Fréttablaðið - 01.05.2010, Side 40
40 1. maí 2010 LAUGARDAGUR
N
okkrum mánuðum áður en syst-
urnar Ebba og Medora hittust
í fyrsta sinn höfðu þær komist
að tilvist hvor annarrar. Faðir
þeirra, J.T. Rorick, var banda-
rískur hermaður sem bjó á Íslandi í tvö til
þrjú ár undir lok seinni heimsstyrjaldar-
innar. Hann átti í ástarsambandi við unga
íslenska konu, Fríðu Jónsdóttur, sem alla tíð
var kölluð Dídí. Ávöxtur þess sambands var
Ebba, sem fæddist í febrúar árið 1945, nokkr-
um mánuðum eftir að J.T. fór frá Íslandi.
Yndisleg fósturfjölskylda
Alla ævi hafði Ebba Unnur vitað að hún ætti
bandarískan föður. Hún vissi líka að hann
hafði verið giftur í Bandaríkjunum og að
hún ætti þar tveimur árum eldri hálfbróð-
ur, sem faðir hennar hafði ekki enn hitt,
þegar hann var búsettur á Íslandi. Hún vissi
ekki mikið meira um föður sinn, enda barst
hann örsjaldan í tal á uppvaxtarárum henn-
ar. Ebba, sem ólst ekki upp hjá móður sinni
vegna erfiðra aðstæðna hjá henni, minnist
þess ekki að hafa saknað þess að vera í sam-
bandi við blóðföður sinn. „Ég lenti hjá alveg
yndislegum fósturforeldrum, fullorðnum
hjónum sem voru óskaplega góð við mig. Ég
hef stundum furðað mig á því sjálf af hverju
ég var ekki forvitnari um blóðföður minn.
Kannski var það bara vegna þess að ég var
svo ánægð. Ég hafði einskis að sakna.“
Þegar Ebba var tólf ára gömul kom
mamma hennar í heimsókn og hafði með-
ferðis þrjú bréf sem J.T. hafði skrifað henni,
eftir að hann fór frá Íslandi, og tvær myndir
af honum. Þær töluðu aldrei aftur um hann
sín á milli eftir það.
Ekki hrifinn af Ameríkubarni
Ebba er Jakobsdóttir en fósturfaðir henn-
ar hét Ingibergur. Þetta fannst krökkunum
í kringum hana skrýtið og þau voru forvit-
in um hver væri þá eiginlega pabbi hennar.
Þegar hún sagði þeim að hann hefði verið
amerískur hermaður höfðu þau mestan áhuga
á því að vita hvort hann væri ríkur. Að öðru
leyti fann hún ekki fyrir fordómum vegna
þess. Hins vegar vissi hún að það truflaði
nýjan eiginmann blóðmóður hennar að faðir
hennar væri frá Ameríku. „Hann var ekkert
hrifinn af því að búa með Ameríkubarni. Það
hefði verið alveg í lagi ef faðir minn hefði
verið Norðmaður eða Rússi. En hann var
samt alla tíð góður við mig. Og sjálf hafði ég
það svo gott hjá fósturforeldrum mínum að
ég vildi hvergi annars staðar vera.“
Leit hafin að fjölskyldunni
Það var ekki fyrr en Ebba var komin hátt
á sextugsaldur að hún fór að hugsa um að
reyna að hafa uppi á fjölskyldu föður síns
í Bandaríkjunum. „Bréfin og myndirnar af
honum voru alltaf einhvern veginn að detta
upp í hendurnar á mér. En ég var alls ekki
viss um hvort mig langaði til að gera eitthvað
í þessu, mér fannst það satt best að segja of
mikil fyrirhöfn. En þegar þarna var komið
sögu var þetta orðið þannig að það var allt-
af einhver að pota í mig. Svo dóttir mín fer
á stúfana. Og hún var ekki lengi að finna
heimasíðu um Rorick-ættina.“
Þær mæðgur fóru þó ekki lengra með
leitina í það skiptið. En svo var það nokkr-
um mánuðum seinna að Ebba var stödd í
eldhúsinu á Bifröst þar sem hún og eigin-
maður hennar störfuðu í langan tíma. Þar
var fræðimaðurinn Ian Watson að störf-
um. Hann varð vitni að því þegar Ebba var
að tala við útlending og hafði orð á því að
hún talaði nokkuð góða ensku. „Það liggur
kannski bara í blóðinu,“ svaraði Ebba þá.
Þá var forvitni Ians vakin og Ebba komst
að því að hans aða láhugamál er ættfræði.
Hann óskaði eftir því að fá að grafast frekar
fyrir um fjölskylduna. Ebba ýtti því á undan
sér í nokkra mánuði en lét loks til leiðast.
Hann var fljótur að finna upplýsingar um
fjölskylduna. Þá fyrst fékk Ebba að vita að
hún ætti ekki bara bróðurinn Jay í Annapol-
is heldur líka yngri systur í Oregon sem héti
Medora. Eftir nokkurra mánaða umhugsun
gaf Ebba Ian heimild til að hafa samband
við þau símleiðis. Bæði systkini hennar tóku
símtölum Ians vel, voru steinhissa en fyrst
og fremst forvitin um þessa týndu systur. Og
í því símtali kom líka í ljós að hún átti líka
yngri bróður, Mark.
Leyfðu mér að kynna mig
Fyrsta bréfið sem Ebba fékk frá þeim syst-
kinum í Bandaríkjunum var frá eldri bróður
hennar. Það hófst með þessum orðum: „Allow
me to introduce myself.“ Í bréfinu rakti hann
hversu undrandi þau systkinin hefðu verið
þegar þeim barst símtalið, en þau væru bæði
jafnframt forvitin og áhugasöm um að hitta
hana. Hann lýsti föður þeirra, sem hann
sagði hafa verið hlýjan mann sem elskaði
að tala, hlæja og rökræða. Hann sagði henni
frá því að faðir hennar hefði látist úr hjarta-
áfalli 63 ára gamall, þegar hann var úti að
skokka.
Ebba telur að áfallið hafi verið meira fyrir
Medoru, sem hafði verið einkadóttir föður
síns og alla tíð dreymt um að eignast dótt-
ur. Engu að síður tók hún Ebbu líka hlý-
lega. Í ljós kom að Medora hafði verið búin
að skipuleggja ferð til Norðurlandanna með
eldri dóttur sinni þetta sama sumar. Því
var fyrsti fundur þeirra strax skipulagður
í sambandi við það.
Margt er líkt með skyldum
Þegar Medora svo kom hingað til lands
um sumarið biðu hennar margar óvæntar
uppákomur. Sú fyrsta var að hitta fyrir þessa
hlýju systur sína á flugvellinum. Önnur var
þegar hún hitti son Ebbu, Ingiberg. Sá er svo
nauðalíkur afa sínum að það eitt að sjá hann
sló hana alveg út af laginu. Fleiri líkindi eru
með fjölskyldunum, bæði útlitsleg og karakt-
ereinkenni. „Yngri dóttir Medoru er á kafi í
þessum andlegu málum, eins og ég. Svo er
dóttir mín svo nauðalík Medoru á margan
hátt, bæði í sér og í útliti,“ segir Ebba, sem
hefur einu sinni hitt Medoru aftur, þegar
hún var í heimsókn hjá dóttur sinni í Kali-
forníu. Yngri bróðurinn á hún ekki von á að
hitta, enda er hann sjúklingur og hafi lítil
samskipti við fjölskylduna. Hún vonast eftir
að hitta eldri bróður sinn einn daginn.
Ebba er ánægð með og þakklát yfir að við-
brögð systkina hennar hafi verið svo jákvæð.
Annars segist hún hafa verið við öllu búin.
„Ég fer í gegnum lífið með það hugarfar að
ég hefði ekki látið það á mig fá hefðu þau ekki
viljað kynnast mér. Ég hefði bara skilið það
og ekki látið það trufla mig. Ég hefði frekar
hugsað: æ hvað þetta er leiðinlegt fyrir þau
að missa af því að kynnast svona æðislegu
fólki á Íslandi,“ segir hún og hlær.
Lifði í ólíkum heimum
J.T. Rorick dvaldi á Íslandi í tvö til þrjú ár.
Samkvæmt bréfunum sem hann sendi móður
Ebbu fór hann frá Íslandi til Englands og
þaðan til Belgíu, Frakklands og Þýskalands.
„Á bréfunum er greinilegt að það var mjög
skemmtilegt hjá honum. Hann var að skrifa
til móður minnar hvernig lífið væri þarna
og hvernig stúlkurnar væru og þar fram
eftir götunum. Medora systir mín fékk líka
hálfgert áfall þegar hún sá bréfin, enda sá
hún þarna glænýja hlið á ástkærum föður
sínum.“
Þegar J.T. kom aftur til Bandaríkjanna,
þegar stríðinu var lokið, hafði hann aldrei
framar samband við Dídí ástkonu sína og
dótturina á Íslandi. Ebba vissi því, sem fyrr
segir, lítið um hann. Því voru næstu mánuð-
ir áhugaverðir þegar Ebbu bárust frá systur
sinni ítarlegar upplýsingar um föður þeirra
og ættina. Hún komst að því að þegar hann
kom aftur heim til Bandaríkjanna hafi hann
upphaflega ætlað að læra óperusöng, en hann
hafi hins vegar orðið sögukennari og starfað
sem slíkur allt sitt líf.
Alltaf í langlínusambandi
Það yfirnáttúrulega hefur haft sitt að segja
með að leiða Ebbu og fjölskyldu hennar í
Bandaríkjunum saman. Sjálf lýsir hún því
þannig að hún sé í meira langlínusambandi en
margur. „Það stóð meðal annars alltaf maður
í svefnherberginu mínu, hár og grannur í
svörtum frakka. Svo var ég í nuddi í Borgar-
nesi hjá konu sem heitir Ebba og hún segir:
„Heyrðu, það stendur hérna hár og grannur
maður í svörtum frakka.“ Þá var mér allri
lokið. Fyrst hann er farinn að elta mig í nudd
hlýtur hann að eiga eitthvað brýnt erindi við
mig, hugsaði ég. Þegar ég svo sá myndirnar
frá fjölskyldunni sá ég að þetta var afabróð-
ir minn í föðurætt. Þau hafa bara verið alveg
ákveðin í því að koma þessum tengslum á!“
Ebba segist alla tíð hafa haft það á tilfinn-
ingunni að hún hafi verið getin í ást. Hún hafi
nú fengið sannfæringu fyrir því. „Mér fannst
það bara bráðfyndið þegar ég sá þau saman
í eldhúsinu á Bifröst. Þau eru mjög ánægð
saman í dag. Ég held að aðstæður hans hafi
bara verið þannig á þessum tíma hann gat
ekki verið með móður minni.“
Hittust í fyrsta sinn um sextugt
„Á Íslandi heilsast ættingjar með knúsi!“ Þannig tók Ebba Unnur Jakobsdóttir á móti systur sinni, Medoru, með opnum faðmi
þegar þær hittust fyrst í Leifsstöð sumarið 2008. Þá voru þær 60 og 63 ára. Nokkrum mánuðum áður hafði hvorug hugmynd um
tilvist hinnar. Hólmfríður Helga Sigurðardóttir tók hús á Ebbu sem sagði henni söguna af ástarsambandi hermannsins J.T. Roricks
og hinnar íslensku Dídíar og ákvörðuninni um að leita róta sinna á fullorðinsaldri, með hvatningu frá handanheimum.
NAUÐALÍK FEÐGIN Ebba Unnur Jakobsdóttir ber sterkan svip af föður sínum, sem hún hitti aldrei í lifandi lífi. Það gerir sonur hennar einnig, sem er lifandi eftir-
mynd afa síns. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI
MEÐ MYNDINA AF PABBA Medora, yngri systir Ebbu, kom til Íslands sumarið 2008 ásamt dóttur sinni. Þá
hittust þær systur í fyrsta sinn. MYND/ÚR EINKASAFNI