Eimreiðin - 01.10.1927, Blaðsíða 26
330
RÍKISSKULDIR ÍSLANDS
EIMREIDIN
falt eldri eru og hafa öldum saman haft byrðir að bera, sem
vér höfum aldrei haft neitt af að segja. En ef vér tökum bæði
hinar útlendu og innlendu ríkisskuldir íslands og berum þær
saman við ríkisskuldir annara ríkja í heild, verður útkoman
nokkur önnur og hagstæðari fyrir oss. Þá verður ísland með
lægstar ríkisskuldir allra Norðurlandaríkjanna fimm. Næst er
Finnland, þá Svíþjóð, þar næst Danmörk og skuldugastur er
Noregur. Þrátt fyrir allar hinar mörgu lántökur eru ríkis-
skuldir Islands ekki ennþá orðnar hlutfallslega eins háar og
hinna ríkjanna á Norðurlöndum og verða vonandi aldrei. En
aftur á móti er það athyglisvert, hve skuldir Islands við út-
lönd eru mikið hærri en hinar innlendu skuldir þess.
Eins og að líkindum lætur verða skiftar skoðanir um það,
hve ráðlegt sé fyrir fátæka og fámenna þjóð eins og Islend-
inga að taka mikil lán erlendis. Mest er undir því komið, til
hvers lánin eru notuð, hvort þau ganga til þarflegra fyrirtækja
eða eru aðeins eyðslulán, sem ekkert gefa af sér. Um megnið
af þeim útlendum Iánum, sem ríkið hefur tekið undanfarið,
verður vonandi hægt að segja með sanni, að þau hafi gengið
til nauðsynlegra og þarflegra fyrirtækja, og ef til vill hefðu
framfarirnar hér á landi síðustu árin ekki verið eins miklar,
ef þessi lán hefðu aldrei verið tekin. En það virðist liggja í
augum uppi, að meiri gætni þurfi að viðhafa um erlendis
lántökur smáríkja en hinna fjölmennu og auðugu. Möguleik-
arnir eru fleiri hjá stórþjóðinni til þess að hamla gegn áhrif-
um skuldabyrðanna en hjá kotþjóð með fjörlitlu viðskiftalífi
og fábreyttum atvinnuvegum. Eitt misstigið spor í fjármálum
getur komið smáþjóðinni á kaldan klaka, þótt samskonar spor
hjá stórþjóðinni verði henni aðeins stundarhnekkir. Væri ekki
ráð fyrir oss að athuga aðferðir Svisslendinga og Hollendinga,
reyna að losa oss sem mest yið erlendu lánin, breyta þeim í
innlend lán? Sparisjóðsfé í íslenzkum bönkum nemur nú meir
en 30 miljónum króna. Næsta ólíklegt er, að landsmönnum þætti
verra að eiga fé sitt inni hjá ríkinu en bönkunum, einkum
ef ríkið greiddi eitthvað hærri vexti en bankarnir. Og leiðin
þessi virðist heppilegri fyrir hag almennings og velferð ríkis-
ins, ef hægt er að koma henni við, en hin leiðin, að greiða
árlega út úr landinu svo hundruðum þúsunda skiftir í vexti af