Morgunn - 01.12.1938, Page 65
MORGUNN
189
hliðum“ og „Sveitasögur". Síðustu árin hafa birst í tíma-
ritum smásögurnar „Reykur“ og „Hallgrímur“ og ef til
vill fleiri. Alls munu smásögur Einars vera nær þrem
tugum, flestar hinn yndislegasti skáldskapur og margar
ógleymanlegar, svo sem „Marjas“, „Góð boð“, „Vista-
skipti“, „Anderson" o. fl. — Leikrit hans eru þessi: „Lén-
harður fógeti“, „Syndir annara“, „Hallsteinn og Dóra“ og
„Jósafat". I smíðum mun hann hafa átt, er hann féll frá,
leikrit og stóra skáldsögu, en ekki er mér kunnugt, hversu
langt þeim verkum muni hafa verið komið. Ljóð hans voru
gefin út öðru sinni, nokkuð aukin, á 75 ára afmæli hans
(1934). Var mjög til þeirrar útgáfu vandað af hálfu út-
gefanda.
Kveðskapur Einars er ekki mikill að vöxtum. Og svo
er að sjá, sem hann hafi ekki lagt mikla rækt við ljóðgáfu
sína, hvorki fyrr né síðar, og metið meira annað form
skáldskaparins. En öll eru ljóð hans fáguð og mæta vel
kveðin.
Þess er að vænta, að ekki líði á löngu, að ritað verði
ítarlega um Einar H. Kvaran, skáldskap hans og áhrif á
hugsunarhátt þjóðarinnar. Hann var einn hinn áhrifa-
ríkasti maður sinnar samtíðar hér á landi og markaði
vafalaust dýpri spor í þjóðlífi voru en flestir aðrir, og þó
einkum að því, er tekur til hinna andlegu málefna.
Páll Steingrímsson.