Heima er bezt


Heima er bezt - 01.05.1990, Blaðsíða 6

Heima er bezt - 01.05.1990, Blaðsíða 6
og fór Eiríkur heim við svo búið. Hryssum hættir til þess að verða klumsa, ef þær eru byrgðar inni of lengi. Hleypti Skúli þeim því út um kvöldið. En þá tók allur hópurinn á sprett heim í Djúpadalsland. Eiríkur hafði nefnilega komið með hryssur, sem áttu folöld í Djúpadal, og folöld, sem áttu mæður sínar heima! Skúli reiddist þessum grikk, en Eiríkur mun hafa sagt, að treysti hann sér til þess að þekkja réttu hryssurnar í haganum, þá mætti hann taka þær. En til þess treysti Skúli sér ekki. Skólaganga Þegar ég var 7 ára, fluttum við móðir mín fyrst að Hofi og. svo að Bæ á Höfðaströnd. Þar var þá dálítil útgerð. Stefán, mágur mömmu, var viðriðinn þessa útgerð og átti hlut í bátum. Við bjuggum þarna fram til ársins 1919. Þarna vorum við nokkrir strákar á svipuðu reki. Og við vorum náttúrulega að reyna að búa til vísur. Og þá tók ég eftir því, að þeir höfðu ekki brageyra. En bragfræðin kom alveg ósjálfrátt hjá mér. Ég gat ekki útskýrt, hvernig á því stæði, að þetta átti að vera svona og ekki hinsegin; vissi bara að svona var það. Hér átti að koma sami samhljóðinn og þar, og svo átti hann að koma einu sinni enn á réttum stað í næstu línu. En sérhljóðarnir rugluðu mig framan af. Ég spekúléraði í því, hvernig á því gæti staðið, að fyrst mætti koma a og svo u og loks einhver þriðji sérhljóðinn, kannski ö. Við vorum alltaf að kveðast á, krakkarnir, þegar við gátum ekki verið úti að ólmast. Á Hofi á Höfðaströnd vorum við hjá Eggert Jónssyni frá Nautabúi, miklum hestamanni, sem seinna kom upp merkilegu búi á Kirkjubæ á Rangárvöllum. Þarna varð það einhvern veginn ósjálfrátt, að ég orti um strák fyrstu vísuna mína. Eggert fékk að heyra vísuna og fór með hana um allt, þó ekki væri hún falleg. Strákgreyið hafði verið þarna frá því um vorið og leiddist mikið. Ég fór út að Bæ, þar sem við áttum heima seinna. Þegar ég kom aftur heim að Hofi, var strákurinn strokinn. Hann hafði orgað einhver ósköp. Þegar ég var að klæða mig um morguninn, kom þetta ósjálfrátt: Orgaði, skældi og át ekki, öskraði, vældi og svaf ekki, hvarf svo burt og kom ekki og kallaðist mesti letingi. Svo var ég sendur niður í Hofsós, þar sem strákurinn átti heima. Þá mæti ég honum á brúnni yfir Hofsá. Hann var voðalega þungur á brúnina og sagði, að réttast væri hann kastaði mér í ána. Þá sá ég, hvað þetta hafði verið ljótt af mér. En það varð ekkert af því að hann fleygði mér í Hofsá og eftir því sem ég fjarlægðist Hofsós, sá ég æ minna eftir því að hafa ort vísuna. 1919 fluttum við á Sauðárkrók, þar sem ég gekk á ungl- ingaskólann. En haustið eftir fluttumst við suður til Hafn- arfjarðar og ég fór á Flensborgarskólann. Við fengum íbúð í kvisti heimavistarinnar, því að mamma hirti kýrnar fyrir Ögmund Sigurðsson, skólastjóra. Ég tók próf upp í annan bekk og lauk gagnfræðaprófi vorið 1920. Eftir þetta stóð hugur minn til náms i Kennaraskólanum. Ég fór því á fund sr. Magnúsar Helgasonar, skólastjóra. Þegar ég hafði stunið upp erindinu, leit sr. Magnús á mig og sagði: „Mér sýnist þú nú dálítið ungur, góði. Hvað ertu gamall?“ „Sextán ára,“ segi ég. „Ja, þá verðurðu að bíða í tvö ár,“ segir hann. Það mátti enginn útskrifast kennari yngri en 20 ára. Mikið óskaplega sárnaði mér þetta. Ég held næstum, að mér hafi vöknað um auga. En ég hafði ekki eins gott af neinum tveimur árum á ævi minni eins og þessum, meðan ég beið þarna eftir því að komast í Kennaraskólann. Ég kom eins og hver annar smákettlingur upp úr skól- anum í Flensborg. Hafði ekki einu sinni rænu á að vera með í neinu. En þegar ég kom í Kennaraskólann eftir þessi tvö ár, sem ég beið, var ég orðinn það miklu þroskaðri, að ég var með í öllum félagsskap, reyndar formaður Skólafé- lagsins seinna árið. Fyrra árið, sem ég beið, var ég far- kennari í Reykhólasveitinni. En seinna árið var ég kaupa- maður hjá mági mínum á Hólum í Hjaltadal og var þar hafður til ýmissar snattvinnu. Ég hafði einmitt orð á því við Vigdísi forseta, að ég hefði átt afa hennar fyrstu kennarastöðu mína að þakka. Ég fékk meðmæli frá Ögmundi í Flensborg og sr. Þorvaldi Jakobs- syni, afa Vigdísar, og það réði úrslitum um það, að ég var ráðinn. Þeir höfðu sumir haft enga trú á því að ráða strákling sem kennara. Tvennt er það, sem mér þykir ákaflega vænt um að hafa kynnst. Annað er farkennslan. Hitt, að ég var smali eitt sumar fyrir norðan, áður en ég fór á unglingaskólann á Sauðárkróki. Þá sat ég hjá kvíaám. En sá galli var raunar við mig í smalamennskunni, að ég hefi aldrei getað þekkt eina hvíta kind frá annarri. En hundurinn þekkti kvíaærn- ar. Það er stundum verið að tala um illa ævi unglinga til sveita hér áður fyrr. Þá hefur mér oft dottið í hug húsbóndi minn á Reykjum í Hjaltadal, þar sem ég var smali þetta sumar. Hann hafði tvennt út á mig að setja. Annað var það, að ég skyldi ekki þora að sofa um hádegisbilið í hjásetunni. Hitt, að ég kláraði aldrei smjörið í nestinu, sem ég fékk með mér í hjásetuna. Hann sagði, að mér væri alveg óhætt að fá mér blund í hádeginu. Og honum leiddist, að ég skyldi ekki klára smjörsneiðarnar, sem voru eins þykkar og brauð- sneiðarnar. En maður var ekki vanur þess háttar. Það þótti gott að fá smjör ofan á brauð um helgar og hátíðar. Reikningurinn var mitt eftirlætisfag í skóla. Og mann- kynssagan. En ég var alltaf heldur lélegur í íslensku. Það gerði skorturinn á undirstöðu í henni. Það var ekki kennt neitt þess háttar í farskólanum í Bæ, þar sem ég var í skóla krakki. En það var svo einkennilegt, að ef ég gat verið óheppinn í reikningi, þá var ég það. Á unglingaprófinu á Sauðárkróki þurfti ég endilega að fá eina dæmið, sem ég gat ekki sett upp. Ég gat reiknað það í huganum. En ég gat bara ekki sett það upp á töflu. í íslenskunni fékk ég aftur á móti eina spurninguna, sem ég vissi eitthvað um. Það var í bragfræðinni, sem hann er að sýna okkur í sjónvarpinu 150 Heima erbezt

x

Heima er bezt

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heima er bezt
https://timarit.is/publication/380

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.