Heima er bezt - 01.06.1977, Blaðsíða 14
1880. Er hið mesta mein, að ekki skuli unnt að ljúka
útgáfu annálsins. Hallgrímur gaf einnig út nokkrar
þýddar skáldsögur.
Enn ve'rður að geta hér manns, sem stóð að mikilli
bókaútgáfu, enda þótt það væri ekki í atvinnuskyni,
en það var Arthur Gook trúboði (1883—1959). Hann
hóf útgáfu bóka skömmu eftir aldamótin og hélt henni
áfram uns hann fluttist frá Akureyri fáum árum fyrir
andlát sitt. Gaf hann út svo tugum skipti bóka og bækl-
inga bæði frumsaminna og þýddra. Flest voru þetta
smárit, en þó voru allstórar bækur með t. d. Kristur —
biblían — vantrúin o. fl. Öll voru þessi rit trúarlegs efnis
og mörgum dreift ókeypis, en vel vandað til flestra
þeirra. Auk þess gaf Mr. Gook út mánaðarritið Norð-
urljósið um fjölda ára. Það er nú ársrit og gefur Sæ-
mundur G. Jóhannesson það út. Hann hefir einnig
haldið uppi nokkurri útgáfustarfsemi í stíl og anda
Arthur Gooks.
Árið 1923 gerist merkisatburður í sögu bókaútgáfu
á Akureyri, en þá keypti Þorsteinn M. Jónsson (1885—
1976) aðra bókaverslun bæjarins Bókaverslun Sigurðar
Sigurðssonar, og ári síðar hóf hann bókaútgáfu, sem um
nær þriggja áratuga skeið var athafnamesta útgáfa á
Akureyri og oft hin umsvifamesta á öllu landinu. Hægt
var að vísu farið af stað en útgáfunni óx fljótt fiskur
um hrygg, og mun Þorsteinn alls hafa gefið út hátt á
þriðja hundrað bóka eða sem svarar 10 bókum á ári. En
þó að bókaútgáfa Þ. M. J. væri ærið starf hafði hann
ætíð mörg önnur járn í eldi, kennslu, skólastjórn,
rekstur bókaverslunar og stórbús auk margvíslegrar
þátttöku í opinberum málum. Hafði hann lengstum litla
aðstoð við forlagið, svo að það varð næstum tómstunda-
vinna hans, enda var hann margra manna maki að
vinnuþreki og afköstum. Athyglisvert er, að á kreppu-
árunum eftir 1930 dró hann hvergi saman segl, en færð-
ist heldur í aukana, og var þá þó fremur dauft vfir
bókaútgáfu í landinu.
Segja má, að skipta megi útgáfubókum Þorsteins í
þrjá meginflokka: íslensk skáldrit, þjóðleg fræði og
kennslubækur. Hann gaf út frumútgáfur af mörgum
kvæðasöfnum og leikritum Davíðs Stefánssonar frá
Fagraskógi og söguna Sólon Islandus, einnig heildar-
söfn kvæða Davíðs tvisvar sinnum. Þá gaf hann út
bækur eftir þessa höfunda: Guðmund Hagalín, Guð-
mund Daníelsson, Friðrik Á. Brekkan, Jónas Rafnar,
Elinborgu Lárusdóttur, Kristínu Sigfúsdóttur, Huldu,
Halldór Laxness, Jóhannes úr Kötlum, Jóhann og Guð-
mund Frímann, Pál J. Árdal og Jónas Jónasson frá
Hrafnagili auk ýmissa annarra. Þorsteinn lét sér annt
um að koma ungum og efnilegum höfundum á fram-
færi, og hefir því verið minna haldið á lofti en skyldi,
en ýmsir þeirra hurfu síðar frá honum, þegar hann
hafði rutt þeim brautina.
Flokkurinn um íslensk fræði er minni að vöxtum, en
engar bækur voru Þorsteini hugleiknari, og lagði hann
fram mikla vinnu við undirbúning útgáfu þeirra. Full-
yrða má, að þegar frá eru talin þjóðsagnasöfn Jóns Árna-
sonar og Sigfúsar Sigfússonar, hefir Þorsteinn gefið út
nær allt það merkasta sem prentað hefir verið af ís-
lenskum þjóðsögum og skyldum fræðum. Miklu hæst
ber þar Þjóðsögur Ólafs Davíðssonar í 3 bindum 1945,
en einnig söfnin Gráskinnu er þeir söfnuðu til Sigurður
Nordal og Þórbergur Þórðarson og Grímu, sem Þor-
steinn safnaði til sjálfur ásamt Jónasi Rafnar, en fvrsti
stofn hennar var úr safni Odds Björnssonar. Til þessa
flokks má einnig telja Hornstrendingabók Þórleifs
Bjarnasonar 1943 og Sögu Snæbjarnar í Hergilsey 1930.
Kennslubækur þær er Þorsteinn gaf út eru flestar
handa barna og unglingaskólum, eru þær fjöldamarg-
ar en mest þeirra er íslendingasaga Arnórs Sigurjóns-
sonar 1930 og síðar 1942, og Landafræði eftir Guð-
mund Þorláksson og aðra eftir Ástvald Eydal og Stein-
dór Steindórsson. Éftir að ríkisútgáfa námsbóka kom
til sögunnar átti Þorsteinn oft í nokkru stríði við þá
stofnun. Hann gaf út allmikið af barnabókum, og mun
einna fyrstur manna hafa orðið til þess að gefa út ís-
lenskar þjóðsögur skreyttar myndum handa börnum.
Meðal fyrstu bókanna, sem Þ. M. J. gaf út var ritsafn, er
hann nefndi Lýðmenntun. Áttu það að vera fræði-
bækur í líkingu við Bókasafn alþýðu, og verði mjög
stillt í hóf. Ekki féll sú útgáfa í frjóan jarðveg og komu
aðeins út 4 bindi. Eitt þeirra var Himingeimurinn eftir
Ágúst H. Bjarnason. Tímaritið Nýjar kvöldvökur gaf
Þorsteinn út í nær 30 ár og var lengst þess tíma ritstjóri
þeirra. Höfðu þær áður verið gefnar út af hlutafélagi,
sem Þórhallur Bjarnarson átti hlut að, en hann var í
félagi við Þorstein um fyrstu útgáfubækur hans.
Fátt gaf Þorsteinn út af þýddum skáldsögum annað
en ungpíubækur Margit Ravn, sem Helgi Valtýsson
þýddi. Þorsteinn var enginn nýjabrumsmaður í útgáfu-
starfsemi sinni. Auglýsti sjaldan bækur sínar og var treg-
ur til að leggja mikið í skrautlegar kápur og því um
líkt, en lagði hinsvegar kapp á að vanda til efnis og
frágangs. Verður því ekki móti mælt, að hann var einn
af merkustu útgefendum landsins á sinni tíð, og þó
lengur sé leitað. Hann fluttist til Reykjavíkur 1956, og
fékkst lítið við útgáfu eftir það.
Eins og áður er getið gaf Prentsmiðja Odds Björns-
sonar nær enga bók út um árabil. En upp úr 1950 stofn-
aði Prentverkið að nýju Bókaforlag Odds Björnssonar,
og hefir það nú um aldarfjórðung verið athafnamesta
forlag á Akureyri og í fremstu röð útgefenda á landinu.
Það og störf þess standa svo nærri oss nú, að ekki gerist
þörf að rekja þau til hlítar. Forstöðumenn þess hafa
verið þeir feðgar Sigurður O. Björnsson og Geir sonur
hans. Útgáfubækur forlagsins eru næsta fjölbrevttar,
hygg ég meðal þeirra sé að finna dæmi flestra þeirra
bókaflokka, sem gefnir eru út á íslandi, sem best má sjá
af bókaskrá þeirri, sem forlagið hefir nú gefið út nær
frá upphafi og fylgt hefir Heima er bezt á hverju ári.
í því safni er að finna æfisögur, skáldsögur, íslenskar og
þýddar, ljóð, leikrit, ferðasögur, landafræði, sagnfræði
og ótal margt fleira. Stærsta verkið er áreiðanlega Vest-
ur-íslenzkar æfiskrár í 4 gildum bindum, sem síra Benja-
mín Kristjánsson hefir samið. Af unglingabókum hafa
sögur Ármanns Kr. Einarssonar vakið mesta athygli.
194 Heima er bezt