Skírnir - 01.01.1934, Blaðsíða 60
54
Spámenn ísraels.
[Skírnir
4. Guð er alfullkomin siðgæðisvera.
Spámennirnir prédika sýknt og heilagt, að Guð sé
réttlátur og heilagur. Réttlæti hans felur það í sér með-
al annars, að hann dæmir alla án manngreinarálits og
lætur sérhvern uppskera það, sem hann sáir til. Hann
er því gæzkuríkur góðum rnönnum, en syndararnir hljóta
að óttast dóm hans. Og þess vegna spá þeir lokasigri
ísraels yfir öðrum þjóðum, af því að ísraelsmenn ganga
framar en nokkrir aðrir á Guðs vegum, og réttlæti Guðs
verður því að dæma þeim mestu og beztu býtin. Önnur
hlið á réttlæti Guðs er sú, að hann er sannorður og trúr.
Hann þekkir ekki lygi og orð hans er eilíflega óhaggan-
legt. Aldrei bregzt hann þeim, sem treystir honum.
Heilagleikahugtakið táknar aðallega tvennt í munni spá-
mannanna. í fyrsta lagi, að Guð er æðri öllu og hafinn
hátt yfir allt í heiminum, svo að menn verða að nálg-
azt hann með ótta og lotningu. í öðru lagi, að Guð er
hreinleikinn. Ekkert illt eða ljótt, ekkert, sem hægt er
að nefna synd, er til hjá honum. 1 þeim skilningi er
þetta stöðugt krafa spámannanna til allra: „Verið
heilagir, eins og Guð er heilagur". Eða eins og stendur
í Matt. 5, 48: „Verið þér því fullkomnir, eins og yðar
himneski faðir er fullkominn“.
Guð er líka kærleikurinn. Hann elskar ísraelsþjóð-
ina, sinn útvalda lýð, heitar en móðir barn. Hann ann
öllum mönnum. Þess vegna gleðst hann yfir hverjum,
sem aflar sér heilla með því að breyta vel, en hryggist
yfir þeim, sem kallar ógæfuna yfir sig með syndum
sínum, og leitast því á allan hátt við að snúa þeim manni
á rétta leið. Umhyggja Guðs fyrir mönnunum stóð sem
annað misljóst fyrir spámönnunum. Jeremías hafði skýr-
astan skilning á því, að Guð lætur sig skipta kjör hvers
einstaklings, en hinn svonefndi Devtero-Jesaja, þ. e.
höfundur Jes. 40—66, boðar berlegast, að afskipti
Guðs ná til allra þjóða. En það má óhikað fullyrða, að
spámennirnir eru frumboðendur þeirra sanninda, sem
Jesús Kristur orðaði svo, að þau ganga engu af oss úr