Sjómannadagsblaðið - 01.06.1981, Síða 67
úr Borgarfirði til Reykjavíkur.
Unglingsstúlka stóð Við veginn og
bað um far, og lofaði ég henni að
sitja í bílnum til Reykjavíkur. Hún
sagðist vera til dvalar á sveitabæ í
Borgarfirðinum, einskonar
kaupakona. Hvað finnst þér nú
skemmtilegast í sveitinni? spurði
ég þetta borgarbarn. „Að pissa úti
í náttúrinni,“ sagði hún. Já það
getur verið notalegt, sagði ég, og
fyrst þú ert nú svona mikið uppá
að athafna þig frjálslega úti í
náttúrunni, væri þá ekki ráð að þú
sýndir þessa listgrein þína á
Lækjartorgi með Japananum. Þú
hlýtur að geta pissað listrænt fyrir
listahátíðarmenn. Þetta fannst
henni stórgóð hugmynd, auðvitað
væri hægt að pissa listrænt. Það
má nú segja, því að þessi þjóð er
að verða mikið uppá listina.
Ég vil ljúka þessu spjalli um
sjómenn og listamenn með
nokkrum orðum um nauðsyn
þess, að íslenskri æsku sé innrætt
að hún þarf að gera tilkall til
sjálfrar sín og komast í tengsl við
hin þjóðnýtu störf og muna það að
þessi þjóð hefur sannarlega lifað í
sveita síns andlitis og hvað sem
listinni líður, verður hún ævinlega
matsatriði. Þá getur ekki annað
gilt í okkar fámenna og erfiða
landi, en það að þeir sem mikil-
verðustu atvinnuvegina stunda,
njóti virðingar og störf þeirra séu
metin að verðleikum, en það sé
ekki sparkað í þá og þeim sýnd
óvirðing eins og átti sér stað um
helstu atvinnustétt þjóðarinnar á
síðasta Sjómannadegi í Reykjavík.
Það er von mín að sú saga endur-
taki sig ekki.
G.H.O.
Halldór Jónsson
loftskeytamadur — iHinning
Fæddur 21. júlí 1908.
Dáinn 13. febrúar 1981.
Sú staðreynd verður ekki umflúin að
eitt sinn skal hver deyja og skilja við
jarðvist sina. En maður hrökk við er
óvæntar fréttir bárust um að Halldór
Jónsson, vinur okkar, væri allur. því hann
hafði kvatt okkur kátur og hress fyrir
mánuði, með þeim ásetningi að veita
okkur frekara liðsinni er hann kæmi úr
fríinu. Þá ætlaði hann að taka að sér að
sjá um útgáfu fréttabréfs Hrafnistu, sem
gefið er út 3—4 sinnum á ári fyrir vistfólk
og starfsfólk Hrafnistu, einnig annaðist
hann vörslu bókasafns Hrafnistu í
Reykjavík í nokkur ár. Þetta voru miklar
sorgarfréttir.
Halldór hefur alla tíð verið mikill
félagshyggjumaður og traustur hlekkur í
uppbyggingu Sjómannadagsins og Far-
manna- og fiskimannasambands íslands.
Hann var kosinn sem fulltrúi Félags ís-
lenskra loftskeytamanna í fyrsta fulltrúa-
ráð Sjómannadagsins 1938 og fulltrúi þess
félags í 10 ár.
Foreldrar Halldórs voru Karítas Þor-
steinsdóttir frá Hvammi í Mýrdal og Jón
Oddsson, skósmiður frá Gunnlaugsstöð-
um í Stafholtstungum.
Halldór kvæntist 4. febrúar 1938
Ástríði Markúsdóttur, Grímssonar skip-
stjóra í Reykjavík. Ástríður var fædd í
Reykjavík 13/8 1918, dáin 31/10 1979.
Börn þeirra hjóna eru Margrét Helga, f.
14/2 1939, gift Júlíusi Egilssyni, Þorsteinn
Jón, f. 3/6 1942, eðlisfræðingur og starfar
nú í Miinchen í Þýskalandi og er kvæntur
japönskum eðlisfræðingi, Tomoko
Yasuda, Markús, f. 16/10 1949 ókvæntur.
Halldór hóf ungur sjómennsku á tog-
urum, lauk prófi frá Samvinnuskólanum í
Reykjavík 1931 og loftskeytamannsprófi
frá Loftskeytaskólanum í Reykjavík 1932.
Á ýmsum togurum var hann síðan
loftskeytamaður til 1941. Hann gerðist
framkvæmdastjóri Fiskimálanefndar
1945—1947, og framkvæmdastjóri
Togaraútgerðar fsfirðinga hf. 1948—
1950. Halldór vann við útgerð Júpíters og
Mars hf. í Reykjavík 1951—1953 og tog-
araútgerð Keflavíkur, b/v Keflvíking
1953—1955. Ritstjóri sjómannablaðsins
Víkings var hann í 7 ár, í tveimur áföng-
um, og meðritstjóri Sjómannadagsblaðs-
ins í 14 ár. Halldór var sæmdur heiðurs-
merki Sjómannadagsins í Reykjavík 1973
fyrir margvísleg og heillarík störf fyrir
sjómannastéttina, og var vel að þeim
heiðri kominn. 1966 hóf Halldór svo störf
á skipum Eimskipafélags íslands, og var
þar í nokkur ár.
Halldór hefur ekki brugðist hinni
hefðbundnu köllun sinni sem loftskeyta-
maður, að yfirgefa ekki starfið eða að
ganga frá verkum þeim er honum var
trúað fyrir, og honum við kom, fyrr en
öllu var vel lokið. Þessi eiginleiki hefur
verið ráðandi í hans eðli, hversu marg-
háttuð störf sem hann hefur tekið að sér.
Halldór var léttur í lund, og var hugar-
kæti hans oft örvandi og hann var hrókur
alls fagnaðar í góðum vinahópi. Hann var
þeim eiginleika gæddur, að björtu hlið-
arnar komu ávallt fram hjá honum, þó um
vandkvæði væri að ræða. Það gerði hon-
um léttara að leysa margan vandann, er að
höndum bar við hans umfangsmiklu
trúnaðarstörf.
Ástríður og Halldór lifðu í hamingju-
sömu hjónabandi, og var Ástríður honum
styrk stoð i störfum hans.
Halldór var góður tungumálamaður og
var honum eiginlegt að nýta frístundir
sínar til að þýða ýmislegt er kom nærri
hans hugðarefnum, aðallega varðandi
sjómennsku og siglingar. Einnig þýddi
hann bækur fyrir bókaforlög.
Fulltrúaráð Sjómannadagsins í
Reykjavík og Hafnarfirði og við sem sæti
eigum I stjórn þess, færum Halldóri Jóns-
syni hinstu kveðju og þökkum honum
fyrir hans óeigingjörnu og margháttuðu
störf fyrir sjómannasamtökin.
Við færum aðstandendum hans
samúðarkveðju okkar.
Guðmundur H. Oddsson
SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 61