Tímarit lögfræðinga


Tímarit lögfræðinga - 01.06.1996, Page 33

Tímarit lögfræðinga - 01.06.1996, Page 33
hendi án þess þó að rjúfa tengsl samfélagsþjóns við umheiminn. Má í raun líta svo á að samfélagsþjónn sé í „afplánun“ þær klukkustundir er hann innir sam- félagsþjónustu af hendi. Form samfélagsþjónustu getur verið breytilegt frá einu ríki til annars. Hún getur verið sjálfstæð viðurlagategund, sett sem sjálfstætt skilyrði í tengslum við skilorðsdóma eða ákærufrestun, vararefsing við fésektum, tengd beitingu reynslulausnar eða náðunar auk þess sem samfélagsþjónusta getur verið viðurlagaúrræði sem kemur í stað refsivistar á fullnustustigi og var það form fyrir valinu hér á landi. 2.2 Hugmyndafræðin - kostir samfélagsþjónustu Árið 1976 samþykkti Evrópuráðið ályktun, „on certain altemative penal measures to imprisonment“, auk þess sem gefin var út skýrsla þar sem undirbúin var ályktun um „altemative penal measures to imprisonment“. í ályktuninni eru aðildarríki Evrópuráðsins beðin um að hugleiða kosti samfélagsþjónustu með sérstakri áherslu á það tækifæri sem þetta form viðurlaga gæti verið fyrir brotamann til að bæta fyrir brot sitt með vinnu í þágu samfélagsins og möguleika fyrir þjóðfélagið við að aðstoða við endurhæfmgu hins brotlega með því að samþykkja þátttöku hans í frjálsri atvinnustarfsemi. Með ályktun þessari og skýrslu sem henni fylgdi var lagður grunnur að þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í nágrannalöndunum um að draga úr notkun óskilorðsbundinnar refsivistar. I skýrslunni eru nefndar röksemdir fyrir því að draga úr fangelsun. Má sem dæmi nefna mannúðarsjónarmið. Með því að færa refsifullnustuna að hluta til út í samfélag frjálsra manna sé unnt að draga úr skaðlegum áhrifum hins lokaða fangasamfélags. Bent hefur verið á að vegna breyttra þjóðfélagshátta og meiri almennrar velsældar sé óskilorðsbundin refsivist orðin þyngri refsing nú en áður var. Stafi það fyrst og fremst af því að munurinn á fangelsissamfélaginu og hinu frjálsa samfélagi utan þess hafi aukist verulega. Sá maður sem afplánað hefur refsingu sína eigi því erfiðara með að fóta sig í samfélaginu á ný að refsivist lokinni en áður fyrr. Einnig megi nefna almenn og sérstök varnaðaráhrif en rannsóknir hafi sýnt að fangelsisrefsing sé ekki áhrifaríkari en aðrar viður- lagategundir í því skyni að halda mönnum almennt frá afbrotum í framtíðinni og brotamenn sem sætt hafa refsivist gerist ekki síður sekir um ítrekun brota að refsivist lokinni en þeir sem sæta öðrum viðurlögum. Refsivistin sem slík geti hins vegar styrkt neikvæða þróun hjá brotamönnum, ýtt undir deyfð þeirra og ósjálfstæði og neikvæða afstöðu gagnvart þjóðfélaginu. Að lokum má nefna hagkvæmnissjónarmið en refsivist er dýr kostur fyrir þjóðfélagið og er það án efa óumdeilt. Samfélagsþjónusta gefi kost á því að fækka föngum og spara þannig í refsifullnustukerfinu. Skortur sé á fangarýmum og því oft löng bið eftir því að menn geti afplánað dóma sína. Það sé því álitlegur kostur að nýta fangarýmin fýrir þá dómþola sem hlotið hafa þunga dóma í stað þess að fylla fangelsin af þeim mönnum sem jafnvel eru að afplána refsivist í fyrsta sinn eða hafa framið minni háttar brot. Það er ljóst að deila má um þau rök sem hér hafa verið nefnd. 109

x

Tímarit lögfræðinga

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Tímarit lögfræðinga
https://timarit.is/publication/586

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.