Skírnir - 01.01.1934, Blaðsíða 52
46
Spámenn ísraels.
[ Skírnir
gat Guð birt henni fyrir munn spámanna. Og það veld-
ur mestu um þann mismun, sem á þeim er.
Það er ekki unnt að skipa spámönnunum á bekk
með heimspekingum. Hebrear voru yfirleitt frásneyddir
heimspekilegum hugsunarhætti, og það er langt frá því,
að spámennirnir setji fram skoðanir sínar í fastmótuðu
kerfi, né fáist við flestar þær gátur, sem heimspekin
glímir við. Þeir grufla aldrei upp kenningar sínar. Spá
aðeins til knúðir, en ætíð alsannfærðir um óyggjandi
sannleik orða sinna í þeirri vissu, að þau séu frá Guði.
Þeir kenna því eltki til kvíða heimspekingsins fyrir því,
að kenningar sínar kunni að vera rangar, eða vissu hans
um ófullkomleik þeirra, og að þar af leiðandi beri nauð-
syn til, að þær verði auknar og lagfærðar á sínum tíma.
Mikil áherzla hefir oft verið lögð á stjórnmálastarf-
semi spámannanna, — tíðast of mikil. Þeir voru aldrei
stjórnmálamenn í eiginlegri merkingu, þótt þeir hefðu
jafnan mikil áhrif á hagi þjóðar sinnar. Þeir sögðu fyrst
og fremst konungum og öðrum tignarmönnum til synd-
anna, og þeir héldu því stöðugt fram, að þjóðin gengi á
helvegi með því að þverskallast við boðskap þeirra,
vegna þess, að gæfa hennar og gengi ylti á því, að hún
breytti um stefnu, tæki háttaskiptum innra og ytra, sam-
kvæmt því, er þeir kenndu að væri vilji Guðs. Engir
mættu meiri mótspyrnu en þeir, engir voru óvinsælli.
Síðasta hlutskipti þeirra er bezt lýst með þessum orðum
Jesú: „Jerúsalem, Jerúsalem, þú, sem líflætur'spámenn-
ina og grýtir þá, sem sendir eru til þín“. Þeir fengu þess
vegna aldrei stjórnartaumana í hendur. Samt höfðu þeir
ósjaldan mikil áhrif á samtíð sína og stjórnarfarið, og
að því leyti er réttmætt að bendla þá við stjórnmála-
starfsemi. Þeir vildu gera þjóð sína að Guðs þjóð, en
voru aldrei raunverulegir ráðgjafar né forystumenn á
sviði atvinnumálanna. Áhugi þeirra beindist allur að
umbótum hugarfars og breytni, en ekki að því, sem í
daglegu tali er talið til opinberra þjóðmála.
Um eitt skeið var talsvert reynt til að færa sönnur