Saga - 1983, Page 321
RITFREGNIR
319
Sveinbjörn Blöndal: SAUÐASALAN TIL BRETLANDS
(Ritsafn Sagnfræðistofnunar 8, ritstj. Jón Guðnason), Rvík
(Sagnfræðistofnun Háskóla íslands) 1982.
Áttunda heftið í Ritsafni Sagnfræðistofnunar er, eins og hið fimmta, BA-
ritgerð, yfirfarin en ekki endursamin. Ritgerð Sveinbjarnar Blöndal um
sauðasöluna, samin hjá Gunnari Karlssyni, er ekki einungis hin mesta fyrir-
myndarritgerð í stóru og smáu, heldur er hún að því leyti mjög útgáfuverð að
bún flytur fyllri og traustari fróðleik en áður var aðgengilegur um forvitnilegt
og mikilvægt svið íslandssögunnar.
Um fyrstu tilraunir til sauðasölu hefur verið fjallað á bókum, og rekur
Sveinbjörn það efni lauslega; sömuleiðis drepur hann á lokaskeið sauðasöl-
unnar og fer þar mest eftir hagskýrslum. En aðallega er rannsóknartímabil
hans áratugirnir 1876-96, en á því skeiði stóð sauðasalan hvað hæst.
Sveinbjörn athugar mjög rækilega, hve mikil sauðasalan hafi í rauninni
verið, og eru niðurstöður hans um það birtar í töfluviðauka, bls. 67-80, en
skýringar og ályktanir í II. kafla bókarinnar. í stað prentuðu hagskýrslnanna
leggur Sveinbjörn til grundvallar frumskýrslurnar, sem leyfa ekki aðeins
skiptingu á hafnir, eins og hinar prentuðu, heldur eftir útflytjendum og að
mestu eftir einstökum skipsförmum. Síðan hefur hann fínkembt blöð og
fréttarit tímabilsins og tínt þaðan upplýsingar um fjölda útfluttra sauða, sem
ýmist lúta að einstökum skipsförmum eða eru heildartölur fyrir héruð eða
útflytjendur. í þriðja lagi hefur hann kannað bækur og ritgerðir um sögu
kaupfélaga tímabilsins, þær sem tölur birta um sauðasöluna, runnar frá fé-
lagsgögnum. í fjórða lagi áætlar hann stærð nokkurra farma, sem hljóta að
hafa verið sendir þótt tölur vanti um þá. Út úr þessu kemur skýrsla sem flest
árin bætir miklu við upplýsingar verslunarskýrslnanna og er í öllu miklu
traustari, þótt ekki megi gera ráð fyrir að hún sé hárnákvæm.
Hve mikil er hættan á að enn vanti í skrána heila sauðafarma? Til að meta
það þyrfti að vita það sem hvergi kemur skýrt fram; hve mikið af útflutningi
samkvæmt verslunarskýrslum er ófinnanlegt í frásögnum blaðanna. Séu
heimildirnar báðar mjög gloppóttar, er hætt við að eitthvað af gloppunum
standist á og farmar séu horfnir sporlaust. Þó hefur Sveinbjörn svo glögga yfir-
sýn yfir starfsemi helstu sauðasalanna að hann getur áætlað hvaða farma
Vanti, aðallega frá Kaupfélagi Svalbarðseyrar. Eftir því sem segir (bls. 32) um
sauðakaupmanninn Fr. Franz, að hann hafi keypt um allt land í þrjú ár, ætti
raunar að vanta í skrána útflutning hans 1896 og farma hans frá Austurlandi
1894 og 95, en þarna hygg ég skráin sé rétt og hitt missögn, ein af örfáum í
mJög vandaðri heimildaúrvinnslu höfundar.
Ég er hræddari um oftalningu sauðanna 1884 og85, en þar tekur Sveinbjörn
taark á háum tölum prentuðu verslunarskýrslnanna um sauðaflutning frá