Morgunblaðið - 23.03.2009, Blaðsíða 16

Morgunblaðið - 23.03.2009, Blaðsíða 16
16 Fréttir MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 23. MARS 2009 FRÉTTASKÝRING Eftir Þorbjörn Þórðarson thorbjorn@mbl.is ÖLLUM útibúum SPRON verður lokað og viðskiptavinum beint til Nýja Kaupþings. Á þriðja hundrað manns missa vinnuna samtals í Sparisjóðabankanum og SPRON í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið (FME) tók yfir starfsemina hjá báð- um fyrirtækjum. Flestir missa vinnuna „Mér sýnist á öllu að meirihlutinn missi vinnuna,“ segir Friðbert Traustason, framkvæmdastjóri Starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF), um yfirtöku SPRON og Sparisjóðabankans. Um 180 manns unnu hjá SPRON og færist hluti þeirra yfir til nýrra starfa hjá Nýja Kaupþingi og einhverjir munu sinna ráðgjafarstörfum hjá skilanefnd. 60- 70 manns unnu hjá Sparisjóðabank- anum. Á þriðja hundrað bankamenn eru því að bætast við þá 1.300 sem nú þegar eru atvinnulausir. „Ég hugsa til þess með hryllingi að þetta skuli gerast. [...] Ef við tökum fjölda starfsmanna í bönkunum áður en þessi bóla fór af stað þá voru starfs- menn í bönkunum rúmlega 4.000 talsins, áramótin 2003-2004,“ segir Friðbert. Hann segir að næstu skref hjá SSF séu að tryggja áunnin rétt- indi þeirra starfsmanna sem missa vinnuna. Fólk grátandi á Grand Hóteli Sérstök skilanefnd hefur verið skipuð yfir SPRON og hefur stjórn sjóðsins verið vikið frá. Á sérstökum fundi á Grand Hóteli í gær útskýrði Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, fyrir starfsmönnum hvern- ig staðan væri. Ólafur Már Svav- arsson, formaður starfsmannafélags SPRON, segir fundinn hafa verið mjög erfiðan og tilfinningaríkan. „Fólk var grátandi, stjórnin var klökk og þakkaði fyrir samstarfið. Þetta var í raun mjög átakanlegt,“ segir hann. Aðrir fundarmenn sem Morgunblaðið ræddi við tóku undir með Ólafi. „Fólk er slegið, það er ekkert öðruvísi,“ sagði einn þeirra. Yfirtaka sjóðsins hefði komið eins og þruma úr heiðskíru lofti. Menn voru óánægðir að þurfa að heyra tíðindin í útvarpinu, en starfsfólk heyrði fyrst af yfirtökunni síðdegis á laugardag. Öll útibú SPRON, nema útibúið í Borgartúni, verða lokuð í dag. Við- skiptavinir SPRON fá sjálfkrafa að- gang að innstæðum sínum og njóta annarrar bankaþjónustu hjá Nýja Kaupþingi. Sama gildir um við- skiptavini Netbankans, nb.is. Frjálsi fjárfestingarbankinn verður rekinn áfram í óbreyttri mynd um sinn. Séreignarsparnaður frystur FME hefur fryst tímabundið tvo sjóði sem SPRON rekur, verð- bréfasjóð og fjárfestingarsjóð rekstr- arfélags SPRON, en sjóðirnir hafa að geyma séreignarsparnað. Við- skiptavinir SPRON munu ekki geta fengið séreignarsparnaðinn greiddan út meðan sjóðirnir eru frystir. Ákvörðunin var tekin með hagsmuni og jafnræði eigenda hlutdeild- arskírteina að leiðarljósi. Ákvörðun um áframhaldandi rekstur sjóðanna verður hraðað eins og kostur er, að því er segir í tilkynningu frá FME. SPB fer í greiðslustöðvun „Það er ekki búið að loka bank- anum. Hann mun óska eftir greiðslu- stöðvun á morgun [í dag] en hann verður áfram til,“ segir Agnar Hans- son, forstjóri Sparisjóðabankans. Gert er ráð fyrir því í ákvörðun FME að bankaráð Sparisjóðabankans sitji áfram og hefur bankaráðið farið þess á leit við Agnar að hann verði áfram forstjóri. Innstæður sparisjóða í Sparisjóðabankanum færast til Seðlabankans og aðrar innstæður til Nýja Kaupþings. Spurður hvort ekki sé í reynd verið að leysa bankann upp í núverandi mynd segir Agnar að aðrir verði að svara því. „Það er alveg ljóst að þetta er ekkert stór hluti af efnahagsreikningnum. Aðrar inn- stæður voru einn til tveir milljarðar af þrjú hundruð milljarða efnahags- reikningi,“ segir Agnar. Yfirtaka FME á Sparisjóðabank- anum og SPRON mun ekki hafa neina röskun í för með sér fyrir starf- semi annarra sparisjóða í landinu. Þeir eru þó margir hverjir í rekstr- arvandræðum og sex sparisjóðir hafa nú þegar sótt um eiginfjárframlag frá ríkissjóði. Sjóðirnir þurfa að sýna fram á að með slíku framlagi sé hægt að koma á raunhæfri endur- skipulagningu á rekstri þeirra. Á þriðja hundrað missir vinnu  FME tekur yfir SPRON og Sparisjóðabankann  Öllum útibúum SPRON lokað og viðskiptavinum beint til Nýja Kaupþings  Tár féllu á fundi starfsmanna  Engin samkeppni í greiðslumiðlun Morgunblaðið/Golli Yfirtaka Gunnar Haraldsson, stjórnarformaður FME, og Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra tilkynntu um yfirtökuna á blaðamannafundi í Þjóðmenning- arhúsinu á laugardaginn. Gylfi kynnti jafnframt aðgerðir til að verja hagsmuni sparisjóðanna. Sex sparisjóðir hafa nú sótt um sérstakt eiginfjárframlag. 1. FME tekur yfir vald hluthafafundar SPRON og víkur stjórn félagsins frá störfum. Skipuð er skilanefnd yfir SPRON. 2. Nýja Kaupþing tekur yfir innistæður SPRON. Bankinn yfirtekur þó ekki peningamarkaðsinnlán frá fjármálafyrirtækjum sem kunna að eiga innlán hjá SPRON. 3. Nýja Kaupþing yfirtekur skuldbindingar samkvæmt inn- og útflutningsábyrgðum og ábyrgðir vegna efnda fyrirtækja og einstaklinga sem tengjast reglubundinni starfsemi. 4. Stofnað verður sérstakt hlutafélag í eigu SPRON sem tekur við öllum eignum félagsins og öllum tryggingaréttindum, þ.m.t öllum veðréttindum, ábyrgðum og öðrum sambærilegum réttindum sem tengjast kröfum SPRON. Hið nýja dótturfélag gefur út skuldabréf til Nýja Kaupþings tryggt með veði í öllum eignum sínum sem endurgjald fyrir hinar yfirteknu innlánsskuldbindingar. -Netbankinn verður lagður niður og færast innlán til Kaupþings -Öllum útibúum SPRON verður lokað -Frjálsi fjárfestingarbankinn verður rekinn áfram í óbreyttri mynd og verður hann eign hins nýja dótturfélags. Eiginfjárstaða SPRON hefur verið undir lögbundnum mörkum frá lokum október. Hefur FME veitt sjóðnum ítrekaða fresti til að koma á raunhæfri endurskipulagningu á fjárhag sjóðsins. Atburðarás: Yfirtaka FME á SPRON og Sparisjóðabankanum 12. mars FME óskar eftir nánari upplýsingum um það hvernig SPRON hyggst uppfylla kröfur um nauðsynlegt eigið fé og laust fé. 18. mars SPRON svarar FME og bendir á sölu fasteignabréfa til Íbúðalánasjóðs sem leið til að leysa fjármögnun félagsins. Er þar ráðgert að selja 43 milljarða króna skuldabréfasafn og í framhaldinu annað safn veðskulda- bréfa í erlendri mynt fyrir 20 milljarða. 20. mars Seðlabankinn bendir á að ólíklegt sé að þessi sala bæti eiginfjárstöðu SPRON. Til þess verði ávöxtunarkrafan í þessum viðskiptum að vera lægri en sú krafa sem liggur til grundvallar bókfærðu verði bréfanna hjá sjóðnum. Seðlabankinn metur stöðu SPRON þannig að hann geti ekki staðið við skuldbindingar sínar gagnvart viðskiptavinum eða kröfuhöfum. 21. mars FME óskar eftir svörum frá stjórnendum SPRON. Í svarbréfi SPRON sama dag segir að til þess að tryggja starfsemi sjóðsins þurfi frekari fyrirgreiðslu frá Seðlabankanum. SPRON óskar jafnframt eftir frekara svigrúmi til að leiða til lykta ágreining um uppbyggingu eiginfjárgrunns með lengingu lána. 21. mars Stjórn SPRON sendir síðdegis bréf til FME þar sem óskað er eftir því að gripið verði til aðgerða á grundvelli neyðarlaganna. Frá lokum október hefur eiginfjárstaða Sparisjóðabankans verið undir lögbundnum mörkum en FME hefur veitt bankanum ítrekaða fresti í því skyni að gefa bankanum kost á að endurskipuleggja fjárhag sinn. Í bréfi sem FME barst frá Seðlabankanum 21. mars er vikið að neikvæðri eigin- fjárstöðu og óviðunandi lausafjárstöðu Sparisjóðabankans. Það sé mat Seðla- bankans að staða Sparisjóðabankans sé óviðunandi og geti auk þess haft neikvæð keðjuverkandi áhrif á önnur fjármálafyrirtæki. Bankaráð sér sér ekki annað fært en að óska eftir því að FME grípi til úrræða. 1. Seðlabankinn yfirtekur skuldbindingar Sparisjóðabankans vegna innstæðna sparisjóða. 2. Greiðslumiðlun Sparisjóðabankans færist yfir til Seðlabankans. 3. Nýja Kaupþing yfirtekur innstæður annarra en sparisjóða. 4. Nýja Kaupþing yfirtekur skuldbindingar samkvæmt inn- og útflutningsábyrgðum og yfirtekur ábyrgðir vegna efnda fyrirtækja og einstaklinga sem tengjast reglubundinni starfsemi. Aðrir sparisjóðir Með neyðarlögunum var ríkissjóði veitt heimild til að leggja sparisjóðum til fjárhæð sem nemur allt að 20% af eigin fé hvers þeirra. Fjármálaráðuneytið hefur þegar móttekið umsóknir sex spari- sjóða um eiginfjárframlag frá ríkissjóði. Um er að ræða umsóknir frá Sparisjóði Norðfjarðar, Sparisjóði Keflavíkur, Spari- sjóði Vestmannaeyja, Sparisjóði Svarfdæla, Sparisjóði Bolungarvíkur og Byr sparisjóði. Greiðslumiðlun Sparisjóða- bankans færist yfir til Seðla- bankans í kjölfar þess að Sparisjóðabankinn var tekinn yfir. Greiðslumiðlun Seðla- bankans er í höndum banda- ríska bankans JP Morgan. „Það er að sjálfsögðu æskilegt að hafa fleiri en einn aðila á þessum markaði, eins og öll- um mörkuðum,“ segir Vil- hjálmur Egilsson, fram- kvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. „Það gefur augaleið að það er hætta á því að þjónustan verði dýrari en ella. Það þarf að láta á það reyna,“ segir Vilhjálmur og vísar til þess að sama lögmál gildi á þessum markaði og öðrum þar sem aðeins einn aðili veitir þjónustu. Fyrir bankahrunið sinntu stóru bankarnir þrír allir þessu hlutverki. Vilhjálmur segir að setja þurfi í forgang að byggja upp greiðslumiðlun hjá öðrum bönkum sem fyrst. Greiðslumiðlun til Seðlabankans STARFSFÓLK Sparisjóðabankans var á leið á árshátíð á laugardag- inn þegar þær fréttir bárust að bankinn hefði verið tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu. Það virtist þó ekki koma verulega niður á stemmningunni á árshátíðinni, sem haldin var á Hótel Sögu, að sögn þeirra starfsmanna sem Morg- unblaðið ræddi við. Menn hefðu fengið tækifæri til „að vera saman og deila tilfinningum með vinnu- félögunum.“ Einn starfsmaður Sparisjóðabankans sló á létta strengi og tilkynnti vinum og vandamönnum á samskiptasíðunni Facebook að Fjármálaeftirlitið yrði með sérstakt skemmtiatriði á árshátíðinni þá seinna um kvöldið. Þótti flestum það heldur ódýrt skemmtiatriði. FME með skemmtiatriði

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.