Sameiningin - 01.03.1954, Blaðsíða 32
30
Sameiningin
þessi mál óboðin heim í hennar garð líka um nýársleytið í
vetur, og fengu þær viðtökur, sem við mátti búast. ítalski
rithöfundurinn Giovanni Papini, sem fyrir þriðjungi aldar
samdi „Æfisögu Krists“ og snerist um leið til páfatrúar,
hefir nú fyrir skemstu samið bók, sem hann nefnir II Diavolo
—„Djöfullinn“. Höfundurinn telur ekki loku fyrir það skotið,
að Satan verði hólpinn á endanum.
„Guðfræðin mun halda áfram“, segir Papini, „að kveða
nei við allri von um fullnaðarsætt að lokum. En hjartað
býr yfir rökum, sem vitið þekkir ekki; og hjartað mun halda
áfram að vonast eftir jákvæðu svari“. Rætist þetta, þá muni
fækka íbúum innan við helgrindur hvað af hverju, vonar
hann. „Kristnir menn trúa því margir, að Guð sé sannur
faðir, sem ekki geti látið börn sín kveljast að eilífu, og að við
endalok aldanna muni miskunnsemin verða réttlætinu
yfirsterkari“.
Ummælum þessum var lítt fagnað í páfagarði. „Herfileg
vitleysa!11 var umsögnin þar. „Menn vita nú lítið um helvíti,
satt er það; en það sem við vitum er ljóst og ákveðið, af því
að Drottinn hefir sagt frá því sjálfur: Fyrst að helvíti er
til; annað, að þar er „óslökkvandi eldur“ (Mark. 9:43), og
þriðja, að refsingin er „eilíf“ (Matt. 25:46). Helvítiskenn-
ingin er ekki skoðunaratriði, heldur óbifanleg staðreynd
og megin-sannleikur, sem ekki verður raskað eins og lögum
í mannheimi. Kristnum mönnum er ekki heimilt að grufla
nokkuð út í þær sakir“.
En Papini lætur sig ekki. „Það er sitt hvað“, segir hann,
„að vera guðfræðingur, sem rígskorðar kenninguna, eða
óbreyttur kirkjumaður, sem bara þráir og vonar“. Þessa
von sína kallar hann ekki „guðfræði“ og verður því varla
sakaður um villulærdóm.
☆ ☆ ☆
Annars er eilífðarvonin ekkert nýmæli. Origenes kirkju-
faðir hélt því fram á 3. öld eftir Krist, að um síðir mundi
djöfulinn frelsast, og allir fordæmdir, í „endurreisn allra
hluta“. Og margir trúðu því. En sú kenning var ofurliði
borin síðar í fornkirkjunni. Þessa sömu von hafa ýmsir
mætir kirkjumenn aðhylst á vorum tímum, eins og Farrar
prófastur á Englandi, eða Martensen biskup hjá Dönum.
G. G.