Eimreiðin - 01.10.1933, Blaðsíða 22
372
A. KIELLAND OG GESTUR PÁLSSON eimreiðin
vitundinni fyrir öllu því, sem þeir hafa lært af öðrum og
gleyma því bókstaflega, hvaðan þeir hafa hlutina. Þetta við-
horf þeirra til fyrirrennara sinna er ágætt dæmi til sönnunar
þeirri kenningu Freuds, að menn fylgja oft vilja sínum óaf-
vitandi til verka, sem menn ekki mundu láta eftir sér að
ósvæfðri meðvitund. Annað dæmi: Eg á að borga gamla
skuld og þarf að fara á pósthúsið til þess að senda póst-
ávísun. Mér leiðist að þurfa að borga þessa skuld: afleiðingin
verður sú, að ég gleymi að fara á pósthúsið. Þriðja dæmi:
Til eru þær vinnukonur, sem brjóta alt leirtau, er fer í gegn-
um greipar þeirra. Af hverju? Af því að þeim hundleiðist að
fara með það og óska því í hjarta sínu norður og niður.
Auðvitað kemur það ekki til mála, að þær láti það eftir sér
að fleygja öllum postulínsborðbúnaði frúarinnar út um glugg-
ann. Þeim dettur það ekki einu sinni í hug. Þeim verður
meira að segja dauðilt við, í hvert sinn sem þær brjóta nýjan
bolla. En brjóta gera þær.
Þótt náttúran sé lamin með lurk, leitar hún út um síðir.
Stefán Einarsson.
Úr Söngvurtum til Svanfríðar.
Er skipin hverfa.
Eitt andartak — og alt varð bjart
við augun þín.
Nú hverfa skip frá sandi á sæ.
Æ, Svanfríður! Svanfríður mín!
Ég eygi í fjarska unað vors
og augun þín.
En milli okkar svellur sær.
Æ, Svanfríður! Svanfríður mín!
Það hallar degi, húmar að,
og hlýja dvín.
Ég stend og horfi af sandi á sæ.
Æ, Svanfríður! Svanfríður mín!