Saga - 1983, Page 308
306
RITFREGNIR
íslandi, stundum kennd við Jens Söffrinsson fógeta og síðar borgarstjóra í
Kaupmannahöfn, og tilraunir Pros Mundt höfuðsmanns til að gera jarðabók
yfir alit ísland 1638 og 1643. Enn fremur sýnir höfundur fram á að til hefur
verið jarðabók um allt land frá um 1658 úr tíð Hinriks Bjelkes. Nú er aðeins
til hluti af þessari jarðabók, um ísafjarðarsýslu, sem stundum hefur hlotið
nafnið jarðabók Þorleifs Kortssonar. Um þessar síðastnefndu jarðabækur
frá 17. öld vitnar höfundur kannski óþarflega mikið til Espólíns, því að auð-
vitað er Espólín annars flokks heimild sem stuðst hefur við hinar prentuðu
Hrappseyjarfororðningar (um jarðabók 1638 í II. bindi, bls. 416; jarðabók
1643 í II. bindi, bls. 444 og jarðabók Bjelkes 1658 í III. bindi, bls. 65).
í einkar fróðlegum kafla er skýrt hvernig búfjárleigur annars vegar og land-
skuld hins vegar sveiflast með mismunandi hætti á 18. öld eftir því hvort yfir
dynja farsóttir eða hafísar, kuldar og vætutíð. Sýna útreikningar Björns úr
jarðabókunum að farsótt (þarna Stórabóla) veldur svipaðri lækkun bæði á
leigum og landskuld, hins vegar veldur slæmt veður (þarna „sjö hallærisár"
18. aldar, þ.e. 1752-3 og 1755-9) meiri lækkun leigna en landskulda.
Ekki er síður mikilsverður yfirlitskafli í þessari bók um sölu konungsjarða
og eignarhald bújarða á íslandi frá um það bil 1540/50 til 1861. Meginástæð-
urnar til breytinga á eignarhaldi jarða, þ.e. eignatilfærslna milli krúnu, kirkju
og einkaaðila eru skýrðar. Jafnframt er breytingunum lýst tölulega. Hér er að
sjálfsögðu um eitt meginmál í sögu íslendinga að ræða.
f tveimur síðustu köflum bókarinnar er rakin glíma f slendinga við að aðlaga
hið afgamla skattkerfi sitt að peningaefnahag á 19. öld með nýrri jarðabók eða
fasteignamati. Þrátt fyrir miklar bollaleggingar varð skattgildi jarða í hinni
nýju jarðabók 1861 mjög svipað og í fyrri jarðabókum. Ástæðurnar til þess
telur Björn einkum tvær. í fyrsta lagi varð ekki framleiðsluaukning að marki
í íslenskum landbúnaði fyrr en um síðustu aldamót. í öðru lagi vísar hann til
umræðnanna á Alþingi um jarðamatsmálið en þar var lögð áhersla á að gamla
hundraðsreikningnum yrði haldið þar sem hann hefði sannað gildi sitt um
margar aldir.
Þrennt telur Björn hafi einkum orðið til að ryðja frjálsara efnahagslífi braut
á íslandi á 19. öld. í fyrsta lagi að opinberar jarðir voru seldar einkaaðilum, í
öðru lagi að ný lög um erfðir 1851 losuðu um bönd á eignarrétti á fasteignum
og í þriðja lagi að utanríkisverslunin var gefin alfrjáls 1855.
f bókinni eru 30 töflur þar sem m.a. er sýndur samanburður á lögbýlatölu,
leigukúgildum og landskuld í hverjum hrepp á íslandi samkvæmt jarðabókun-
um. Þá eru einnig 4 teikningar (kort og línurit) í bókinni. Án efa er þetta ein-
hver merkilegasta rannsókn á íslenskri sögu sem út hefur komið hin síðustu
ár. Það er þvíleitt að hún skuli koma út í jafn fátæklegum búningi, þ.e. offset-
prentuð eftir vélriti, en uppsetning og myndir í ritinu gjalda þess. Gaman væri
að fá þetta verk fallega útgefið í vandaðri íslenskri þýðingu. Höfundi óska ég
til hamingju með þessa mikilvægu og yfirgripsmiklu rannsókn.
Sveinbjörn Rafnsson.