Heima er bezt - 01.01.1958, Qupperneq 35
höfðu komið norður til að vera við jarðarförina. Þeim
fannst sjálfsagt, að maddaman héldi áfram búskapnum
og lofuðu að útvega henni duglegan ráðsmann. Stefán
lofaði að verða þar á heimilinu, þangað til hann kæmi,
sá mikli ráðsmaður. Rósa fór með þeim hjónum austur
og ætlaði að verða þar eitthvað, til að gleyma sorg sinni,
sem var mikil, því að hún hafði verið mikið eftirlætis-
barn föður síns.
Svo kom hann, þessi myndarlegi ráðsmaður. Kristján
hét hann, lærður búfræðingur frá Ólafsdal, myndarleg-
ur maður og söngmaður mikill. — Vinnukonurnar og
heimasæturnar urðu strax stórhrifnar af honum, þegar
þær heyrðu hann syngja í fyrsta sinn í kirkjunni, þegar
nýr prestur heilsaði söfnuðinum. Það var hátíðisdagur.
Nýi presturinn hét séra Gísli, ungur maður og ógift-
ur. Hann settist að úti í kaupstaðnum og kom aðeins að
Hofi til að embætta. Þar var mannsefni handa Rósu
litlu, sögðu konurnar í torfunni. Þær höfðu alltaf svo
gaman af því að para saman fólkið. Stefáni hafði strax
verið gefin Lauga á Þúfum. Hvað var ekki komið á
daginn? — En hvað átti þá að velja handa ráðsmannin-
um? Ekki myndi hann fá hryggbrot hjá stúlkunum
þar í sókninni. Þær sáu bara engan við kirkjuna nema
hann; ekki einu sinni prestinn, og var hann þó myndar-
maður.
Það var þó ein gömul kerling þarna úr nágrenninu,
sem rölti með prjónana sína heim á prestssetrið nokkr-
um dögum eftir að hann kom og náði í bollann, sem
hann hafði drukkið úr. Hún sagði, að það myndi ekki
verða lengi, sem hann hefði miklum vinsældum að
fagna, maðurinn sá, ef sér væri ekki farið að förlast. En
vinnukonurnar á prestssetrinu létu það í Ijós, að hann
væri svo sem nógu hælavakur kringum blessaða mad-
dömuna og hún hefði aldeilis yngzt upp og gleymt
sorg sinni, strax og hann hefði verið kominn á bæinn.
Hún reið við hlið hans í kaupstaðinn með ullarlest-
ina. Það þótti myndarlegt par. Hann átti fallegan, rauð-
an hest og sat hann vel. Hún var líka tilkomumikil kona,
þegar hún var setzt í söðulinn í þessu síða reiðpilsi, sem
náði fyrir víst kvartil niður fyrir fótaskörina, og með
svarta slörhattinn á höfðinu. Kristján var líka ólíkt álit-
legri en blessaður gamli presturinn hafði verið. Hann
hafði líka verið þó nokkrum árum eldri en maddaman.
Sennilega álíka mörgum og Kristján var yngri. Það
þóttust allir í nágrenninu vissir um, að hann yrði eftir-
maður séra Jóns, nema í hempuna myndi hann aldrei
fara, til þess vantaði hann lærdóminn. Hún var náttúr-
lega talsvert fullorðinsleg við hlið hans, blessuð mad-
daman, enda komin nokkuð á fimmta tuginn, en hann
mátti víst vera ánægður með að setjast í þetta litla bú
og eignast Hof og allar hjáleigumar.
Maddaman hafði víst sagt Kristjáni frá því, hvemig
búskaparlag maður hennar hafði, því að ekki var sparað
að senda til hjáleigubændanna og bjóða þeim vinnu. Þeir
þurftu ekki að vera óánægðir yfir því, að þeir fengi
ekki að vinna af sér eftirgj aldið. Ráðsmaðurinn kom oft
sjálfur heim í kotin til að bjóða þeim vinnuna.
Einu sinni talaði hann um það við húsmóðurina, hvort
leiguliðarnir gætu ekki farið heim til sín og borðað þar,
þetta væri svo stutt. En hún aftók það alveg. Það væri
nú skárri ómyndin, ef þeir fengi ekki að borða, þegar
þeir væru að vinna heimilinu. Þá var eklti talað um það
meira.
„Hvernig er það, Karen,“ sagði Kristján, þegar átti
að fara að taka upp móinn, „þú biður hann aldrei að
vinna hjá þér, þennan vinnumann, sem fór frá þér í vor
og er nú á Þúfum, þó sýnist mér hann vera talsvert
dugnaðarlegur.“
„Ég býst ekki við að hann ætli sér að vinna utan
heimilis, nema hann fái visst kaup á hvern klukkutíma.
Ég ætla ekki að borga honum það. Hann var heldur
aldrei beint mér að skapi, en Jóni mínum féll vel við
hann,“ svaraði hún.
Og hjáleigubændurnir sögðu Kristjáni, að Stefán hefði
alltaf hætt vinnu, þegar klukkan hefði verið orðin tíu
á kvöldin, nema þegar eitthvað sérstakt hefði verið um
að vera, svo sem rúningur eða heyband.
„Við skulum sjá, hvort ekki er hægt að lægja rostann
í karli,“ sagði Kristján.
Daginn eftir sendi hann smalann suður að Þúfum með
boð um, að Stefán gæti fengið að taka upp mó næsta
dag. Drengurinn kom aftur með þau skilaboð, að hann
ætlaði sjálfur að taka upp mó.
„Mér datt það í hug, að svarið yrði svona,“ sagði
maddaman.
„Hann þykist vera eitthvað,“ sagði Kristján. Svo raus-
aði hann heilmikið yfir því, hvernig sumt fólk reyndi
að belgja sig út og gera sig merkilegt, sem ekkert gæti
eða kynni.
Nokkru seinna var sent til Stefáns og þá með sltrifað
skjal, þar sem honum var sagt, að nú yrði hann, eins og
aðrir hjáleigubændur, að slá hálfan mánuð hjá lands-
drottni sínum, sem nú væri maddama Karen.
Stefán svaraði skriflega. Sagðist hafa byggingarbréf,
skrifað af prestinum sáluga. Þar væri ekki minnzt á
neinn slátt, aðeins fimm sauða eftirgjald.
Nú fór að kárna gamanið, og sjaldnar var farið á
milli bæjanna en áður. Kristján lagði jafnan Stefáni illt
á bakið við nágrannana. Þeim þótti ekkert að því, að
heyra það. En svo fór þó, þegar leið á sláttinn, að þeir
sáu þann kost vænstan að neita vinnu hjá þessum veit-
ula manni. Að öðrum kosti gætu þeir ekki heyjað
handa sínum eigin skepnum. Og þá var ekki talað betur
um þá.
Þegar leið að hausti og svellið kom á mýramar aftur,
komu unglingarnir saman á kvöldin, eins og áður, og
nú var ráðsmaðurinn með og kenndi þeim danssporið.
Stefán á Þúfum kom aldrei á svellið, þegar Kristján
var þar. Það leit út fyrir, að þeir gætu ekki þolað nær-
veru hvor annars, en kærasta Stefáns og systur hennar,
sem voru innan við fermingu, létu sig ekki vanta.
Kristján lofaði þessum lífsglöðu unglingum að hann
skyldi kenna þeim vel að dansa, þegar sorgarárið væri
liðið. Hér væri allt svo óþægilegt úti í kuldanum. Svo
fundu líka allir, að það vantaði mikið á, að glaðværðin
Heima er bezt 33