Saga - 1957, Blaðsíða 16
Fánatakan á Reykjavíkurhöfn
sumarið 1913.
Fimmtudaginn hinn 12. júní 1913 skeði at-
burður á Reykjavíkurhöfn, sem vakti mikla at-
hygli, „setti bæinn á annan endann“, eftir því,
sem segir í einu Reykjavíkurblaðanna. Ungur
maður, Einar Pétursson, nú stórkaupmaður,
réri út á höfnina í smábáti með lítinn fána,
hvítan kross í bláum feldi í afturstafni. Danska
varðskipið Islands Falk lá þá á höfninni, og tók
varðskipsforinginn fánann af Einari, því hann
taldi ólöglegt að hafa slíkan fána uppi. Þegar
Einar kom í land og þessi tíðindi spurðust, varð
nokkur æsing í bænum og borgarafundur var
haldinn um kvöldið í Barnaskólaportinu að til-
hlutun alþingismanna Reykjavíkur, þar sem at-
ferli hins danska varðskipsforingj a var mót-
mælt.
Hér á eftir verður sagt nokkuð nánar frá
fánatökunni og þeim afleiðingum, sem hún
hafði, svo og þeim röksemdum, sem haldið var
fram með og móti lögmæti hennar, ásamt öðru
því, sem skeði í bænum vegna hennar.
Atburður þessi varð til þess, að ný hreyfing
komst á fánamálið, sem hafði þá verið á döfinni
um tíma, og mun hann vafalítið hafa flýtt fyrir
endanlegri afgreiðslu þess. Að því leyti til má
skoða hann sem þátt í baráttunni fyrir viður-