Heima er bezt - 01.10.1983, Blaðsíða 2

Heima er bezt - 01.10.1983, Blaðsíða 2
Nokkur umræða hefir verið í blöðum undanfarið um íslenskt mál, og fer vel á því og ber vitni, að mönnum sé þó ekki sama um tungu vora, og geri sér ljóst, að víða er að henni vegið, og jafnvel þeir aðilar, sem helst ættu að vera á varðbergi, svo sem fjölmiðl- arnir rækja þá skyldu sína fremur slælega. Einna ákveðnust varð umræðan um þágufallssýkina svonefndu, sem Halldór Halldórsson vill raunar kalla „méranir“. Þykir mér sú afstaða hans furðuleg, að hann skuli vilja láta undan í þessu efni, jafnfastlega og hann tekur í þann streng að vernda tunguna. Hann viðurkennir með réttu, að rangt sé að segja „mér lang- ar“ í staðinn fyrir „mig langar“, en hvers vegna þá ekki að láta það heyr- ast í nafngiftinni á fyrirbærinu, að þetta sé sýki í málinu, eða a.m.k. hnignun eða hrörnun. Stundum heyrist raunar að þetta sé þróun málsins. Ef kenna á það við þróun er það öfugþróun. Halldór segir að þágufallssýkin sé ung. Þar er ég sam- mála. Ég minnist ekki að hafa heyrt hana fyrr en ég kom í skóla fyrir um 60 árum, og var hún þá svo lítt út- breidd, að maður hrökk við að heyra hana. I sveitum mun hún alls ekki hafa verið til um þær mundir. En síð- an gerist sýkin æ útbreiddari og al- gengari. í rannsókn, sem rædd var í blöðunum kom í ljós, að í skólum var þágufallssýkin algengari meðal lélegra nemenda en góðra, og er það náttúrlegt. Eitthvað verður kennurum ágengt, og vitanlega mest meðal bestu námsmannanna. Hinsvegar tel ég fráleitt, að þágufallssýkin geri sér nokkurn stéttamun, eða yfirleitt sé til mállýskumunur milli stétta hér á landi. Ég hefi langa æfi hlotið að hlýða á mál unglinga úr öllum stéttum og launahópum þjóðfélagsins, en aldrei getað heyrt mállýskumun. Að gefast upp Hinsvegar vitum vér vel, að nokkur munur er á máli í kaupstöðum og sveitum, sem stafar af ólíku umhverfi og atvinnuháttum, en það er önnur saga. Annars hefir ný tegund stéttamál- lýsku skotið upp höfðinu á síðustu árum og fer gengi hennar vaxandi. Enn er hún þó naumast komin inn í talmálið, en varla verður þess langt að bíða að þess verði vart. Hér á ég við það, sem farið er réttilega að kalla stofnanamál, og mun eiga upptök sín í sjálfu stjórnarráðinu eða öðrum álíka virðulegum alþjóðarstofnunum. Mér virðist einnig að sama fyrirbæri sé farið að skjóta upp kollinum í ritmáli sumra menntamanna. Þarna er hætta, jafnvel meiri en þágufallssýkin, því „Það höfðingjarnir hafast að, hinir ætla sér leyfist það“. Ég óttast að stofnanamálið verði miklu skaðvæn- legra en kansellístfllinn í gamla daga, sem náði lítið út fyrir fámenna stétt embættismanna, en stofnanamálið smeygir sér inn í bréfum, skýrslum og allskyns tilskipunum á vinnustaðina, í skólastofurnar og á heimilin, alls staðar þar sem miðstýring kerfis teygir inn anga sína. Og hversu lengi stenst fólkið árásirnar? Ég tala nú ekki um ósköpin ef fræðarar þjóðarinnar taka það upp í rit sín, sem ætluð eru til fræðslu almenningi. En hvað kemur þetta við þágu- fallssýkinni? Hvorttveggja eru sjúkleg einkenni á tungu vorri. Hvorttveggja er einskonar undanlátssemi við að feta rétta braut, af því að hún er ef til vill eilítið erfiðari. Stofnanamálið er til orðið af hugsunarleti og lærdóms- hroka. Höfundar þess og notendur nenna einfaldlega ekki að hugsa skýrt eða setja fram hugsanir sínar á ein- földu máli, hvort heldur sem um er að ræða skrifstofuboðskap eða fróð- leiksgrein, en um leið vilja þeir sýna lærdóm sinn ofar almúganum, í því að þeirra tungumál hafi yfir sér virðu- legra yfirbragð en verkamannsins á eyrinni, bóndans á teignum eða stráksins á götunni, að ég nú ekki tali um mál kvennanna í saumaklúbbun- um, en allt þetta fólk talar hispurs- lausa og óskrúfaða íslensku. Ef til vill bregður fyrir þágufallssýki í tali ein- hvers, en það er þá helst vegna þess, að þeim hinum sama hefir ekki verið leiðbeint um, hvernig hann gæti losað sig við kvillann. En hverfum aftur að umræðunni um þágufallssýkina. Er hún ekki líka ávöxtur af einhverskonar leti, líkt og latmæli af ýmsu tagi. I áðurnefndri umræðu kom fram, að tekist hafi að útrýma hljóðvillunni, flámælinu, fyrir ötula framgöngu kennara í því efni. Er gott til þess að vita, ef rétt er. Sá árangur hefir náðst vegna þess, að gengið hefir verið til verksins af festu og þrautseigju. En í þessu þágufallsmáli kom fram, að heyrst hefði uppgjafarhljóð i kennur- unum gagnvart þágufallssýkinni, þeir vilji beinlínis hætta að berjast gegn henni, af því að árangur erfiðis þeirra sé svo lítill, og jafnvel skildist mér af máli sumra, er létu skoðun sína í ljós að réttast væri að hætta allri mót- spyrnu og leyfa allri þjóðinni að „mérast“ átölulaust. „Guð verndi mig gegn vinum mínum“ mætti islenskan segja um þetta góða fólk. í sjálfu sér virðist það ekki skipta miklu máli, hvort vér segjum „mig langar“ eða „mér langar “, og má ef til finna rök fyrir því. En alvaran liggur dýpra. Þarna er hafin undanlátssemi á einu sviði í máli voru. og það virðist mér upphafið að endinum vera byrj- að, þótt í smáu sé, að feta þá braut, sem liggur til almennra málskemmda, og þess að láta þjóðina glata tilfinn- ingu sinni fyrir hvað sé rétt mál. Mér virðist Halldór Halldórsson hitta Framhald á bls. 342 310 Heimaerbezl

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.