Saga - 1983, Page 76
74
SVEINBJÖRN RAFNSSON
er talið einkennast af úrvinnslu afurðanna, þá er jarðræktin að
hluta látin þjóna kvikfjárræktinni sem vex að nýju. Auðvitað eru
þetta megindrættir í alhæfingu en fela þó í sér ákveðinn sannleiks-
kjarna.1
Verulegar kollsteypur í íslensku mataræði virðast ekki verða
fyrr en á 19. og 20. öld. Fyrir þann tíma hafa landsmenn að mestu
lifað á því sem landið gaf af matvælum, þ.e. kjöti, mjólkurafurð-
um og fiski. Innflutt fæða hefur aðeins verið lítið brot af heildar-
fæðu landsmanna og ekki fengist þá frekar en nú öðruvísi en í
skiptum fyrir útfluttar matarafurðir. íslendingar hafa aldrei getað
svo nokkru nemi aukið arðsemi landsins með kornrækt og því
hafa þeir aldrei orðið aðnjótandi annars þróunarstigsins sem lýst
var hér að framan. Það skýrir einnig að hluta hvers vegna aldrei
hefur orðið til milljónaþjóð i landinu. En á 18. öld rofaði fyrir
miklum breytingum í mataræði í Evrópu og einnig hér á landi. Frá
þeirri öld eru fyrstu ítarlegu lýsingarnar á mataræði íslendinga al-
mennt.
Ekki er hlaupið að því að fást við sögu næringar og mataræðis.
í grein í franska sagnfræðitímaritinu Annales E.S.C. árið 1975
hefur M. Aymard bent á nokkrar leiðir til að rannsaka næringar-
sögu. Hann bendir í fyrsta lagi á að rannsaka megi félagsleg og
sálfræðileg viðhorf manna til mataræðis. Mannskepnan telur sig
yfirleitt ekki lifa á næringarefnum heldur á ,,mat“ af ýmsu tagi.
,,Matnum“ tengjast tiltölulega strangar reglur og venjur um gild-
ismat, siðaboð og táknræna merkingu, og þess konar reglur breyt-
ast oft afar hægt. í öðru lagi bendir hann á nokkurs konar hag-
fræðilega leið til að rannsaka næringarsögu, þ.e. að reyna að
komast að tölfræðilegum viðmiðunum varðandi framleiðslu mat-
væla, neyslu, verslun, verðlag og fólksfjölda. í þriðja lagi bendir
hann á að rannsaka megi næringargildi fæðuefna sem tiðkast hafi
fyrrum og athuga um leið það sem áfátt var bæði hvað varðaði
magn og gæði. Þessi leið sé augljóslega ekki sú auðveldasta því að
ýmis hin einföldustu og hversdagslegustu atriði geti kippt stoðun-
um undan rannsókninni.2
1 Sjá um þetta mál t.d. W.Abel, Stufen der Ernáhrung. Göttingen 1981.
2 Greinin hefur verið þýdd á ensku, M.Aymard, Toward the History of Nutrit-
ion: Some Methodological Remarks. Food and Drink in History. Selections
from the Annales Economies, Sociétés, Civilisations. Ed. by R.Forster and
O.Ranum. Baltimore 1979, bls. 1 —16.