ekkert loforð gefið, en nú er ævintýraþráin aftur vöknuð, og hún getur ekki að því gert, þótt hana langi til að freista gæfunnar þarna út á sléttum Nebraska. Þegar maðurinn hennar kem- ur heim, segir hún honum allt af létta. Það gætir barnslegrar ákefðar hjá henni, er hún nefnir Tryon. Ættu þau ekki að reyna? „Blessuð vertu ekki að hugsa um Tryon“, sagði Jósef maður hennar. „Við höfum orðið ásátt um að fara til Kaliforníu í vet- ur“. „En það er enginn læknir í Tryon, og ég fæ nóg að gera þar“, sagði Hrefna. Bollaleggingum þeirra hjón- anna lauk með því, að Hrefna fékk að ráða. Og svo var það, að hún lagði af stað í eins konar reynsluför til Tryon. Hún var þó enn óráðin í að setjast þar að, en vildi kynna sér málin. „Ég stökk upp í lestina, sem fara átti til North Platte í leit að atvinnu, heilsu mér til handa og ævintýrum. Skömmu fyrir mið- nætti var ég komin til North Platte. Ég spurði fallega stúlku, sem var á heimleið frá háskól- anum í Lincoln, hvort hún gæti ekki vísað mér á gott gistihús ekki ýkjalangt í burtu. Mér var vísað á gististað hinum megin götunnar“, segir Hrefna. Og þarna rakst hún á póstinn, sem flutti farþega til Tryon. Þetta var vinalegur náungi, og þegar hann vissi, hvert för hennar var heitið, spurði hann: „Hafið þér nokkurn tíma komið þangað?“ Þegar Hrefna neitaði því, hristi karl höfuðið og sagði: „Það er hentast fyrir yður að setjast heldur að hér í North Platte eða koma til Denver, þar sem ég á heima. Þér virðist ekki búin því þreki, sem nauð- synlegt er lækni McPherson hér- aðs“. Maðurinn hafði orðið forviða, er hún sagði honum, að hún væri læknir, enda lét hann orð falla að því, að hún virtist öðr-

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.