Heima er bezt - 01.01.1958, Síða 8

Heima er bezt - 01.01.1958, Síða 8
af sér störfum. En af þessu sést, hve þörf hennar til skáldsagnagerðar er rík. I mörg ár skrifaði hún án þess að gera sér grein fyrir því, hvort hún væri að skrifa fyrir lesendur eða aðeins fyrir sjálfa sig, skrifaði aðeins vegna þess, að persónur hennar þurftu að tala og starfa í skáldsögunni. Auðvitað hefur þó alltaf búið með Guðrúnu þrá að sjá eftir sig bók á prenti. Þetta hefur verið æskudraum- ur, sem aldrei dó alveg. Slíkt þrá allir, sem semja sögur, og sennilega margir fleiri. En óefað hefur Guðrún frá Lundi oft verið í vafa um, hvort þessi draumur mundi nokkurn tíma rætast. Loks áræddi hún að senda handrit, og sendi það þó rautiar ekld. Frændi hennar, bróðursonur, kom í heim- sókn. Hann tók handritið með sér suður. Guðrún hefur sagt mér, að ýmsum útgefendum hafi verið sýnt það, en þeir ekki viljað gefa bókina út. Gunnar Einarsson, þáverandi forstjóri Isafoldarprentsmiðju, varð loks til þess að gefa bókina út. Mun hann ekki hafa þurft að iðra þess. Þá kom ný eftirvænting: Hvað myndu ritdómararn- ir segja um þessa nýju bók? Brátt kom það í Ijós. Vin- samlegir dómar. Þó vissu ritdómararnir ekki það, sem mestu máli skipti, að höfundurinn var kona, sem engrar skólagöngu hafði notið og lítillar fræðslu, en stritað í fátækt alla ævi sína, aldrei átt þess kost að ræða við aðra rithöfunda og engum sýnt handrit sitt, áður en það færi í prentun. Oft hef ég hugsað um það, hvaða árangri Guðrún frá Lundi hefði náð, ef hún hefði notið þjálfunar í listinni þegar á unga aldri, menntazt, æft stílbrögð og þá tækni, sem lærð verður fyrir áhrif frá öðrum, og hafa hlotið í vöggugjöf aðra eins frásagnargáfu, vinnugleði og starfsþrek. En þó finnst mér saga hennar enn merkilegri einmitt fyrir allar þessar vanefndir lífsins við þroskun hæfileika hennar. Ævi hennar hefur verið eins hversdagsleg, skulum við segja, eins og flestra annarra húsmæðra í sveitum lands- ins, og umhverfi hennar ávallt verið fremur tilbreytinga- lítið. Meira að segja bjó hún allan búskap sinn á af- skekktum stöðum, flutti frá heiðabýli út á yzta annes héraðsins. Sjálf er Guðrún í eðli sínu fremur hlédræg og ekki mannblendin. Þegar á allt þetta er litið, sætir furðu, hve myndríkar sögur hennar eru og auðugar af viðburðum. Skáldgáfan lýsir sér ekki hvað sízt í því, að hún finnur söguefnin í sjálfum hversdagsleikanum. Sá, sem óskyggn er, hefur ekkert að segja í fréttum. Hinn glöggskyggni sér alls staðar söguefni. Þeim, sem þannig er gerður, verður hugarheimurinn ljúfur samastaður, þar sem vel er unað löngum, og einkum þegar heimur veruleikans er hvað fábreytilegastur eða ofhlaðinn striti og erfiðleikum. Hér er ekld ætlunin að skrifa um sögur Guðrúnar frá Lundi, gildi þeirra, kosti og galla, framar en það, sem þegar hefur verið gert vegna sambands þeirra við ævi höfundarins. Þetta er ritað til að kynna mönnum að nokkru hina tvíþættu ævi þessa mikilvirka rithöfundar með því að rekja sögu hennar í stórum dráttum og segja frá kjörum hennar í lífsbaráttunni og svo hins vegar með því að reyna að skyggnast inn í hugarheima hennar. Rithöfunda sem aðra má dæma eftir ýmsum forsend- um. Skáldkona, sem lætur frá sér fara hverja metsölu- bókina af annarri, kemst auðvitað ekki hjá því, að sæta gagnrýni og vera borin saman við aðra höfunda þjóðar- innar, og sýnist þá jafnan sitt hverjum. Yfirleitt hefur Guðrún frá Lundi notið viðurkenningar og hróss af hendi gagnrýnenda, og hún á um þessar mundir stærri lesendahóp en flestir aðrir rithöfundar þjóðarinnar. Þó þolir Guðrún enn betur samanburðinn, séu að- stæður hennar og lífsskilyrði borin saman við mennta- feril og tæknilega þjálfun annarra rithöfunda. SKÁLDSÖGURGUÐRÚNAR Ég hef hér að framan nokkrum sinnum minnzt á Dalalíf, fyrstu sögu Guðrúnar frá Lundi, sem kom út árið 1946. Það hafði að undirtitli Æskuleikir og ástir. Kom það á daginn, að þetta var aðeins upphaf langrar sögu, því að síðar komu út fjögur bindi í viðbót, sem öll báru þetta sama nafn, en aðgreind annars þannig: Alvara og sorgir (1947), Tæpar leiðir 1948), Laun syndarinnar (1949) og Logn að kvöldi 1951). Aðrar skáldsögur Guðrúnar frá Lundi eru þessar: Afdalabam (1950), Tengdadóttirin, saga í þrem bindum, I. Á kross- götum (1952), II. Hrundar vörður (1953), III. Sæla sveitarinnar (1954), og síðan sögurnar Þar sem brim- aldanbrotnar (1955),Römm ersútaug (1956) og Öldu- föll (1957). Tvær smærri sögur hafa birzt í „Kvennablaðinu“, Kvöldgeislar (1950) og Utan frá sjó (1951). Hér í „Heima er bezt“ er nú að hefjast ný skáldsaga eftir þennan stórvirka höfund. Þegar ég heimsótti Guðrúnu frá Lundi síðast, hittist svo á, að hún var að þvo þvottinn sinn. Hún stóð við rafknúna þvottavél, sem tók af henni erfiði vinnunnar. Ég settist í eldhúsið hjá henni til að spjalla við hana um stund, og hún sótti konfekt til að gæða mér á. Ég sá í eldhúsi hennar ýmis raftæki, sem nauðsynleg þykja nú á tímum. Og á meðan ég virti þau fyrir mér, hugsaði ég til bernskuára húsmóðurinnar, sá fyrir mér hlóða- eldhúsið fullt af reyk og litla stúlku með taðpoka á bakinu að sækja í eldinn fyrir móður sína. Varla mundi hún fá sælgæti í munninn að verkalaunum. Og ég hugs- aði um kjör þessarar húsmóður á fyrstu búskaparárum hennar, þegar hún bjó í þröngum, köldum torfbæ með Iítil börn, eitt í vöggu og önnur á palli. — Talsverðar breytingar eru á orðnar síðan. Sagan um kjör afa og ömmu er áhrifamikil og gott fyrir ungu kynslóðina að kynnast henni. Því eiga þeir þakkir skihð, sem segja þá sögu. Hún mætti verða til þess að auka skilning þeirra, sem ungir eru, á gildi alls þess, sem þeim er veitt. Sagan um afdalabarnið, er sigr- ar í lífsbaráttunni, er áhrifamikil og fögur. 6 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.