Tímarit lögfræðinga - 01.05.1999, Side 60
seljanlegra veiðiheimilda. Beint liggur við að taka hann af útgerðarfyrirtækjum
og dreifa um rikissjóð. En margar og flóknar ástæður eru til þess, að þetta þarf
ekki að vera heillaráð. Ein er, að þeir, sem eru í bestri aðstöðu til að hafa áhrif
á gæslumenn ríkissjóðs, eru ekki alltaf þeir, sem helst þurfa á fénu að halda eða
verðskulda það. Önnur er, að arðurinn hverfur ekki í höndurn 15-20 þúsund
hluthafa í útgerðarfyrirtækjum, heldur ávaxta þeir hann á einhvern hátt, nota
hann ýmist til neyslu eða íjárfestinga að ógleymdum venjulegum skattgreiðsl-
um. A þetta benti Adam Smith í hinu mikla riti sínu um Auðlegð þjóðanna.
Hann taldi, að í frjálsum viðskiptum yrði niðurstaðan að lokum svipuð því, að
öllum náttúrugæðum hefði verið skipt jafnt í upphafi. „í hverjum manni tak-
markast löngunin í mat af því þrönga rými, sem er í mannlegum maga,“ sagði
hann, „en löngun hans til skrauts og þæginda í húsakynnum sínum, klæðaburði,
útbúnaði og innanstokksmunum virðist ekki eiga sér neinn endi eða ákveðin
takmörk. Þess vegna eru þeir, sem hafa yfir meiri matvælum að ráða en þeir
geta sjálfir neytt, alltaf tilbúnir að skipta afganginum eða því, sem kemur í sama
stað niður, verðinu á þessum afgangi, fyrir svölun langana sinna af þessu seinna
tæi“.61 Smith kemur hér að kjarna málsins, sem er sá, að auðmenn njóta aldrei
einir góðs af batnandi hag. Aðrir njóta hans jafnan líka. Fiskur, sem íslenskir
útgerðarmenn veiða, hverfur ekki ofan í þá, heldur selja þeir hann og nota and-
virðið í útgerðarkostnað og ýmist í neyslu eða fjárfestingu. Fyrr eða síðar skilar
fiskveiðiarðurinn sér þannig til annarra.
Það skiptir hins vegar höfuðmáli, hvernig fiskveiðiarðurinn skilar sér til
annarra, hvort hann minnkar eða stækkar á leiðinni. Hin raunverulega spurning
er því sú, hvorir séu líklegri til þess að varðveita og ávaxta fiskveiðiarðinn
skynsamlega, tímabundinn þingmeirihluti atvinnustjórnmálamanna eða 15-20
þúsund hluthafar í útgerðarfyrirtækjum, síðar meir jafnvel enn fleiri hluthafar.62
Ef sá skilningur á þjóðareignarákvæði laganna frá 1990 um stjórn fiskveiða er
réttur, að nýta skuli sjávarfang á íslandsmiðum í samræmi við þjóðarhag, þá ber
að svara þeirri spurningu, og geta fáir verið í vafa um hið rétta svar.
61 Adam Smith: Auðlegð þjóðanna, I., XI., c., 132. bls. Sbr. einnig Adam Smith: The Theory of
Moral Sentiments, IV., 1., 10., 184.-185. bls., þar sem þessi höfuðsmiður hagfræðinnar kveður
jafnvel enn sterkar að orði.
62 í stefnuræðu sinni haustið 1998 setti Davíð Oddsson forsætisráðherra fram þá hugmynd, að
útgerðarfyrirtækin skiluðu þjóðarbúinu hluta af hinni nýju eign sinni, en ekki með greiðslum í
ríkissjóð, heldur afslætti á eignaraðild eða hlutafjáreign. Með öðrum orðum yrði þjóðin eða sá hluti
hennar, sem áhuga hefði á að hætta einhverju til, meðeigandi núverandi útgerðaraðila. Þetta væri
ekki órökréttara en þegar bankar selja almenningi hlutafé á verði, sem talið er undir markaðsverði.
Sjá „Stærstur hluti þjóðarinnar taki þátt í útgerð" á baksíðu Morgunblaðsins 2. október 1998.
Morgunblaðið, sem barist hefur hatrammlega gegn núverandi skipan fiskveiða, tók mjög vel í
hugmynd forsætisráðherra, sbr. „Reykjavíkurbréf 3. október" íMorgunblaðinu 4. október 1998.
54