Ægir - 01.12.1980, Síða 13
Og ufsaafla. Mikla athygli hlýtur að vekja þessi
aukning þorskafla þrátt fyrir takmarkanir. Gætir
þar mest, að afli á vetrarvertíð var betri en um
margra ára skeið — bæði hjá bátum og togurum.
Fiskgengd var augsýnilega ríkulegri og ástand
stofnsins betra en gert hafði verið ráð fyrir. Gætir
hér væntanlega mest útfærslu fiskveiðilögsögunn-
ar og árangurs þeirra ráðstafana sem gripið var til,
svo sem stækkunar möskva og lokunar viðkvæmra
smáfiskssvæða. Endurskoðaðir útreikningar fiski-
fræðinga gefa okkur og ástæðu til meiri bjartsýni
um ástand þorskstofnsins en oftast áður.
Ég held samt, að við megum ekki gleyma því
mikilvæga atriði sem er að við höfum verið sér-
staklega heppnir íslendingar á síðasta áratug hvað
varðar hagstætt klak og uppvöxt góðra
þorskárganga. Sagan segir okkur, að svo hafi ekki
ávallt verið.
Sveiflur í aflabrögðum, sem væntanlega stafa
bæði af náttúrlegum orsökum og veiði hafa verið
hlutskipti okkar frá ómuna tíð. Til að skýra þetta
atriði nánar og leggja áherzlu á, að okkur beri að
fara að með gát, er dreift hér myndriti um heild-
arafla þorsks á íslandsmiðum 1905-1979. Myndrit
þetta er gert af Jónasi Blöndal skrifstofustjóra
Fiskifélagsins.
Eins og fram kemur hefur þorskaflinn í nokkur
skipti á fjórða og sjötta áratugnum komizt yfir 500
þús. lestir, jafnvel í nær 550 þús. lestir. Línuritið
sýnir aflann allt frá árinu 1905 og þarfnast ekki
verulegra skýringa. Framan af er heildaraflinn
tiltölulega lítill, enda skipin fá, smá og vanbúin
samanborið við það sem síðar varð. Lægð verður á
stríðsárunum fyrri, bæði vegna brotthvarfs er-
lendra togara og sölu stórs hluta islenzka togara-
flotans úr landi rétt fyrir stríðslok.
Þorskaflinn nær nýju hámarki á fjórða áratugn-
um, en fellur síðan er á áratuginn líður og að sjálf-
sögðu á stríðsárunum. Með vaxandi sókn næst
áður óþekkt aflahámark á sjötta áratugnum. Þrátt
fyrir áframhaldandi aukningu sóknar, fer aflinn
minnkandi síðar og hefur sveiflan verið niður á við
síðan. Á þessari þróun eru ýmsar skýringar, þótt
of mikil sókn og óhagstæð nýliðun af náttúruvöld-
um séu væntanlega helztar. Ef litið er á línuritið í
heild má draga þá ályktun, að aflatoppar, eins og
mynduðust á fjórða og sjötta áratugnum, geti haft
í för með sér skarpa sveiflu niður á við. Þess vegna
virðist og mega álykta að forðast beri slíkt
sóknarmynstur — að haga beri sókninni þannig að
nýta góða árganga ekki að fullu, heldur láta þá að
hluta bæta upp lélegri árganga, þar sem reynslan
sýnir, að árgangaskipan og nýliðun er jafnan
náttúrlegum sveiflum undirorpin. Að öðru
óbreyttu ætti slíkt sóknarfyrirkomulag í botnlægar
fisktegundir að vinna tvennt, i fyrsta lagi að
tryggja jafnari afla milli ára og tímabila og í öðru
lagi að leiða til betri afkomu þess fiskiskipastóls,
sem beitt er við veiðarnar. Forsenda þess er þá að
sjálfsögðu sú, að stærð flotans og sóknarmáttur sé
í samræmi við meðalafrakstursgetu stofnanna, en
ekki hámarksnýtingu góðra árganga einna.
Þótt menn séu að mestu sáttir við þessa kenn-
ingu, er þó gerður greinarmunur á áhrifum veiða
og náttúrunnar sjálfrar á viðkomu botnlægra
stofna annars vegar og stofna uppsjávarfiska hins
vegar. Virðast þeir síðartöldu viðkvæmari fyrir
áhrifum og samspili veiða og náttúrlegra kringum-
stæðna en hinir fyrrtöldu. Dæmi um þetta á síðari
áratugum er loðnan, norski vorgotsstofninn,
Norðursjávarsíldin og islenzku síldarstofnarnir.
Markaðir fyrir sjávarafurðir voru yfirleitt hag-
stæðir á árinu, þótt saltfiskur, saltsíld og skreið
skeri sig nokkuð úr, og nokkurrar stöðnunar hafi
gætt á freðfiskmörkuðum, m.a. vegna aukningar
framboðs okkar sjálfra svo og aukningar fram-
boðs og harðnandi samkeppni annarra strandríkja
e.t.v. helzt frá Kanada. Samkvæmt endurskoð-
uðum útreikningum þeirra, áætla þeir að auka
þorskveiðar sínar úr 336 þús. lestum á s.l. ári í
rúmlega 700 þús. lestir á árinu 1985. Þeir stefna að
því að veiða þett magn að mestu eða öllu leyti sjálf-
ir. Þá eru uppi áætlanir um nokkra aflaaukningu í
Norðursjó og á hafsvæði Efnahagsbandalagsins
almennt, bæði á botnfisktegundum ýmsum og á
síld.
Hinsvegar er búizt við minni afla botnfisks, sér-
staklega þorsks og ýsu, í Barentshafi og við norsku
ströndina.
Við megum því enn vænta harðnandi samkeppni
bæði á mörkuðum Evrópu og Bandaríkjanna. Að
auki verðum við i mörgum tilfellum að keppa við
þjóðir, sem ráða yfir miklu fjármagni og hafa efni
á að styrkja sjávarútveg sinn. Auk beinna styrkja
til útvegs og fiskvinnslu þessarra landa, eru vextir
niðurgreiddir. í mörgum tilfellum eru vextir ekki
nema 6-8% á óverðtryggð lán. Hvernig mætum við
Framhald á bls. 645
ÆGIR — 629