Saga - 1983, Side 12
10
ANNA AGNARSDÓTTIR OG RAGNAR ÁRNASON
börn þræla. Bendir raunar ýmislegt til, að Árni og lærisveinn
hans, Jón Jóhannesson, hafi haft slíkar aðstæður í huga, eins og
síðar verður drepið á.
í hnotskurn er kenning Árna sú skemmtilega þversögn, að of-
fjölgun þræla, eða a.m.k. hættan á henni, hafi leitt til fækkunar
þeirra. Augljóst er, að forsendan fyrir því að hún fái staðist, er sú,
að eftir að útburðarleyfið var afnumið, hafi ekki verið hægt að
stemma stigu við fjölgun þræla með öðrum ráðum. Þetta getu-
leysi er því meginforsendan fyrir kenningu Árna. Sú forsenda
hvílir hins vegar á fremur veikum stoðum. í fyrsta lagi eru engin
gögn um að offjölgun þræla hafi verið talin horfa til vandræða á
11. öld. í öðru lagi er ekki að sjá, að bann við útburði barna hafi
truflað þrælahald í Noregi og Danmörku, þar sem það hélst leng-
ur en hér. í þriðja lagi eru það einungis getgátur Árna, að útburð-
ur barna hafi verið mikilvægasta aðferðin af þeim þremur, sem
hann nefnir, til að hamla á móti fjölgun þræla. Það er að visu
rétt, að vönun Gilla, sem var þræll Þorsteins Síðu-Hallssonar og
talinn uppi um 1050, er eina dæmið um geldingu þræls í fornbók-
menntunum.18 Þögn þeirra um slík efni er á hinn bóginn ótraust
tölfræði. Má í því sambandi nefna, að þar fer litlum sögum af út-
burði þrælabarna. Frelsisgjöf telur Árni hafa verið algenga á
landnámsöld, en ljær henni hins vegar engan sess i kenningu sinni
um endalok þrælahalds.19 í fjórða lagi má víst telja, að eigendur
þræla hafi búið yfir fleiri aðferðum til að takmarka fjölda þeirra
en Árni nefnir. Peter Foote bendir t.d. á, að útburðarleyfið hljóti
frekar að hafa átt við börn frjálsra manna, þar sem lögin leyfðu
húsbændum hvort sem var að ráðstafa lífi þræla sinna.20 Ljóst er,
að þessi gagnrýni á við talsverð rök að styðjast. Þótt útburður
barna hafi verið gerður ólöglegur skömmu eftir kristnitöku, liggur
fyrir, að eigendum var engu að síður frjálst að ráðstafa lífi þræla
18 Árni Pálsson, bls. 197, 199—200. Jón Jóhannesson, bls. 4.
19 Árni Pálsson, bls. 195. Björn Þorsteinsson, t.d., telur að frelsisgjöf hafi átt
sinn þátt i að draga úr þrælahaldi (bls. 130).
20 Peter Foote, bls. 62. Árni Pálsson bendir reyndar á þetta atriði, bls. 199.
Peter telur það einnig bera vott um „tilfinningasemi" hjá Árna að halda því
fram að nær eingöngu þrælabörn hafi verið borin út (bls. 62). Björn Þor-
steinsson (bls. 130) og Jón Jóhannesson (bls. 420) eru sammála Árna. Hér
má benda á, að útburður frjálsra (og ánauðugra) barna er algengt fyrirbæri í
heimssögunni allt fram á þessa öld.