Heima er bezt


Heima er bezt - 01.05.1990, Blaðsíða 34

Heima er bezt - 01.05.1990, Blaðsíða 34
þar sem við gengum framhjá, en hann sneiddi hjá þeim öllum. Ég var samt óhræddur, því ég var búinn að kynna mér leiðirnar áður, svo hann mátti fara nokkuð langt til þess ég rataði ekki til baka aftur. Loks kom ég að húsi einu, sem við gengum inn í, þar settumst við í stásslega stofu. Hann tók í streng, sem var á þilinu í einum stað. Þá hringdi bjalla í öðru húsi, og að vörmu spori kom til okkar háöldruð kona og setti sig niður hjá okkur. Hún var alls ekki frýnileg, kolmórauð á hörundslit og mjög svipill, hún tók báðum höndum á móti gestinum, sem með mér var, og það leit út fyrir, sem þau væru elskuleg systkini, sem ekki hefðu sést í fjöldamörg ár. Þau tóku tal með sér uppá ensku. Það kom fyrir í samtali þeirra, að hún spurði hann, hver ég sé, en hann segir henni, að þetta sé einn af íslenzku fíflunum. Það fór nú heldur að fara um mig, þá ég heyrði þessi og þvílík orð. Ég lét samt ekkert á mér bæra, því ég þóttist ekkert skilja í ensku og gaf því ekkert orð fram í. Þau höfðu að síðustu mikið hljóðskraf sín á milli. Það leit út fyrir, að þau væru að ræða um einhvern félagsskap. Að endingu bað hann hana um 2 glös af öli. Hún gekk nú burt. Ég hafði hring á hendi, sem var af hreinu gulli, hann var hér um bil 8 krónu virði. Þetta sama kvöld hafði ég á mér '/2 pund sterling eða sem svarar 10 krónum í peningum. Þá hún var farin burtu, þá spyr hann mig hvert hringurinn minn sé af gulli. Ég segi honum hið sanna. Hann gjörir sig nú svo blíðan við mig, að hann faðmar mig að sér og lætur öllum blíðulátum við mig, en um leið finn ég, að hann þukklaði á vasa mínum. Ég hélt hendi minni í vasan- um og buddunni í hnefanum, svo ekki var greitt að taka hana án þess ég vissi af. I þessu kom ölið. Við drukkum nú sitt glasið hver, og að því búnu gengum við út. Hann heldur nú út í myrkrið og er nú blíðari við mig en nokkru sinni áður. Hann vill nú ganga gegnum einn myrkvan og þröngvan stíg, en ég vildi fara annan, til að komast sem fljótast á almennu göturnar, því mér var nú farið að þykja nóg um að vera lengur hjá þessum kunningja mínum! Ég vildi samt ekki hlaupa frá honum, þar hann hafði verið svo kompánlegur við mig, en ég hlaut samt að ráða, og fór þá götu, er ég ætlaði mér. Hann segir mér nú frá því, að hann sé svenskur og sé einn stólasmiður, og biður mig koma með sér og sjá verkstæði sitt. Af því ég var vel hress af víni, þá kærði ég mig ekkert, og svo langaði mig til að sjá smíðatól hans og aðferð. Ég fór því með honum. Við gengum gegnum margar götur, unz við kom- um að stræti nokkru, þar voru fá ljós og því nær myrkt, þar komum við að virki eða timburgarði háum. Á honum var eitt hlið, það var rammlega gjört og læst. Þarna gengur kunningi minn inn, og læsir vandlega á eftir okkur og tekur lyklana. Mér þótti þetta ískyggilegt bragð. Þarna stóð laglegt hús. Hann lauk upp hurðinni, og gengum við inn, hurðin féll aftur, en samt ekki í lás. Þetta var nú hús kunningja mfns. Þar logaði Ijós. Inn í öðrum enda hússins var verktau smiðsins, þar voru stólar hálfgjörðir og algjörðir. Nú allt í einu snýr kunningi minn að mér og þrífur utanum mig fast og biður mig að lofa sér að skoða hringinn minn, en mér var ekki um það, og bar því við, að hann væri mér svo lítill að mér væri ekki hægt að taka hann fram af fingrinum. Hann segir þá, að ég skuli og kreisti mig nú að sér svo fast og um leið fer hann höndum um vasa mína, og vildi þreifa ofan í þá, en þess var enginn kostur, því ég hafði hendur mínar í vösunum. Hann segir nú við mig, að það væri aumt að hafa veitt mér og fá ekkert fyrir, og biður mig loks algjörlega að leggja af við sig peninga mína, ef ég hefði þá nokkra, og í því tekur hann hendina á mér og vill plokka hringinn fram af. Mér fór nú heldur en ekki að lítast á blikuna og þótti heldur fara af gamanið, þar ég sá, að þetta mundi vera einhver hinn versti prakkari. Það fór að síga í mig snögglega, og sagði ég honum að sleppa mér það fljótasta, því ég gæfi ekki um að láta halda mér sem hundi, og í því rak ég hnefann fyrir brjóst honum svo hann féll á gólfið. Hann stóð upp aftur svo fljótt sem kólfi væri skotið og hleypur í annan enda hússins og kem- ur að vörmu spori vaðandi að mér með höggjárn í hendi, eitt af verkfærum þeim, sem hann hafði við stólasmíðina. Hann stendur og réttir fram hægri höndina með járninu og segir að þetta skuli í gegnum mig ganga, ef ég vilji ekki láta undan og láta sig frá hringinn minn, og nokkuð af peningum. Ég sagðist öngva peninga hafa. Nú sá ég, að þurfti að taka til skjótra úrræða, þar ég sá að illmenn- inu var full alvara að veita mér aðgöngu. Mig minnir líka, að ég væri ekki lengi að búa mig til, og sló hann sem ég mest mátti á ofanverðan mjóhandlegginn, svo járnið féll á gólfið úr hendinni á honum, og í sama bili snéri ég til dyra í einhverjum ósjálfráðum flýti, lauk upp hurð- inni og ætlaði út, en í því grípur hann til mín aftur, í jakka minn, en ég brást við hið harðasta og snéri mér við í dyrunum og þreif til illmennisins. Svo var hann praktuglega búinn, að hann bar á sér gullúr, sem var um 600 króna virði með keðjunni, en hún var einnig af gulli. Mér varð fyrir að grípa í barminn á honum, en úrkeðjan varð fyrir átakinu, og slitnaði lið frá lið í sundur, og hrundi niður á gólfið, en úrið hafði ég í hendi minni og með það í hnefanum sló ég manngreyið. Það hugsa ég, að hafi verið ónotalegt, því blóðið streymdi ofan eftir honum, en úrið skall í múrgólfið, svo ég held, að það hafi ekki verið nein vasaprýði. Með þetta hljóp ég út í mesta flýti, út í myrkrið, en rak mig á virkisvegginn. Ég leitaði þá að hliðinu, en það var harðlæst og ekki greitt útgöngu. Ég snéri þá að annarstaðar og mölvaði 2 rimar úr virkinu neðanverðu, með stígvélunum mínum, því þau voru vel járnuð og sterk. Þar smaug ég út, og tók heldur til fótanna, hljóp nú allt þvert og endilangt gegnum göturnar, þar til ég komst um borð. Mér þótti nóg um þetta, og hef aldrei orðið fyrir þvílíku, hvorki fyrr né síðar um dagana, en það má ég segja, að hefði ég ekki verið neitt ölvaður, þá hefði ég verið of stilltur og linur af mér, og beðið svo ósigur fyrir illmenni þessu, og líkast að hann hefði ráðið mig af dögum. En þetta varð til að kenna mér, að ég sló mér aldrei eins út og var alltént varari um mig. Það heyrði ég sagt, að svenskir væru jafnan falskir, og ekki gott að trúa þeim, enda reyndist mér svo, þar sem ég kynntist við þennan pilt. (Frh.) 178 Heima er bezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.