Bankablaðið - 01.12.1977, Blaðsíða 27

Bankablaðið - 01.12.1977, Blaðsíða 27
maður sveitarinnar, Vilhjálmur Pálsson frá Sel- fossi. Að dæmi stórmeistaranna, Spassky og Larsen, höfðum við eiginkonurnar með í för- inni, því að mati þessara tveggja skákjöfra, eru þær heppilegustu aðstoðarmenn, sem völ er á. Ekki byrjaði ferðalagið gæfulega. Til að komast inn í gósenlandið, fríhöfnina, og þaðan út í flugvélina, þurfti fyrst að ganga í gegnum vopnaleit og vegabréfaskoðun. Og þá tók hóp- urinn að þynnast. Að vísu fundust engin vopn, en hjá undirrituðum og frú, fundust heldur engin vegabréf. I barnslegri einfeldni minni hafði ég álitið vegabréfaskoðun til Englands vera nokkuð, sem tilheyrði fortíðinni, og hægt að komast rakleitt í gegn, líkt og til Norður- landanna. En nú fékk ég sem sagt óþyrmilega að kenna á því, að slíku var ekki til að dreifa. Okkur var sagt skírt og skorinort, að lengra færum við ekki í dag, á morgun yrði næsta ferð og þá skyldum við reyna aftur, auðvitað með vegabréfin upp á vasann. Jæja, ekki var útlitið gott. Mér hafði einu sinni verið sagt, að í ferð sem þessari væri jafnan a. m. k. einn afglapi í hópnum. Og hér fór ekki á milli mála, hver hann var. Eftir nokkra bið hóf vélin sig á loft, og við stóðum þarna tvö ein eftir, líkt og illa gerðir hlutir. ,,Og svo þykist þú vera fararstjóri!“, sagði konan með ískaldri fyrirlitningu, um leið og vélin hvarf út við sjóndeildarhringinn. Nú reið á að láta sig hverfa sem skjótast, og ég var einmitt að laumast í áttina að sérleyfis- ferðinni Keflavík-Reykjavík, þegar nafn mitt var kallað upp í hátalaranum og ég beðinn að mæta í afgreiðsluna. Þar var fyrir einkennis- búinn maður, sem flutti okkur þá (gleði)frétt, að sökum vélarbilunar yrði flugvélinni snúið aftur, og ef við hefðum snögg handtök og fljóta fætur, gætum við kannske komist með henni eftir allt. Maðurinn gekk því næst í málið af mikilli röggsemi, hafði samband við nauð- synlega aðila og eftir klukkutíma var allt klapp- að og klárt, vegabréfin loks á réttum stað og við aftur komin í hóp farþeganna, sem höfðu flogið frá okkur fyrr um morguninn. Til Lundúna var komið um kvöldið og það var tilkomumikil sjón að fljúga yfir borg- ina. Ljósaslæðan á jörðu niðri breiddi úr sér líkt og risavaxinn glitrandi köngulóarvefur. Á. stöku stað gnæfðu skýjakljúfarnir upp úr flatneskjunni og allstaðar runnu iðandi ljós- elfur eftir götunum. Strax fyrsta morguninn var haldið út í enska haustblíðuna og næsta umhverfi skoðað. Fyrsta eftirtektarverða breytingin frá því hér heima, var andrúmsloftið. Það hreinlega tók í lungun við að anda því að sér, og af því var eitthvert kynlegt málmbragð. Næst var það klæðnaður enska kvenfólksins, sem vakti athygli okkar karlmannanna. Hér virtist helsti einkennisbúningur íslenska kven- fólksins, síðbuxurnar á hröðu undanhaldi, og konur klæddar eins og „sterkara kynið“ vill hafa þær. Fagrir fótleggir fengu óhikað að njóta sín, og litskrúðugir mátulega stuttir sumarkjólar voru ekkert að fela kvenlegan yndisþokkann. En þarna gat einnig að líta dapurlegri hliðar mannlífsins. Meðan við biðum eftir einum af þessum huggulegu 2ja hæða strætisvögnum, veitti ég athygli gömlum, tötralegum negra, sem staðnæmdist skammt frá okkur. Hann virtist tilheyra þeirri manngerð, sem ber al- eiguna með sér, og þurfti ekki stóran mal til. Eitthvað hafði bersýnilega vakið eftirtekt gamla mannsins, því hann gaut sífellt augum þangað, sem við stóðum, og virtist eiga í innri baráttu. Skyndilega beygði hann sig niður, og hirti upp af götunni einhverja þá ógeðslegustu hárgreiðu, sem ég hef augum litið. Sá gamli horfði rann- sakandi augnaráði á gripinn nokkra stund, og stakk honum síðan í vasann. Greiðan hafði sýnilega staðist gæðamatið, og þrátt fyrir lúið útlit, ekki enn lokið sínu ætlunarverki. Aaronson-skákmótið var haldið í útjaðri London. Þangað var drjúgur spölur, mun drýgri en við höfðum áætlað. Þó við hefðum ætlað okkur að mæta tímanlega í 1. umferðina, stóð á endum, að um leið og við komum í salinn, hófst keppnin. Þetta verkaði hálf illa á okkur, og eftir nokkra leiki vorum við allir komnir með áberandi verri stöður. Hilmar var sá eini sem hélt í horfinu, og gerði um síðir jafntefli í sinni skák. BANKABLAÐIÐ 27

x

Bankablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bankablaðið
https://timarit.is/publication/720

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.