Heilbrigðismál - 01.12.1991, Blaðsíða 23
HEILBRIGÐISMÁL /Ljósmyndarinn
áreynslu. Það fer eftir gerð
áreynslunnar hve líklegt er að hún
valdi astma. Sund, handbolti og
körfubolti valda til dæmis afar
sjaldan áreynsluastma, en hlaup,
sérstaklega úti í köldu lofti, veldur
oft einkennum hjá þeim sem hafa
áreynsluastma. Þó barn hafi
áreynsluastma þýðir það alls ekki
að það eigi ekki að stunda leikfimi
eða íþróttir; þvert á móti. Öll börn
hafa gott af líkamsþjálfun, ekki síst
börn með astma. Þau þurfa einmitt
að vera í sem bestu líkamlegu
ástandi til að geta tekist á við erfið
einkenni þegar þau koma. Barnið
verður að læra á áreynsluastmann,
hvernig koma má í veg fyrir hann
og hvernig líkamsþjálfun hentar
best. Börn geta oft aukið þrek sitt
smátt og smátt og þola þá ef til vill
áreynslu sem áður var þeim of-
viða. Það ætti því ekki að ákveða
neitt fyrirfram um það hvað börnin
geta gert í íþróttum, heldur láta
reyna á það og vinna smám saman
að settu marki.
Hvers konar geðshræringar geta
valdið astmaeinkennum. Geðs-
hræring er oft samfara áreynslu,
ekki síst hjá börnum, þannig að
einkennin geta stafað af blöndu af
þessu tvennu.
Sama barnið getur fengið ein-
kenni af öllum fyrrgreindum or-
sökum, einni eða fleiri í senn.
Astmi er arfgengur sjúkdómur. í
ættum barns með astma má oft
finna aðra ofnæmissjúkdóma
ásamt astma. Þessir sjúkdómar
virðast því erfast saman, en ekki
endilega þannig að barnið hafi
sama ofnæmissjúkdóm og systkini
þess eða foreldri.
Meðferð astma er fyrst og fremst
fólgin í að forðast það sem ein-
kennunum getur valdið og þess
vegna þarf fyrst að greina það. Lyf
sem slaka á vöðvum í lungnapípun-
um eru mikið notuð. Sterar eru oft
nauðsynlegir þegar einkennin eru
hvað verst, en þá nægir oft ekki að
gefa eingöngu lyf sem slaka á vöðv-
unum því bólga er í slímhúð og
slímmagn mikið. Á þessa þætti
vandamálsins geta sterar haft bæt-
andi áhrif. Að undanförnu hafa
astmalyf nær eingöngu verið gefin
sem innöndunarlyf og á þetta við
um alla aldurshópa, jafnvel er
hægt að gefa ungbörnum innönd-
unarlyf.
Af öðrum fyrirbyggjandi aðgerð-
um má nefna bólusetningu gegn
sjúkdómum sem gjarnan valda
einkennum hjá börnum með
astma. Inflúensa er slíkur sjúk-
dómur og einnig mislingar, enda
ættu öll börn með astma að fá misl-
ingabólusetningu við fyrsta tæki-
færi, eða um 18 mánaða aldur, en
þá svara þau bólusetningu vel.
Horfur astmasjúklinga fara eftir
ýmsu. Ungbörn sem ekki hafa of-
næmistilhneigingu eru flest laus
við astmann fyrir skólaaldur. Um
þriðjungur barna með astma og of-
næmi losna við astmann á fullorð-
insaldri, en þriðjungur þeirra sem
voru með astma sem börn hafa þá
áfram annars konar ofnæmisein-
kenni, til dæmis í nefi og augum.
Eitt helsta vandamálið í sam-
bandi við astma hjá börnum er að
mörg þeirra hafa ekki fengið rétta
sjúkdómsgreiningu og þar af leið-
andi ekki rétta meðferð. Oft eru
þessi börn sögð hafa berkjukvef
(bronchitis) og þeim eru gefin
sýklalyf sem ekki hjálpa við astma.
Þetta hefur komið fram í rann-
sóknum erlendis og vandamálið
virðist einnig vera til hér. Mjög
mikilvægt er að úr þessu verði
bætt. Með réttri meðferð má auka
vellíðan barna með astma. Þau
geta þá notið lífsins eins og önnur
börn og fengið að þroskast við
leiki, íþróttir og skólagöngu og
nýst þjóðfélaginu til jafns við aðra.
Björn Árdal læknir er sérfræðingur í
barnalækningum, ofnæmisfræði og
kiínískri ónæmisfræði barna. Hann
starfar á Barnaspítala Hringsins,
Landspítalanum. Þessi grein er byggð
á grein sem birt var í Fréttabre'fi Sam-
taka gegn astma og ofnæmi.
HEILBRIGÐISMÁL 4/1991 23