Saga - 1983, Side 24
22
ANNA AGNARSDÓTTIR OG RAGNAR ÁRNASON
stað þræla í búrekstri. Þetta skeið stóð síðan, þar til þrælahaldi
hafði að mestu verið útrýmt. Meðan á því stóð mun hafa dregið
mjög úr lækkun vinnulauna, samkvæmt kenningunni, og þar með
nýju landnámi, þar sem fólksfjölgunin rann að mestu til að
mynda frjálst vinnuafl í stað þrælanna. Miðað við að hlutfall
þræla og frjálsborinna manna í lok landnámsaldar hafi ekki verið
yfir 3:5 er ólíklegt, að það hafi tekið frjálst vinnuafl mjög langan
tíma að útrýma þrælahaldi. Innan við öld og það nær hálfri en
heilli er nærtæk ágiskun í því efni.
Rétt er að staldra hér aðeins við og íhuga helstu sögulegar for-
sendur þessarar þróunar. Þær virðast einkum tvær: Önnur er sú,
að tiltölulega ör fólksfjölgun hafi átt sér stað hér á landi, a.m.k.
vel fram á 11. öld. Um það er auðvitað lítið vitað. Almennt virðist
þó álitið, að fólksfjölgun hafi verið veruleg til loka 11. aldar.50
Hin forsendan er sú, að eigendur þræla hafi getað fækkað þeim til
samræmis við efnahagslegar aðstæður. Ekkert bendir til þess, að
svo hafi ekki verið. Þá mátti leysa úr þrælkun og gera að frjálsu
vinnuafli. Þá mátti selja úr landi. Unnt var að stemma stigu við
fjölgun þeirra með því að stía kynjunum í sundur, með barnaút-
burði eða geldingu. Þá mátti að lokum drepa, t.d. með óbeinum
hætti, með slæmri aðbúð, eða beinlínis með aftöku. Síðast en
ekki síst er vert að hafa í huga, að þar sem aukning á framboði
frjáls vinnuafls nam vart meiru en náttúrulegri fólksfjölgun á ári
hverju, tók sú fækkun þræla, sem hér um ræðir, vafalaust marga
áratugi og hefur því varla verið ýkja stórtæk frá einu ári til ann-
ars.
Þegar frjálst verkafólk hafði að mestu tekið við hlutverki þræl-
anna, án þess þó að fólksfjölgun hafi stöðvast, er líklegt, að laun
hafi aftur tekið að lækka hratt. Þá hefur farið saman fjölgun
verkafólks á æ lægri launum og nýtt landnám á skársta landinu,
sem eftir var. Það ferli hefur haldið áfram, uns sultarmörkum var
náð og fólksfjölgunin stöðvaðist. Að mati ýmissa fræðimanna
mun fólksfjölgun á íslandi hafa stöðvast að mestu á 12. öld.51
Eins og fram hefur komið virðast fyrirliggjandi þekkingarmolar
um atburðarás þjóðveldisaldar i bærilegu samræmi við meginatrið-
50 Sjá línurit Jóns Steffensens, bls. 264.
51 Sama heimild og sjá línurit Sigurðar Þórarinssonar, „Sambúð lands og lýðs í
ellefu aldir,“ Saga íslands, I, (Reykjavík, 1974), bls. 94.