Saga - 1983, Side 338
336
RITFREGNIR
með afdrif þessarar hugmyndar, en skóli var ekki reistur á Austurvelli árið
1786 eins og kunnugt er. Sú skýring er gefin í greinargerð einni, sem varðveitt
er í skjölum Hólavallarskóla í Þjóðskjalasafni, að hinir beztu menn hafi talið
byggingarstæðið á Austurvelli of mýrlent fyrir skólabyggingu. Þá kom til álita
að reisa húsið fyrir vestan dómkirkjuna, en við nánari athugun komust menn
að þeirri niðurstöðu, að þar væri of þröngt fyrir skólann. Niðurstaðan varð
því sú, að hann var reistur austanvert í hæð þeirri, sem er vestan Tj arnarinnar.
Þeim stað er einnig talið það til ágætis í samtímaheimildum, að þar verði
skólapiltar í hæfilegri fjarlægð frá Reykjavíkursollinum. Páll fjallar um skipu-
lagsmál Akureyrar í níunda kafla, enda fékk bærinn kaupstaðarréttindi árið
1862. Þar munu flest kurl koma til grafar, en fróðlegt hefði verið að fá stutta
lýsingu á tillögum Stefáns Þórarinssonar um norðlenzkan höfuðstað á Akur-
eyri, en þar mun í fyrsta skipti á síðari öldum vera sett fram krafa um jafnvægi
í byggð landsins. Greinargerðir um þetta efni eru varðveittar í skjölum skóla-
stjórnarráðsins m.a. Loks hefði undirritaðan fýst að vita, hvort uppdráttur sá
af Flatey á Breiðafirði eftir Samúel Eggertsson, sem hann hefur handleikið,
kunni að hafa verið gerður í tengslum við starf Samúels á vegum Brunabóta-
félags íslands. Páll getur nokkurra annarra þéttbýlisstaða, sem Samúel teikn-
aði uppdrætti af á vegum þess félags.
Höfundur gerir í tíunda kafla grein fyrir nokkrum atriðum varðandi verkið.
Nafna- og heimildaskrá er prentuð í bókarlok svo sem vera ber í verki sem
þessu.
Ótvíræður fengur er að riti Páls fyrir áhugamenn um skipulagsmál og
unnendur sögulegs fróðleiks. Fræðileg vinnubrögð eru í heiðri höfð, en auk
þess er bókin í senn hin mesta fróðleiksnáma um þetta svið og vel rituð og
skipulega. Ekki verður annað séð en Páll hafi með ritun hennar skipað sér í
sveit þeirra lögfræðinga, sem bezt hafa fjallað um söguleg efni, og er þá all-
mikið sagt. Frágangur er góður, og er bókin báðum til sóma, höfundi og útgef-
anda. Einu íhugunarefni skal þó gaukað að Páli Lfndal að lokum. Hliðstætt rit
um skipulagsmál eftir 1938 hefur enn ekki verið samið.
Lýður Björnsson.
Helgi Einarsson: A MANITOBA FISHERMAN. Translated
from the Icelandic by George Houser. Winnipeg 1982.
Einhverjum kann að þykja sem hér skjóti heldur skökku við, þegar athygli
íslenzkra lesenda er beint að enskri þýðingu og kanadískri útgáfu vesturís-
lenzkrar bókar, sem á sínum tíma kom út á íslenzku í Reykjavík (Ævisaga
Helga Einarssonar frá Neðranesi í Stafholtstungum í Mýrasýslu, íslandi.
Skrifað af honum sjálfum - Byrjað við Lake St. Martin, 3. apríl 1920. -