Heima er bezt


Heima er bezt - 01.05.1990, Blaðsíða 2

Heima er bezt - 01.05.1990, Blaðsíða 2
Vorbati Einhver þarfasta bók, sem út hefur komið hin síðari ár, er Veðurfræði Eyfellings eftir Þórð Tómasson frá Vallatúni (útg. 1979). Hún hefur sér margt til gildis fyrir almenna mennt- un íslendinga og hver sá, sem les þessi fræði, verður auðugri i andanum. Einhverjum kann að þykja nóg um veðurfarstal á landi voru og varla verður borið á móti því, að óvenju mikið er um veður skrafað og ekki ófyrirsynju. Þrátt fyrir bætta tækni á öllum sviðum, þá verðum við, sem búum við nyrsta haf, að sætta okkur við, að illviðri og ófærð gera ósjaldan strik í reikninginn og breyta ýmsum áætlunum okkar. Er það mörgum í fersku minni, að á útmánuðum lentu ferðamenn í ýmsum hremmingum vegna illviðra og mikilla snjóalaga. Setti það mark sitt á fréttir fjölmiðla og væri óneitanlega fróðlegt að kanna hversu mikið rúm illviðrislýsingar hafa hlotið í fréttum síðastliðna tvo eða þrjá mánuði. Þegar við gluggum í bók Þórðar Tómassonar, komumst við brátt að raun um að mikil breyting hefur orðið á umræðum um veðrið og við verðum að játa að ólíkt eru þær fábrotnari nú, en áður var. íslenskan er óvenjulega auðug af myndrænum orðum og orð- tökum um veðurfar, sem á síðari árum hafa mörg hver fallið í gleymsku og ekkert komið í þeirra stað. Fáir munu nú skilja, ef einhverjum yrði á að andvarpa og segja: „Betur að guð gæfi að hann færi að mýkja.“ Hvað þá þetta andsvar: „Hann er ekki mýkindalegur.“ Og þá var oft sagt, að frost herti undir lin (þ.e. hláku). Þessi dæmi eru tekin úr bók Þórðar. Hann víkur að þeim, þegar hann fjallar um þau veðrabrigði, sem við þráðum ákaft í lok apríl sl. Og ósjald- an fylgja skemmtilegar sögur sér- stæðum veðurorðum og get ég ekki stillt mig um að birta hér stuttan kafla úr Veðurfræðum: „Þíðvindur, öðru nafni þeyvindur eða hlákuvindur, flutti með sér þíðu, sem einnig heitir þeyr eða hláka. Orðið frostleysuvindur var einnig til í máli. Um aðför þessarar veðurbreyt- ingar var sagt: Hann er að slá til lins, Hann er að milda sig upp, Það dregur til lins, ætlar að lina, ætlar að hlána, er komin hlákuvera, Hann ætlar að berja í sig lin. Þetta gat einnig orðið, þótt fólki þætti hann ekki hlákulegur eða mýkingalegur. Þuríður Jónsdóttir ljósmóðir í Hvammi sagði mér að þeyvindur af útnorðri héti Bessaþeyr og fylgdi þessi saga: Endur fyrir löngu var mikil harðindatíð á íslandi, svellalög yfir öllu landi, réttnefnd molharðindi. Meiri eða minni fjárfell- ir vofði yfir flestum byggðum. Þá var uppi vitur og forspár og bænheitur maður er Bessi hét. Hann orti þessa visu eitt sinn, er mönnum varð tíðrætt um voðann, sem var fyrir dyrum: Máttugur er góður guð að gefa hláku, á útnorðan með engri bliku og láta hana standa í viku. Guð lét Bessa ekki verða ómerkan orða sinna og þeyrinn, sem þá bjarg- aði öllu lífi, hefur síðan heitið Bessa- þeyr“ í upphafi þessa spjalls lagði ég áherslu á gildi bókar Þórðar Tómas- sonar fyrir almenna menntun. Því er ljóst, að hún á erindi við uppvaxandi kynslóðir og kæmi að góðu gagni við kennslu í skólum landsins, hvort heldur er í átthagafræði, bókmennt- um eða málrækt. Sérhver bók, sem auðgar íslenska tungu, er fjörgjafi menningar og mennta. Fjöldi þeirra orða og orðtaka, sem Þórður frá Vallatúni hefur safnað saman, skýrir af fágætri alúð og setur í rétt sam- hengi, svo auðskilin verða, koma víða fyrir í íslenskum bókmenntum, í lausu máli og þá ekki síður í ljóðum. íslensk skáld sóttu ósjaldan í þennan sjóð jafnt í beinum lýsingum sem í lík- ingamáli. Jón Þorláksson á Bægisá hafði langþráða veðurblíðu íslenska sumarsins í huga, þegar hann sneri Paradísarmissi Miltons á móðurmál sitt: „Blíður er árblær, blíð er dags koma, fylgja henni tónar töfrafullir árvakra fugla, sem er eyrnalist.“ Og jafnframt orti hann um blíða kvöldkomu „í kælu mildri.“ Skýring- ar Veðurfræði Eyfellings eru mikil- vægar öllum þeim, sem njóta vilja bókmennta fyrri tíma og raunar allt til þessa dags. Mcnn verða að kunna skil á útrænu og blæ, þegar þeir lesa ljóð Kristjáns frá Djúpalæk um Þetta land, sem vel á við að hafa yfir og hugleiða í sumarbyrjun: Þetta land geymir allt sem ég ann. Býr í árniði grunntónn míns lags. Hjá þess jurt veit ég blómálf míns brags. Milli bjarkanna yndi ég fann. Ber mér útræna ilminn frá sjó. Blærinn angar frá lyngi í mó. Djúpa hugró á fjöllum ég finn. Meðal fólksins er vettvangur minn. Þetta land skamma stund bjó mér stað. Ég er strá í þess mold. Ég er það. Við upphaf þessa mánaðar kom vorbatinn og var öllum velkominn. Þeir sem ennþá sinna sauðburði önd- uðu léttar og jarðyrkjumenn töldu lít- ið frost í jörðu. Von mín er sú, að ekki sé neinna Hrafnahreta að vænta og að sumarið reynist okkur öllum farsælt og frjótt. B. G. 146 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.