Sameiningin - 01.03.1954, Blaðsíða 8
6
Sameiningin
sonararf, vildi ekki einn sitja að arfleifð sinnar eilífu dýrðar,
heldur hlutskipta henni með oss. Það kostaði hann krossins
kvöl að umbæta ófullkomleika allan þinn og bræðra þinna í
syndinni. Og þegar þú horfir inn í þennan helgidóm, þá
stillist gjörvallt hjartans böl. Þú getur sagt: Ég er Guðs
barn og bróðir þinn, blessaði Jesú, Herra minn, náð kann
mig nú ei bresta.
1 hinum pínda Jesú hefur Guð gjört lífsvandamál vor
öll að sínum. Það er engin neyð framar til, sem Guð hafi
ekki ofið inn í sitt skapandi, sigrandi líf, engin synd, sem
hann hafi ekki afplánað, enginn dauði, sem hann hafi ekki
að velli lagt.
Þetta er Hallgrími, eins og öllum kristnum mönnum
frá upphafi, fögnuður um að hugsa og um að ræða. Út frá
afli þessarar umþenkingar sindra neistar snilldarinnar í
samlíkingum, dæmum og lærdómum. Það er hin djúpa,
persónulega gagntaka þessarar boðunar, sem alls staðar
kyndir undir. Það er glóðin, varminn, sem andar gegn manni
úr hendingum hans, þaðan er kveikimáttur, lyftiafl þessara
ljóða.
III.
Skyldi þetta skáld ekki eiga eitthvað vantalað einnig
við vora samtíð? Ekki aðeins við krossberana, harmkvæla-
menn nútímans, ekki aðeins við þá einstaklinga, sem ekki
valda vanda einkalífs síns eða almennra málefna, heldur
við heiminn í heild, sem stendur vegvilltur og ráðþrota,
vegna þess að hann lýtur svo mörgum vanmáttugum gervi-
herrum, en þekkir ekki, lýtur ekki, viðurkennir ekki sinn
eina sanna Drottin?
Hinn trúarvissi boðskapur Passíusálmanna á erindi við
alla þessa spyrjandi, leitandi, áttavilltu, föllnu menn, sem
ekki þekkja neina dýpri merkingu í skuggaskiptum sögunn-
ar, ekki neinn bakgrunn handan við tímans svið, þekkja ekki
hjartað, sem þeirra vegna brast á Golgata, ekki hugann,
sem í áhyggju kærleikans fylgist með þeim úr himnunum.
Upp, upp mín sál.
Innsti leyndardómurinn í áhrifamætti Passíusálmanna
er sá, að þeir eru sannir. Þeir eru útlistun, boðun staðreynd-
ar, innblásin af þeim anda, sem Hallgrímur ákallar að upp-
hafi, þegar hann segir: