Tímarit lögfræðinga - 01.09.1997, Blaðsíða 55
við greiðslu efndabóta, kröfur um greiðslur sem eru persónulegs eðlis, rétt til að
afturkalla pöntun, höfnun greiðslu og skyldu samningsaðila til að draga úr tjóni
sínu, framkomu kröfuhafa og loks rétt og skyldu skuldara til þess að bæta úr
galla eða vanheimild.
Þorgeir Örlygsson. Dómareifcmir í kröfurétti I. Fjölrit. 1994. 33 bls.
Dómareifanir í kröfurétti voru gefnar út sem handrit til kennslu við lagadeild
HI. Þar er að finna reifun á 31 dómi er varðar heimild seljanda í fasteigna-
kaupum til þess að gjaldfella ógreiddar eftirstöðvar kaupverðsins, þ.m.t. skuld
samkvæmt óútgefnu skuldabréfi fyrir eftirstöðvum.
Páll Sigurðsson. Leiguréttur I - Meginreglur íslensks réttar um leigusamninga auk
nokkurra sérsviða. Háskólaútgáfan. 1995. 228 bls. Verð: 3.335 kr.
í bókinni Leiguréttur I er fjallað um þau atriði, sem talist geta einkenni á
öllum leigusamningum. Bókin skiptist í tvo hluta og 15 kafla. I fyrri hlutanum
er fjallað um almennar réttarreglur á réttarsviðinu, gerð grein fyrir megin-
hugtökum og einkennum leigusamninga, helstu tegundum leigusamninga,
helstu skyldum aðila, umráða- og nýtingarrétti leigutaka yfir leiguandlagi,
aðilaskiptum af hálfu leigutaka, áhættunni af því, að leiguandlag skemmist,
farist eða rými, vanefndum leigusamninga og vanefndaúrræðum og réttar-
stöðunni við andlát, greiðslustöðvun eða gjaldþrot aðila. í síðari hlutanum er
fjallað um leigu á landi, leiguábúð jarða og grunnleigusamninga. ítarlegar og
hefðbundar skrár fylgja, en auk þess er að finna sérstaka skrá yfir rit eftir
höfund bókarinnar.
Viðar Már Matthíasson. Dómar um fasteignakaup. Bókaútgáfa Orators. 1996. 559
bls. Verð: 5.500 kr.
í bók Viðars Más Matthíassonar prófessors eru reifaðir dómar, sem tengjast
yfirfærslu eignarréttar að fasteignum, einkum fyrir kaup og skipti. Um efnistök
og val á dómum segir höfundur í inngangi að leitast hafi verið við að taka alla
dóma, þar sem álitaefnið varðaði með einhverjum hætti réttarstöðuna milli
kaupanda og seljanda í fasteignakaupum. Var þá fyrst og fremst miðað við
kröfuréttarsamband þeirra. í sumum tilvikum taldi höfundur rétt að ganga
lengra og taka t.d. með dóma varðandi forkaupsrétt og dóma er varða
byggingarsamvinnufélög og réttarstöðu félagsmanna í þeim. Dómareifanirnar
eru ítarlegar og uppsetning reifana er í tímaröð, án kaflaskiptinga, og dómunum
gefin númer sem vísað er til í skrám ritsins. Við upphaf hverrar reifunar eru
málsaðilar tilgreindir og heiti þeirrar fasteignar sem málið varðar. Dómaskrá og
lagaskrá fylgir og auk þess ítarleg atriðisorðaskrá.
195