Saga - 1983, Side 303
RITFREGNIR
301
lávarðar 1131. Þar hefur höfundur stuðst við danskan annál (258), en Saxa
fróða verður hann fyrst verulega háður í frásögninni eftir 1146. Menn hafa
staðhæft að hann hafi ekki þekkt verk Saxa, heldur hafi báðir ausið af sameig-
inlegum fræðabrunni, en Bjarni Guðnason telur þær staðhæfingar á misskiin-
ingi reistar.
Knýtlinga saga segir frá afkomendum Knúts, og mun átt við Knút ríka, eins
og Bjarni bendir á (form. 72-73). Henni lýkur eins og í riti Saxa árið 1187, og
hún telst næst rækilegasta ritheimild um sögu Dana fyrir þann tíma; Gesta
Danorum er eina ritið, sem tekur Knýtlingasögu fram. Höfundur hefur stuðst
við samtíðarkvæði, þegar hann segir frá kóngum eins og Knúti ríka og Eiríki
Sveinssyni góða, en af mörgum kóngum hefur hann fátt eitt frétt. Sagan af
Knúti helga er ágætust, af því að þar hefur höfundur snilldarlegar helgisagnir
sér til aðstoðar. Annars geyma Danakonunga sögur fjölskrúðugt safn af frá-
sögnum um bræðravíg, byggðabrennur, njósnir og kvonföng; grimma valda-
baráttu, þar sem orð og eiðar voru sjaldan virtir.
Knýtlinga saga styðst mjög við bækur, sem áður höfðu verið skrifaðar um
sögu Noregs og Danmerkur; hún er frumheimild um fátt, en hefur oft aðra
afstöðu til hlutanna en eldri rit. Danakonungar eru hennar fólk, en í Noregs-
konunga sögum andaði oft köldu í þeirra garð. íslendingar vildu hreinsa
mannorð sitt af illmælgi á dögum danska stórveldisins á 13. öld.
Danakonunga sögur hafa ekki birst áður hér á landi, þótt þær hafi verið
marggefnar út erlendis. Málum er þó þannig háttað, eins og Bjarni segir í for-
mála, að „langar stundir mun Knýtlinga saga, þar sem list höfundar rís hæst,
þykja jafngirnileg til lestrar og þurrvísindalegar og brotakenndar greinagerðir
sagnfræðinga 20. aldar, sem þrátt fyrir allt komast litlu nær sögulegum sann-
leik um ýmsa atburði í 11. og 12. aldar sögu Dana en höfundur Knýtlinga
sögu“ (form. 179).
Alþjóðastjórnmál og upphaf íslenskrar sagnaritunar
Mikill fengur er að formála Bjarna Guðnasonar fyrir Danakonunga sögum
og rannsóknum hans á sögu sagnanna. Mér þykir formálinn heldur langur og
orðmargur, en hann er mikilvægt framlag til íslenskrar bókmenntasögu og
glæðir skilning á því, af hverju íslendingar voru önnum kafnir að skrifa um
erlend stjórnmál á 12. og 13. öld. Helgi Þorláksson birti brautryðjandaritgerð
um íslenska utanlandsverslun um 1200 í bókinni Snorri Sturluson 1979 og
Bjarni Guðnason um sambandið forna við Danmörk.
Um 1100 höfðu orðið mikil tíðindi á íslandi og Norðurlöndum. Hér voru
stofnaðir tveir biskupsstólar, tíund lögleidd og erkibiskupsstóll var stofnaður
í Lundi í Danmörku; höfuðstöð norrænnar kirkju var flutt frá Brimum í Sax-
landi norður til Danmerkur. Jón Ögmundarson frá Breiðabólstað í Fljótshlíð
yar kjörinn fyrstur biskup til Hóla. Kjöri hans hafa ráðið þeir Gissur biskup
ísleifsson í Skálholti, Sæmundur fróði í Odda á Rangárvöllum, Hafliði Más-